fbpx

OPNUN UM HELGINA // THE SHED – FALINN GIMSTEINN Í HAFNARFIRÐI

Fyrir heimiliðÍslensk hönnunMæli með

Um helgina opnar formlega The Shed sem er í eigu Ýrar Káradóttur og Anthony Bacigalupo. Þau hjónin hafa um árabil hannað undir merkinu Reykjavík Trading co. þar sem fókusinn er á handgerðar gæðavörur fyrir heimilið. Undanfarna mánuði hafa þau unnið hörðum höndum að því að breyta bílskúr sem stendur í bakgarði þeirra í vinnustofu, búð og sýningarrými og óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Rýmið er undir miklum áhrifum frá Kaliforníu og Skandinavíu og margskonar plöntur skapa þar einstaklega fallega og hlýlega stemningu. Í búðinni má finna vörur sem þau búa sjálf til á vinnustofunni auk hluta frá ýmsum heimshornun en allt sem þau kaupa inn kemur frá sérvöldum birgjum og er í takmörkuðu upplagi. Þar má til dæmis nefna fallega klúta og púða frá Block Shop Textiles í LA og dýrðlega ilmi frá Maison Louise Marie.

Það er svo sannarlega þess virði að gera sér ferð í Hafnarfjörðinn á laugardaginn, og fyrir þá sem hafa áhuga er einnig opið hús í Íshúsi Hafnarfjarðar og tilvalið að renna þar við í leiðinni.

The Shed er á Suðurgötu 9 í Hafnarfirði og opnunin stendur yfir frá 15:00-18:00, laugardaginn 5. október. Boðið verður upp á léttar veitingar, þar á meðal ,,Sultuslakan” síder frá Ægi Brugghús sem er búin til úr eplum og íslenskum rabarbara.

Nánari upplýsingar má finna á www.reykjaviktrading.com eða á instagram/facebook @rvktradingco og @shedhomesupply

The Shed er annars opið eftir samkomulagi og nánari upplýsingar um opnunartíma verða auglýstir hjá þeim síðar.

Ég kíkti nýlega við hjá þeim í The Shed og heillaðist upp úr skónum. Einstakt vöruúrval og garðurinn er ævintýri líkastur, búið að nostra við hvern krók og kima. Svo sannarlega þess virði að kíkja í heimsókn og fyllast innblæstri. Hér að neðan má sjá brot af vöruúrvalinu –

Síðast en ekki síst er það órói drauma minna – það fallegasta sem ég hef augum litið.

Takk Ýr og Anthony fyrir að leggja ykkar að mörkum að fegra allt umhverfi ykkar – þvílíkur happafengur fyrir miðbæ Hafnarfjarðar ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

FAGURKERINN : ÍRIS ÓSK LAXDAL

Skrifa Innlegg