FYRSTU -15 KG MEÐ FITSUCCESS

Persónulegt

Það er heldur betur kominn tími á smá stöðutékk á mér en ég fékk í gær send skilaboð frá lesanda hvort ég væri ennþá í fjarþjálfun hjá FitSuccess – og svarið er sko aldeilis JÁ. Einnig hafa nokkrar verið forvitnar hvernig þetta allt virkar.

Ég var frá upphafi búin að ákveða að leyfa ykkur að fylgjast með svona til þess að setja smá pressu á mig sjálfa í leiðinni, en engar áhyggjur ég ætla ekki að birta neinar fyrir myndir af mér í þessari færslu;) … en halelúja hvað ég sé mikinn mun þegar ég skoða myndirnar sjálf og það gefur mér ótrúlega mikla gleði. Í dag hefur mér tekist með aðstoð heimsins bestu þjálfara að ná af mér 15 kílóum sem mér þykir vera mikill sigur þó enn sé langt í land. Þetta er allt gert án öfga og ég borða mjög venjulegan mat sem ég held að sé galdurinn. Ég var nefnilega alltaf að leita að einhverri töfralausn og hlustaði á hvaða ráð frá nánast hverjum sem var til að léttast en aldrei gekk neitt upp, ég nennti ekki lengur að prófa enn einn kúrinn og að pína mig sjálfa því það er ávísun á stórslys hvað varðar matarræði hjá mér. Ég hef jú prófað þetta allt – nefndu það og ég lofa ykkur að ég hef prófað – en ekkert gengið til lengdar.

Ég upplifi ekki að ég sé á einhverjum “kúr” núna heldur smellpassar planið sem ég fæ frá stelpunum við mitt daglega líf og ég borða sama mat og aðrir á heimilinu, þetta er því bara heilbrigður lífstíll sem ég fylgi eftir bestu getu. Þetta er þó hörkuvinna en ég sem er algjör sykurfíkill hef nokkrum sinnum fallið ef svo má kalla, og þarf þá nokkra daga til að komast aftur á skrið. Ég hef átt stundir þar sem ég keyri í ræktina bara til þess eins að keyra beina leið aftur heim því mig langaði ekki inn og ég átti líka móment í byrjun árs þegar ég hreinlega grét þegar ég var komin í æfingarföt og kom mér að sjálfsögðu ekki á þá æfingu. En í stað þess að gefast upp þá reyni ég bara aftur daginn eftir eða þangað til að ég kem mér inn sem gerist alltaf að lokum. Það að breyta lífstílnum er eitt það erfiðasta andlega sem ég hef gert og suma daga þarf ég á öllum mínum innri krafti að halda til að halda áfram. Ég byrjaði í þjálfuninni í janúar á þessu ári svo þið sjáið að þetta er ekkert á neinum Biggest Looser hraða enda er það ekki það sem ég vil – því ég vil halda árangrinum og ég vil líka að húðin nái að jafna sig. Það hafa komið skipti þar sem ég skilaði inn nánast engum árangri ásamt ljósmyndum af mér á nærfötum alveg eins og mánuðinn á undan, gamla ég hefði hætt í þjálfuninni áður en kæmi að þessari myndatöku en núna bít ég bara á jaxlinn og fæ í staðinn extra gott pepp og jákvæðar athugasemdir frá stelpunum sem gefa auka kraft inn í næsta mánuð. Ég sjálf þrífst á jákvæðni og það að hafa svona gott stuðningsnet frá þremur þjálfurum er það besta sem hefur komið fyrir mig ♡

Ég hugsaði lengi hvaða mynd ég gæti látið fylgja með þessari færslu þar sem ég er langt því frá tilbúin að sýna fyrir & eftir myndir úr þjálfuninni og mundi þá eftir þessari frá nýliðinni Santorini ferð. Gamla ég hefði fengið áfall ef tekin væri af mér mynd á sundfötum en núna var mér alveg sama. Sem eru viss lífsgæði skal ég segja ykkur – það að vera bara alveg sama hvað öðrum gæti þótt.

Þið sem lásuð til enda, til hamingju haha. Núna er það bara að massa markmið ársins sem ég krossa fingur að ég nái svona með jólin handan við hornið. En ef það var ekki komið nógu skýrt fram þá gæti ég ekki mælt meira með stelpunum hjá FitSuccess og ef þið hafið áhuga þá mæli ég með að skoða heimasíðuna þeirra vandlega, annars verður þessi færsla mín alltof alltof löng. Ykkur er þó alltaf velkomið að senda á mig línu ef það er eitthvað fleira sem þið viljið vita. P.s. ég hef verið í stuttu snapchat fríi sökum anna – en mæti líkegast aftur á morgun víjj.

