fbpx

HÁTÍÐARKVEÐJA & GOTT JÓLAFRÍ

JólPersónulegt

Gleðilega hátíð og gott jólafrí kæru lesendur.

Ég er að njóta þess aðeins of vel að hafa fengið nokkra kærkomna frídaga eftir langa vinnutörn og þurfti að þurrka smá ryk af tölvunni & samfélagsmiðlum í morgun sem hefur legið nánast ósnert síðan á Þorláksmessu, ó svo ljúft. Dagurinn fór í örlítinn undirbúning fyrir komandi mánuði og bókhaldsvinnu. Ég er loksins að koma mér í gírinn fyrir upphaf á nýju ári, ný markmið og ný verkefni og er svo sannarlega spennt að deila með ykkur nokkrum skemmtilegum fréttum.

Ég vona að þið hafið átt ljúft frí ♡

Á stofuborðinu má sjá nokkra nýja muni, en ég keypti mér Finnsdóttir englaspilið fyrir jól eftir að hafa hugsað mikið um þennan fallega íkornakertastjaka. Einnig urðu langþráðir Fólk Reykjavík marmarkertastjakar loksins mínir um jólin, dásamleg hönnun sem hafði setið lengi á óskalistanum og þið eflaust orðið vör við. Þennan djúsí jólavönd fékk ég svo í gjöf frá Blómstru sem er blómaáskriftarþjónusta sem ég hef verið að prófa undanfarnar vikur. Vöndurinn var fullkominn yfir jólin en þarna var ég þó búin að bæta við smá greni sem ég átti til.

Það vantaði eitthvað fallegt á þennan tóma vegg yfir jólin svo ég ákvað að útbúa risastóran grenikrans sem mér finnst koma vel út. Járnhringurinn og greinarnar fékk í í Garðheimum og hef ég verið að bæta í hann af og til þar sem greinarnar þorna vissulega. Ég sé fyrir mér að bæta við hann nokkrum ferskum Eucalyptus greinum sem ég á í vasa núna fyrir stórt matarboð sem verður hér á Gamlársdag og hann verður sem nýr. Hringinn mun ég geyma fyrir næstu jól og verður þetta líklega jólaskraut næstu ára.

Jólatréð okkar er alltaf skreytt jólaskrauti úr öllum áttum sem vekur sérstaklega gleði þeirra yngri, allskyns dýr og fuglar og fleira fallegt. Jólastjörnuna hafði ég nýlega óskað mér að eignast og fékk hana svo óvænt hjá mömmu í láni sem var hætt að nota hana ♡

// Á Aðfangadag afhenti ég vinningshafanum í jólagjafaleiknum risastóra vinninginn og var það hún Sæunn Þórisdóttir sem hafði heppnina með sér og var að vonum alsæl.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

JÓLAGJAFAHUGMYNDIR // FYRIR HEIMILIÐ

Skrifa Innlegg