fbpx

FYRSTU TÍU ♡

Persónulegt

Það eru núna komnar 3 vikur frá því að ég birti þessa mynd á Instagram með textanum “Fyrstu -10 kg eru rétt handan við hornið” en það var þó ekki fyrr en í gær í fimmtu mælingunni minni sem 10 kílóa múrinn var rofinn og reyndar gott betur en það. Síðan í janúar þá hef ég verið í fjarþjálfun hjá draumaþjálfurunum hjá Fitsuccess.is þeim Alexöndru, Ingibjörgu og Katrínu Evu og í gær var enn ein mælingin ásamt myndatöku (sem ég geri sjálf) og loksins loksins komst ég yfir 10 kílóa múrinn ásamt meiru. Ég er ekki frá því að ég eigi skilið eitthvað fallegt í verðlaun ♡ Það sem ég er þakklát fyrir að hafa þessar 3 stelpur í dag í mínu lífi þrátt fyrir að hafa bara hitt eina þeirra, en ég er ein af þeim sem hef prófað allt – já ég sagði allt en ekkert hefur haft eins mikil áhrif á mig eins og þessi þjálfun. Það sem ég fæ hjá þeim er góð hvatning og andlegur stuðningur því það er gífurlega mikilvægur partur af þessu ferli. Ásamt því að ég læri að borða rétt bæði með sérsniðnu matarplani frá þeim ásamt risa gagnagrunni sem ég fæ aðgang að sem er fullur af fræðslu og matarhugmyndum. Ég finn einnig að þær hafa innilegan áhuga á því að ég nái árangri og jafnvel þó ég sé ekki að standa mig 100% suma daga þá koma ekkert nema jákvæð skilaboð sem hvetja áfram. Það er ekki hægt að biðja um meira – jú svo að sjálfsögðu árangurinn.

Ég er að þessu fyrst og fremst fyrir mig sjálfa og finnst mikilvægt að njóta þess, ætla því ekki að setja neina óþarfa pressu á mig með myndbirtingum. Ein besta hvatningin í þessu öllu er að á 4 vikna fresti þarf ég að senda inn myndir af mér á nærfötunum og eins erfið og fyrsta myndatakan var – guð ég ætlaði aldrei að fást til þess að ýta á send ég skammaðist mín svo. Þá er svo gaman að geta horft tilbaka og sjá hversu langt þú ert komin þrátt fyrir að líða ekkert endilega þannig þá stundina. Ég ætla ekki að opinbera hvaða markmið ég er með í þjálfuninni en ég get sagt ykkur það að ég á nóg til eftir. Það er líka enginn eins og því ekki gott að miða sig við aðra. Það er mikilvægt að líða vel í eigin skinni, ég viðurkenni að ég er ekki á þeim stað í dag – en er hægt og rólega að mjakast þangað. Mig langar að láta fylgja með ein skilaboð frá stelpunum síðan í gær en þá hafði ég gert athugasemd um slit sem voru að angra mig en af þeim á ég nóg. Þessi skilaboð sýna svo vel svart á hvítu hvernig manneskjur þær eru, ekkert nema yndislegar. Og það að fara í gegnum svona lífstílsbreytingu þar sem hugurinn þarf að vera rétt stilltur þá er mikilvægt að umkringja sig réttu fólki.

“…manst það sem við ræddum um daginn með að vera ekki of hörð við sjálfa þig, þú ert frábær og fullkomin alveg eins og þú ert og við vinnum að settu markmiði með kærleika í huga fyrir sjálfum okkur og líkamanum, öllum örum og slitum líka, við erum nú einu sinni bara mannleg :*”.

Ég elska síðan að taka saman svona lista og þessi færsla er engin undantekning – ég er nefnilega komin með nýtt áhugamál og því þarf að sinna. Sumt á listanum á ég nú þegar, eitthvað á leið til mín með póstinum og annað situr á óskalistanum. Núna þegar sumarið er að koma og ég sé fram á fleiri bústaðarferðir þá ákvað ég að panta mér æfingardýnu til að eiga eina auka í bústaðnum. Þessa bleiku fann ég á Amazon en ásamt henni keypti ég æfingabolta – reyndar í litnum champagne og frá allt öðrum framleiðanda haha.

Handklæði: Nýlega byrjaði ég að kunna að meta heita tíma og mundi þá að ég átti þá til fallegt tyrkneskt handklæði sem tekur svo lítið pláss og er svo létt að ferðast með. Mér fannst ekki nógu skemmtilegt (lesist: smart) að taka með baðhandklæði í salinn. Mitt er að vísu ekki frá TAKK home en þær eru með tyrknesk handklæði sem eru draumur.

Skrúbbur: Ég er að nota nokkra skrúbba til skiptis og ýmsar olíur flesta daga eftir sturtu, þurrbursta, kaffiskrúbba og saltskrúbba. Ég kann ekki trixin hvernig á að vinna með húðina til að hún verði ekki laus en ég reyni mitt besta að hjálpa henni. Allar ábendingar vel þegnar.