FYRSTU TÍU ♡

Persónulegt

Það eru núna komnar 3 vikur frá því að ég birti þessa mynd á Instagram með textanum “Fyrstu -10 kg eru rétt handan við hornið” en það var þó ekki fyrr en í gær í fimmtu mælingunni minni sem 10 kílóa múrinn var rofinn og reyndar gott betur en það. Síðan í janúar þá hef ég verið í fjarþjálfun hjá draumaþjálfurunum hjá Fitsuccess.is þeim Alexöndru, Ingibjörgu og Katrínu Evu og í gær var enn ein mælingin ásamt myndatöku (sem ég geri sjálf) og loksins loksins komst ég yfir 10 kílóa múrinn ásamt meiru. Ég er ekki frá því að ég eigi skilið eitthvað fallegt í verðlaun ♡ Það sem ég er þakklát fyrir að hafa þessar 3 stelpur í dag í mínu lífi þrátt fyrir að hafa bara hitt eina þeirra, en ég er ein af þeim sem hef prófað allt – já ég sagði allt en ekkert hefur haft eins mikil áhrif á mig eins og þessi þjálfun. Það sem ég fæ hjá þeim er góð hvatning og andlegur stuðningur því það er gífurlega mikilvægur partur af þessu ferli. Ásamt því að ég læri að borða rétt bæði með sérsniðnu matarplani frá þeim ásamt risa gagnagrunni sem ég fæ aðgang að sem er fullur af fræðslu og matarhugmyndum. Ég finn einnig að þær hafa innilegan áhuga á því að ég nái árangri og jafnvel þó ég sé ekki að standa mig 100% suma daga þá koma ekkert nema jákvæð skilaboð sem hvetja áfram. Það er ekki hægt að biðja um meira – jú svo að sjálfsögðu árangurinn.

Ég er að þessu fyrst og fremst fyrir mig sjálfa og finnst mikilvægt að njóta þess, ætla því ekki að setja neina óþarfa pressu á mig með myndbirtingum. Ein besta hvatningin í þessu öllu er að á 4 vikna fresti þarf ég að senda inn myndir af mér á nærfötunum og eins erfið og fyrsta myndatakan var – guð ég ætlaði aldrei að fást til þess að ýta á send ég skammaðist mín svo. Þá er svo gaman að geta horft tilbaka og sjá hversu langt þú ert komin þrátt fyrir að líða ekkert endilega þannig þá stundina. Ég ætla ekki að opinbera hvaða markmið ég er með í þjálfuninni en ég get sagt ykkur það að ég á nóg til eftir. Það er líka enginn eins og því ekki gott að miða sig við aðra. Það er mikilvægt að líða vel í eigin skinni, ég viðurkenni að ég er ekki á þeim stað í dag – en er hægt og rólega að mjakast þangað. Mig langar að láta fylgja með ein skilaboð frá stelpunum síðan í gær en þá hafði ég gert athugasemd um slit sem voru að angra mig en af þeim á ég nóg. Þessi skilaboð sýna svo vel svart á hvítu hvernig manneskjur þær eru, ekkert nema yndislegar. Og það að fara í gegnum svona lífstílsbreytingu þar sem hugurinn þarf að vera rétt stilltur þá er mikilvægt að umkringja sig réttu fólki.

“…manst það sem við ræddum um daginn með að vera ekki of hörð við sjálfa þig, þú ert frábær og fullkomin alveg eins og þú ert og við vinnum að settu markmiði með kærleika í huga fyrir sjálfum okkur og líkamanum, öllum örum og slitum líka, við erum nú einu sinni bara mannleg :*”.

Ég elska síðan að taka saman svona lista og þessi færsla er engin undantekning – ég er nefnilega komin með nýtt áhugamál og því þarf að sinna. Sumt á listanum á ég nú þegar, eitthvað á leið til mín með póstinum og annað situr á óskalistanum. Núna þegar sumarið er að koma og ég sé fram á fleiri bústaðarferðir þá ákvað ég að panta mér æfingardýnu til að eiga eina auka í bústaðnum. Þessa bleiku fann ég á Amazon en ásamt henni keypti ég æfingabolta – reyndar í litnum champagne og frá allt öðrum framleiðanda haha.

