fbpx

HEIMA HJÁ RAKEL RÚNARS

HeimiliPersónulegt

Þetta er aldeilis ekki í fyrsta sinn sem ég fjalla um vinkonu mína hana Rakel Rúnarsdóttur hér á blogginu og fær hún eflaust að vera fastagestur hér inná þar til ég segi skilið við bloggbransann – sem verður vonandi aldrei. Rakel mín er ekki bara ein af mínum allra bestu vinkonum en eins og ég hef áður sagt ykkur þá stofnuðum við bloggið saman fyrir um 8 árum síðan. Við deilum flestum áhugamálum saman en þar að auki höfum við mjög líkan smekk og ég hrífst af öllu sem hún kaupir sér og svo er það eins á móti. Í dag sýndi ég smá frá heimilinu hennar á Svartahvitu snapchat og verður heimsóknin aðgengileg þar til hádegis þann 13. júlí. Það er orðið ansi huggulegt hjá þeim í firðinum fagra en líka margt eftir að gera sem verður spennandi að fylgjast með.     

Ég sendi á Rakel nokkrar spurningar svo þið kynnist þessari elsku aðeins betur,

Hér búa?  Andri, Rakel, Emil Patrik og Evelyn Alba 

Er þetta draumaeignin ykkar? Húsið kemst ansi nálægt því að vera okkar draumaeign já. Passlega stórt, vel skipulagt, bjart og fallegt og fullkomin staðsetning í grónu og barnvænu hverfi.

Þurfti að gera eitthvað áður en þið fluttuð inn? Þar sem við vorum að flytja til landsins að utan þá þurftum við að flytja strax inn í húsið áður en við gerðum nokkuð. Við máluðum svo mest allt og höfum verið að vinna mikið í lóðinni, bæði að framan og aftan. Einnig voru nokkur viðhaldsverkefni sem þurfti að sinna.

Á eftir að klára mikið? Já mjög mikið, en við erum ekkert að flýta okkur og ætlum að taka nokkur ár í þetta allt saman, eiga fyrir hverju verkefni. Í sumar ætlum við að halda áfram að vinna í lóðinni, byggja pall að aftan o.fl. í þeim dúr. Einnig ætlum við taka efri hæðina alveg í gegn, skipta um gólfefni og mögulega hurðar. Svo á eftir að taka bæði baðherbergin í gegn, opna frá borðstofu og inn í eldhús og taka eldhúsið þá í gegn í leiðinni. Þá munum við líka skipta um öll gólfefni á neðri hæðinni.

Þessi stofa er algjör draumur, ég elska smáhlutahilluna sem er fyrir ofan ofninn þar sem nokkrir af uppáhaldshlutum fá að standa. Gluggarnir eru æðislegir og hleypa rosalega mikilli birtu inn og það er gott að sitja hér og geta horft á krakkana úti að leika. Á efri hæðinni er sjónvarpshol og því fær betri stofan að njóta sín enn betur án þess að sjónvarp trufli.

Ég er bálskotin í þessum lit og gæti vel hugsað mér að mála einn vegg í stofunni minni með honum, svo mildur og bjartur grár litur. Fyrir áhugasama (ég veit þið eruð mörg) þá heitir liturinn Hop Greige og er frá Sérefni eins og öll málningin á heimilinu.

Ikea Eket skápur á veggnum og uppáhalds hluturinn á heimilinu, Panthella lampinn góði. Þarna vantar að vísu Scintilla myndina góðu sem var fjarri góðu gamni í innrömmun.

Borðstofuborðið sem tengdapabbinn smíðaði og Rand mottan kemur hrikalega vel út undir borðinu en ekki sem stofumotta. Glerskápurinn var keyptur notaður á Bland og ljósið er frá Northern Lighting (fæst hér í Módern).

Hér eiga eftir að verða ansi mörg matarboðin!

Hvað er það besta við heimilið? Skipulagið og allir gluggarnir sem hleypa svo mikilli birtu inn.

Uppáhaldshlutur? Verner Panton Panthella lampinn minn og svo verð ég líka að nefna borðstofuborðið okkar sem tengdapabbi smíðaði fyrir mig.

