fbpx

HÖNNUNARMARS – HVAÐ ER MÖST AÐ SJÁ!

HönnunÍslensk hönnunUmfjöllun

Í dag hefst HönnunarMars formlega þó svo að í gær hafi þónokkrar sýningar opnað. Við erum að tala um 10 ár af HönnunarMars ótrúlegt en satt og það er aldeilis kominn tími til að kynna sér dagskrána í ár og punkta hjá sér áhugaverðar sýningar sem ekki má missa af. – Sjá dagskrá hér –

Ég ætla aðeins að stikla á stóru hér – og má því aðeins finna þær sýningar sem ég ætla alls ekki að missa af þó svo ég reyni nú að kíkja á fleiri. Ég kem til með að vera virk á Snapchat Svartahvitu yfir hátíðina svo áhugasamir um íslenska hönnun geta fylgst með ásamt hér á blogginu. Ég vil einnig taka fram að ég legg helst áherslu hér á þær sýningar á sviði vöruhönnunar, þó HönnunarMars hafi upp á ýmislegt að bjóða á sviði arkitektúrs, fatahönnunar, skartgripahönnunar og grafískar hönnunar.

// Ef þið smellið á sýningarnar þá farið þið yfir á viðburð þar sem sjá má opnunartíma og staðsetningar.

Geysir Heima : 5 sýningar 

5 sýningar hönnuða opna í Geysir Heima á Hönnunarmars, það eru þau Atelier Dottir, FÓLK x Ólína Rögnudóttir, STUDIO A, Theodóra Alfreðsdóttir ásamt 1+1+1+Sweet Salone. Ég er sértstaklega spennt fyrir FÓLK Reykjavík x Ólína ásamt Theodóru vinkonu minni. Hér verður nóg um að vera.

Lumex : Motta 

Verkefni Lumex eru gólfmottur unnar í samstarfi við Hollenska hönnunarfyrirtækið MOOOI sem sérhæfir sig í framúrstefnulegir hönnun. Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Í ár ætlar Lumex að leggja sitt af mörkum í baráttunni við krabbamein og hefur fengið til liðs við sig vöruhönnuðinn Hjört Matthías Skúlason og myndlistamennina Ingimar Einarsson og Kristin Má Pálmason.

Epal : Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd

Verk 17 hönnuða eru til sýnis og lögð er áhersla hér á hönnunargripi sem hafa nú þegar náð mikilli velgengni á erlendri grundu. Ásamt því má sjá spennandi nýjungar frá Fólk Reykjavík, Gagn, Hring eftir hring, Páli Garðarssyni, Ísak Winther og Sveinbjörgu

Norræna húsið : Innblásið af Aalto – með sjáfbærni að leiðarljósi.

Hönnunarsýningin Innblásið af Aalto tekur fyrir húsgagna- og aðra innanhússhönnun eftir finnska arkitektinn Alvar Aalto, sem og valda meistarahönnuði sem hafa starfað undir áhrifum frá Aalto. Allir hönnuðir á sýningunni eiga sammerkt að hafa unnið fyrir eða starfað með hönnunarfyrirtækinu Artek, sem Alvar Aalto var meðstofnandi að árið 1935. // Sýningin stendur fram í september.

Listasafn Reykjavíkur : #endurvinnslumálið

Efnt var til söfnunarátaks á áli í sprittkertum yfir hátíðarnar til þess að efla vitund almennings um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu. Nú bregða hönnuðir á leik með efniviðinn í samstarfi við Málmsteypuna Hellu: Studio Portland, Olga Ósk Ellertsdóttir, Ingibjörg Hanna og Sigga Heimis.

Rammagerðin : 54 Celsius – sjóðheitt nýtt stöff

54 Celsius er hönnunarmerki stofnað af Þórunni Árnadóttur vöruhönnuði og Dan Koval. Aðaláhersla merksins er á hið óvænta. Forsýning verður á nýjasta Pyropet dýrinu einhyrningnum Einari. Auk hans munu gestir fá nasaþef af glóðvolgum prufur og frumgerðum af nýjum vörum sem eru í þróun. Þær eru hannaðar af Theodóru Alfreðsdóttur, Adrianus Kundert og Ólöfu Erlu Bjarnadóttur.