Handklæði: Nýlega byrjaði ég að kunna að meta heita tíma og mundi þá að ég átti þá til fallegt tyrkneskt handklæði sem tekur svo lítið pláss og er svo létt að ferðast með. Mér fannst ekki nógu skemmtilegt (lesist: smart) að taka með baðhandklæði í salinn. Mitt er að vísu ekki frá TAKK home en þær eru með tyrknesk handklæði sem eru draumur.

Skrúbbur: Ég er að nota nokkra skrúbba til skiptis og ýmsar olíur flesta daga eftir sturtu, þurrbursta, kaffiskrúbba og saltskrúbba. Ég kann ekki trixin hvernig á að vinna með húðina til að hún verði ekki laus en ég reyni mitt besta að hjálpa henni. Allar ábendingar vel þegnar.

Æfingarföt: Þegar ég byrjaði þá mætti ég í gömlum ræktarfötum sem ég átti til en mér leið aldrei vel í þeim, buxurnar rúlluðu niður, bolirnir upp og ég gat ekki hugsað mér að hlaupa því toppurinn veitti engan stuðning fyrir brjóstin. Auðvitað skipta fötin engu máli, en það skiptir máli að líða vel til að geta komið sér á æfingu. Ég veit ekki hversu oft ég keyrði á bílastæðið bara til þess að fara beint aftur heim… Ég kom mér síðan upp smá æfingargalla, ekkert mikið, bara einar buxur, tvennir bolir, íþróttatoppur og fallegustu skór í heimi (já ég elska þá). Ég ákvað að játa mig sigraða og mætti í H-verslun og lét þar eina stelpu aðstoða mig að velja föt, en buxurnar sem hún mælti með halda maganum vel og ekki fræðilegur að þær rúlli niður og toppurinn neglir brjóstin niður svo í fyrsta sinn gat ég hlaupið á brettinu án þess að brjóstin ætluðu aftur á bak. Og tala nú ekki um hvað mér finnst mikið auðveldara að mæta á æfingu í fötum sem mér líður vel í. Ég fæ oft fyrirspurnir um æfingarskóna, en þeir heita Nike zoom fearless flyknit og voru til fyrr á árinu. Ég hef mjög litla reynslu af íþróttaverslunum en fékk svo ótrúlega góða þjónustu hjá H-verslun að ég mæli því með þeim!

Þær Alexandra, Ingibjörg og Katrín Eva hjá Fitsuccess eiga öll heimsins hrós skilið því þær eru svo metnaðarfullar og klárar. Til dæmis þá vann Fitsuccess vefurinn Vefkerfi ársins titilinn sem mér finnst ansi magnað en kemur samt ekki á óvart því allt sem þær gera virðast þær gera svo rosalega vel og þessvegna finnst mér svo gaman að vera hjá þeim í þjálfun. Ég gæti skrifað endalaust en ætla að stoppa hér – ef þið viljið frekari upplýsingar þá ekki hika við að senda mér línu. En fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur þessa fjarþjálfun betur þá finnið þið allt um Fitsuccess HÉR ásamt árangursmyndum sem er svo gaman að skoða.

Takk fyrir að lesa x

FEBRÚAR : UPPÁHALDS

Persónulegt

Þið eruð líklega eftir að halda að þið séuð stödd á vitlausu bloggi miðað við færsluna – en nei þetta er ennþá bara ég en komin í örlítið annan gír svona uppá síðkastið. Ég hreinlega get ekki að því gert en heilsan og líkaminn hefur átt hug minn allan í febrúarmánuði og því er “uppáhalds” listinn minn að þessu sinni örlítið litaður af því. Ég vil ekki tala um þetta sem Meistaramánuð þó svo ég taki svo sannarlega þátt í því snilldar átaki en það sem ég er að gera nær töluvert lengra en einn mánuð, tjahh ég var svona að vona út lífið. Það eru nokkrir hlutir sem ég hef tekið ástfóstri við undanfarið og fá nokkrir af þeim hlutum að rata inn á listann.

februar

Ég er að vinna í því að koma mér upp hollari venjum og koma í leiðinni hreyfingu inn í mína daglegu rútínu eftir ótrúlega langt hlé – engar öfgar, bara hollur matur og hreyfing samkvæmt ráðleggingum þjálfara. Ég hef fallið nokkrum sinnum síðan ég byrjaði um miðjan janúar en þó tekst mér alltaf að standa upp aftur og það er það sem skiptir máli. Þrátt fyrir að ég ætli alls ekki út í neitt spjall hér og nú um kíló og slíkt þá get ég sagt að vá hvað ég finn mikinn mun á mér eftir að ég minnkaði sykurinn, þá á ég við andlegu heilsuna. Það sem ég er orkumeiri og léttari í lund – þvílík dásemd. – Vonandi meira um það síðar!