Krúttherbergið hans Emils sem er á efri hæðinni. Blái liturinn heitir Clear Paris frá Sérefni, ég fékk margar fyrirspurnir um hann í dag enda alveg fullkominn mildur blár litur sem myndi einnig njóta sín vel í svefnherbergi. Tunglmyndin “til tunglsins og tilbaka” er eftir Fóu Feykirófu – sjá hér.

Svefnherbergið er fallegt og hugsað út í hvert smáatriði. Liturinn á veggjunum heitir Soft Stone og er frá Sérefni, en þessi litur kemur líka til með að prýða einn vegg í eldhúsinu við tækifæri.

Hvað kom til að þið fluttuð aftur til Íslands? Við erum búin að vera úti meira og minna síðan 2012 svo við vorum alveg tilbúin að koma heim og koma okkur fyrir hér. Svo var maðurinn minn að klára framhaldsnámið sitt og langaði til að koma heim og starfa við það svo við ákváðum bara að nú væri rétti tíminn.

Hvað er svo á döfinni? Ég verð í fæðingarorlofi út sumarið og stefni svo á að fara aftur út á vinnumarkaðinn.

Takk elsku Rakel fyrir að bjóða okkur í heimsókn ♡

Og ef það eru spurningar þá ekki hika við að skilja eftir skilaboð.

HERBERGIÐ HANS BJARTS ♡

Skrifa Innlegg

13 Skilaboð

 1. Linda

  13. July 2017

  Sæl
  Virkilega fallegt heimili en mig langar að forvitnast hvaðan mottan og stafrófið er sem er í barnaherberginu?
  Svo varstu að kalla eftir hugmyndum með flísarnar í arninum, þá gæti verið flott að lakka þær svartar háglans með skipalakki, við gerðum það við gamlar flísar í forstofunni og það kom mjög vel út :-)
  kv
  Linda

  • Rakel

   13. July 2017

   Hæ hæ og takk fyrir kærlega. Mottan er frá H&M home og stafrófið er nú bara eitthvað sem ég bjó til sjálf fyrir mörgum árum síðan.
   Takk fyrir hugmyndina fyrir arinninn! Ég hugsa að ég geri eitthvað í þessum dúr, það mun örugglega koma best út :)

 2. Beggý

  13. July 2017

  Vá Rakel! Virkilega fallegt heimili, og ekki skemmir staðsetningin fyrir heldur :-) Hlakka til að kíkja í heimsókn vonandi einn daginn.

 3. Agla

  13. July 2017

  Elska þetta heimili! Hlakka til að fylgjast með fleiri framkvæmdum ;)

 4. Fatou

  13. July 2017

  Svo fínt hjá elsku Rakel minni <3

 5. Hulda

  13. July 2017

  Mjög fallegt hjá ykkur Rakel, innilega til hamingju með þetta fallega hús. Hlakka til að fylgjast með framkvæmdum ✨

 6. Berglind

  16. July 2017

  Fallegt heimili. Hvaðan er skinnið í stofunni? Eða ef þú/þið vitið hvar sé hægt að fá ljóst skinn?

  • Svart á Hvítu

   18. July 2017

   Þetta er frá hiderugs.co.uk, sama og ég á:)
   Þau senda þó því miður ekki til Íslands…

 7. Birta

  17. July 2017

  Hvaðan er borðið?

  • Svart á Hvítu

   18. July 2017

   Það heitir Noguchi coffee table og er frá Vitra… Rakel keypti sitt í UK, en svona upprunalegt fæst hér heima í Pennanum:)

 8. Birta

  17. July 2017

  Sófaborðið :)

 9. Díana Ósk

  1. August 2017

  Hæ hæ, virkilega fallegt heimili og gaman að sjá. Veistu hvaða parket er á gólfinu í barnaherberginu, hjá honum Emil?

  • Svart á Hvítu

   3. August 2017

   Nei því miður, en það fylgdi nefnilega íbúðinni. Held reyndar að myndin sé að gera því ágætis greiða því það sér alveg á gólfinu og þau koma til með að skipta því út:)
   Mbk.Svana