Afgangar og nýjungar – húsgögn og ljós

AGUSTAV og Kjartan Óskarsson Studio opna formlega sýningarrými sitt að Funahöfða 3, 110 Reykjavík.
Heimsfrumsýning á nýjum vörum ásamt kynningu á nýrri hugmyndafræði AGUSTAV kölluð AFGANGAR sem er sérstaklega miðuð að umhverfisvitund í framleiðslu og getur af sér seríu af lífstíls og heimilisvörum.

MUN Barónsstíg- HönnMUNarmars 

MUN er allt í senn vinnustofa, gallerí og verslun, rekið af fjórum hönnuðum sem einblína markvisst á að gera fallegar vörur þar sem gæðin og notagildið eru alltaf í fyrirrúmi.
Vörumerkin sem reka saman MUN ætla að kynna fyrir gestum sínum nýjar vörur auk þess að fagna afmæli HönnunarMars og nýju húsnæði vörumerkjanna. Einnig verða upprennandi íslenskir hönnuðir með verkefni til sýnis.

My Concept store: Grown Alchemist

Ein fallegasta verslun miðbæjarins kynnirn nýtt merki – lífræna húðvörulínu Grown Alchemist. Vissulega ekki á sviði íslenskrar hönnunar en ef þið eigið leið um miðbæinn þá er tilvalið að kíkja við og skoða fallegar vörur fyrir heimilið

Hótel Marina : Studio Trippin 

Studio Trippin er hönnunarteymi á mörkum fatahönnunar og vöruhönnunar sem einbeitir sér að því að búa til hönnunarvöru úr loðnum hrosshúðum, sem eru vannýtt hráefni hérlendis. Sýningin verður innsýn inn í hugarheim Studio Trippin og mælt er með að fólk mæti með skilningarvitin sperrt.

Hlín Reykdal : Reykdalssystur

Systurnar Nanna, Hadda Fjóla og Hlín Reykdal sýna saman í verslunar- og vinnustofurými Hlínar Reykdal á Fiskislóð 75, 101 Reykjavík. Hlín mun kynna það nýjasta sem hún er að hanna í fylgihlutum, frá hugmyndavinnu að tilbúnu verki, Hadda Fjóla gefur okkur innsýn í það sem hún er að vinna með á mörkum lágmyndar og málverks, og Nanna gefur þrívíddarpælingum sínum lausan tauminn með pappírsinnsetningu í glugga.

66°Norður Bankastræti: Samstarf 66NORÐUR og Tulipop

66°Norður og Tulipop munu kynna samstarf sitt á HönnunarMars. Um er að ræða hina klassísku húfukollu 66°Norður og hefur Tulipop nú sett svip sinn á þær með ævintýraheimi sínum. Í samstarfinu við Tulipop má einnig finna léttar peysur og boli á yngstu kynslóðina.

Hönnunarsafn Íslands: Undraveröld Kron by Kronkron

Kron by Kronkron er undraveröld Hugrúnar Árnadóttur og Magna Þorsteinssonar, hliðarheimur sem fylgir þeim í öllu sem þau gera. Síðustu tíu ár hafa Magni og Hugrún hannað, framleitt og selt um allan heim yfir 2000 tegundir hluta, þar af yfir 1200 skótegundir sem eru uppistaðan á þessari sýningu.

iglo+indi x Kærleiksbirnirnir

Íslenska barnafatamerkið iglo+indi og hinir heimsfrægu Kærleiksbirnir (Care Bears) kynna skemmtilega línu í takmörkuðu upplagi. Línan er hönnuð á krakka á aldrinum 0-11 ára og einnig er í henni peysa í stíl fyrir eldri krakka og fullorðna.

Akkúrat : Vertu Akkúrat

Akkúrat leitast við að bjóða upp á rjómann af íslenskri hönnun í verslun sinni og selur vörur eftir um 50 hönnuði og listamenn sem hægt er að skoða og versla á Hönnunarmars. 7 hönnuðir munu vera með sérstaka innsetningu í versluninni dagana 15-18 mars, Það eru þær Dögg Design, Hring eftir Hring, inosk, Marý, Sif Benedicta, Studio Fræ og usee Studio.

 Gleðilegan HönnunarMars og hlakka til að sjá einhver ykkar !

HVAÐAN ERU BLÓMIN MÍN?

Skrifa Innlegg