// 1. Ég hef varla tekið af mér trackerinn sem ég fékk í jólagjöf frá foreldrum mínum. Svona trackerar/armbönd hafa hingað til ekkert heillað mig vegna of íþróttalegs útlits en ég er mjög skotin í þessu, bæði vegna þess að mér þykir það vera fallegt sem armband eitt og sér en einnig vegna þess að með því fylgist ég með hversu mikið ég geng og hvernig svefn ég fæ. Keypt í USA í Micheal Kors. 

// 2.  Ekki beint heilsutengt, en það að hafa sig til og eyða nokkrum auka mínútum á dag í að snyrta sig, lakka neglurnar, skrúbba húðina og hugsa um hárið – það skilar sér í betra sjálfstrausti. Síðan ég keypti mér þennan lit, Ladylike frá Essie hef ég ekki sett neitt annað á neglurnar og er bálskotin í þessum lit.

// 3. Það að skrúbba húðina er eitt besta dekrið og ég finn rosalegan mun á húðinni minni eftir að ég fór að mæta í ræktina og fer síðan beina leið heim í sturtu og skrúbba húðina vel til að koma blóðflæðinu af stað en einnig til að vinna á appelsínuhúð. Hún Theódóra mín hjá Angan gaf mér þennan saltskrúbb og mér finnst hann æðislegur. Fæst m.a. í Snúrunni. 

// 4. Þráðlausu heyrnatólin mín eignuðust nýtt líf eftir að ég byrjaði aftur í ræktinni og ég ætlaði varla að trúa því eftir æfingu hvað ég tók mikið betur á með mína uppáhalds tónlist í eyrunum algjörlega ein í mínum heimi. Áður voru þau aðeins notuð á ferðalögum ásamt því að vera svona líka fínt heimilispunt haha. H8 heyrnatól frá B&O fást á Íslandi í Ormsson. 

// 5. Skipulag, skipulag, skipulag. Eitt af mínum markmiðum í Meistaramánuðinum var að ná betri tökum á skipulagi og ég get ekki sagt annað en að ég sé að minnsta kost á réttri leið. Munum dagbókin mín er alltaf uppivið:)

// 6. Þið megið kalla þetta það sem þið viljið…  en ég viðurkenni alveg að mér líður vel með fallega hluti í kringum mig og það hefur alltaf verið þannig. Og það að hafa holl fræ, hafra, kókos og fleira í fallegum krukkum hefur mjög hvetjandi áhrif á mig til að borða það frekar en annað. Ég þarf meira að segja að bæta við fleiri glærum Iittala Kastehelmi en þær eru uppáhalds – láta allt líta svo girnilega út!

// 7. Ég keypti mér þessa Nike æfingarskó á klink í Boston fyrir jólin og hef verið í þeim síðan, það má líklega deila um það hvort þetta séu bestu æfingarskórnir en það er annað mál haha. Ég er sátt!

// 8. Og síðast en ekki síst þá verður þetta ilmvatn að rata á listann áður en ég klára síðustu dropana. Ég fæ æði fyrir ilmvötnum og vil helst bara nota þann ilm í nokkur ár helst og núna er það Bronze Goddess frá Estée Lauder. Þetta er mín önnur flaska sem ég er að klára og best er að lýsa ilminum eins og sumar í flösku mmmmm. Þarf að næla mér í þriðja glasið sem fyrst ♡

Svo langar mig til þess að bæta við einum auka uppáhalds “hlut” en það eru þessar elskur hjá Fitsuccess sem hafa tekið mig undir sinn væng. Ég þarf reyndar helst að eiga til eintak af þeim öllum ofan í vasa svona þegar ég þarf á smá sparki að halda, mikið sem það væri nú ljúft.

screen-shot-2017-02-21-at-15-34-27

En ég stend víst og fell með sjálfri mér þó svo ég sé töluvert öruggari með þessar mér við hlið. Mig langaði bara agalega mikið til að sýna ykkur nýju vinkonur mínar haha – fyrir áhugasama þá eru fleiri upplýsingar að finna hér. Áfram gakk!

svartahvitu-snapp2-1