Æfingarföt: Þegar ég byrjaði þá mætti ég í gömlum ræktarfötum sem ég átti til en mér leið aldrei vel í þeim, buxurnar rúlluðu niður, bolirnir upp og ég gat ekki hugsað mér að hlaupa því toppurinn veitti engan stuðning fyrir brjóstin. Auðvitað skipta fötin engu máli, en það skiptir máli að líða vel til að geta komið sér á æfingu. Ég veit ekki hversu oft ég keyrði á bílastæðið bara til þess að fara beint aftur heim… Ég kom mér síðan upp smá æfingargalla, ekkert mikið, bara einar buxur, tvennir bolir, íþróttatoppur og fallegustu skór í heimi (já ég elska þá). Ég ákvað að játa mig sigraða og mætti í H-verslun og lét þar eina stelpu aðstoða mig að velja föt, en buxurnar sem hún mælti með halda maganum vel og ekki fræðilegur að þær rúlli niður og toppurinn neglir brjóstin niður svo í fyrsta sinn gat ég hlaupið á brettinu án þess að brjóstin ætluðu aftur á bak. Og tala nú ekki um hvað mér finnst mikið auðveldara að mæta á æfingu í fötum sem mér líður vel í. Ég fæ oft fyrirspurnir um æfingarskóna, en þeir heita Nike zoom fearless flyknit og voru til fyrr á árinu. Ég hef mjög litla reynslu af íþróttaverslunum en fékk svo ótrúlega góða þjónustu hjá H-verslun að ég mæli því með þeim!

Þær Alexandra, Ingibjörg og Katrín Eva hjá Fitsuccess eiga öll heimsins hrós skilið því þær eru svo metnaðarfullar og klárar. Til dæmis þá vann Fitsuccess vefurinn Vefkerfi ársins titilinn sem mér finnst ansi magnað en kemur samt ekki á óvart því allt sem þær gera virðast þær gera svo rosalega vel og þessvegna finnst mér svo gaman að vera hjá þeim í þjálfun. Ég gæti skrifað endalaust en ætla að stoppa hér – ef þið viljið frekari upplýsingar þá ekki hika við að senda mér línu. En fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur þessa fjarþjálfun betur þá finnið þið allt um Fitsuccess HÉR ásamt árangursmyndum sem er svo gaman að skoða.

Takk fyrir að lesa x

ÚTSKRIFTAR & BRÚÐARGJAFIR

Skrifa Innlegg

12 Skilaboð

 1. Elísabet Gunnars

  2. June 2017

  Takk fyrir að deila. Hvatning fyrir mig og örugglega fleiri. Áfram þú!!

 2. Helgi Omars

  2. June 2017

  Hvatning á mig líka!! Svo DUGLEG og ÁFRAM ÞÚ!!!! <3

 3. Sandra

  2. June 2017

  Innilega til hamingju með árangurinn, áfram þú!
  En má ég spyrja hvaða buxur þetta eru? Ég er endalaust að hífa upp um mig brækurnar á æfingum!

  • Svart á Hvítu

   6. June 2017

   Takk fyrir:* ég leiðrétti síðan smá í færslunni, ég var kannski e-ð að rugla með þennan gúmmístreng, en hann er amk inni í faldinum mér finnst ég bæði finna hann þegar ég tosa buxurnar upp og hefði getað svarið það að stelpan í búðinni hafi sagt þetta. En sé samt ekkert núna þegar ég skoða haha.
   En þetta eru Nike legend buxur, stendur inni í þeim “ten less plastic bottles” og mínar eru alveg þröngar með stroffi neðst. Vil helst ekki fara úr þeim:)

 4. Jóhanna

  2. June 2017

  Frábært hjá þér! Ég þekki þessar lýsingar með æfingabuxurnar en ég keypti mér nike buxur sem ná liggur við upp að brjóstum og hafði þær minni en ég hefði almennt keypt. Klárlega málið að vera í almennilegum buxum sem haldast á sínum stað.

  • Svart á Hvítu

   6. June 2017

   Hahaha upp að brjóstum er best!!:) Og gott tips með að kaupa þær minni!

 5. Elísa Jóhannsdóttir

  2. June 2017

  Vá hvað þetta er inspírerandi færsla!
  Þekki þetta með fötin, var alltaf í gömlum druslum í ræktinni og fattaði ekki fyrr en ég keypti mér almennilegar æfingabuxur og topp hvað það var mikið þægilegra að æfa í því.
  Gangi þér vel!

  • Svart á Hvítu

   6. June 2017

   Ótrúlegt hvað það gefur mikinn auka kraft:) Er að spá í að verðlauna mig núna með nýrri flík fyrir ræktina!
   Takk og sömuleiðis:*

 6. Hildur

  2. June 2017

  Til hamingju Svana – áfram þú!

 7. Karen Lind

  5. June 2017

  Ég elska fólk eins og þig. Einlæg og jarðbundin. Engin upphefð, bara þú…

  Þannig erum við öll, en ekki margir leyfa því að koma í ljós á samfélagsmiðlum.

  Til hamingju með 10 kílóin.. þú ert rosalega dugleg <3