fbpx

HALLA BÁRA SPJALLAR UM HÖNNUN & HEIMILI

FagurkerinnFyrir heimilið

Halla Bára Gestsdóttir hjá Home & Delicious er einn færasti innanhússhönnuður landsins og er þekkt fyrir einstaka smekkvísi. Hún hefur undanfarið haldið mjög vinsæl námskeið um innanhússhönnun á heimili sínu þar sem hún fer yfir ýmsa þætti til að koma sköpunargáfunni af stað og hvernig má vinna með eigin stíl. Námskeiðið byggir hún á hugmyndum sínum um að búa sér til áhugavert og fallegt heimili.

Ég fékk Höllu Báru til að deila með okkur nokkrum ráðum fyrir heimilið sem vel má nýta á þessum tímum þar sem flest okkar eyðum nú umtalsvert meiri tíma á heimilinu og um að gera sem best úr ♡

Hvað er það besta við heimilið þitt?

Heimilið mitt og okkar er bara við fjölskyldan. Það er persónulegt, lýsir okkur og okkar lífsstíl. Það er fullt af dóti sem segir okkar sögu. Ég get farið í gegnum það og sagt hvaðan allir hlutir koma, hver gaf, hver átti áður. Mér þykir ótrúlega gaman að eignast fallega og einstaka hluti sem annar hefur átt eða gefið okkur. Heimilið er samsafn af uppsetningum sem er gaman að horfa á, ég vil að hlutir njóti sín, púslist saman í heild og myndi jafnvægi og samhljóm.

En fyrir mig, þá er heimilið sá staður þar sem maður er maður sjálfur. Öruggastur. Umvafinn. Ég er þannig að ég þarf ekki að fara út úr húsi svo dögum skiptir. Elska að vera heima. Finn mér alltaf eitthvað að gera. Veit ekki hvað það er að vera eirðarlaus.

Hvernig myndir þú lýsa þínum heimilisstíl?

Ég veit námkvæmlega hvað mér finnst fallegt og það er margt og mikið án þess að slíkt sé akkúrat heima hjá mér. Við hjónin höfum líklega þróað með okkur einhvern stíl í gegnum árin sem við náum saman með, þótt við séum ekki alltaf alveg á sömu skoðun. Það væri pínu óeðlilegt því við höfum bæði mjög sterkar skoðanir. Okkar smekkur og stíll hér heima er mjög blandaður, sækir í ólík stílbrigði sem við setjum saman. Hann er dramatískur, þéttur, dökkur. Byggir á birtu og stemmningu í ljósi. Grunni sem gott er að vinna með og inn í. Breyta eftir þörfum fjölskyldunnar.

Lumar þú á einföldu ráði til að bæta heimilið án þess að breyta miklu?

Það er ýmislegt hægt að nefna og fer allt eftir því hver áherslan er. Á að taka til, fara í gegnum dótið, létta á, gera fallegra, færa til, breyta. Nú er sannarlega tækifæri til að gera eitthvað af þessu ef fólk vill og fyrir mér eru allir þessir þættir mikilvægir og spila saman. Ef við hugsum um einfaldasta þáttinn sem má nefna, þá er það að kaupa blóm og vera með kveikt á góðu ilmkerti. Ef á að gera meira, þá skulum við breyta og færa til dót. Hugsa út fyrir rammann og raða upp á óhefðbundinn hátt. Það skiptir rosalega miklu að mínu mati. Ef á að gera enn meira, þá skulum við mála og vinna með liti. Málum hurðir, geretti, gólflista og gluggaramma. Það gerir svo ótrúlega mikið fyrir umgjörðina og hugsum út fyrir hvítt í þeim efnum.

Eitt sem er mjög sniðugt að gera, og ég tala um á námskeiðunum mínum, er eftirfarandi: Að tína saman allt minna dót og skrautmuni á heimilinu á einn stað. Flokka það niður eftir efni, sbr. gler og keramik, þá má flokka eftir litum sem og tímabilum í hönnunarsögunni (mjög sniðugt ef verið er að safna einhverju). Með þessu má búa til nýjar, öðruvísi og fallegar grúppur í uppstillingum sem ná miklu sterkari heild í yfirbragði. Þarna er verið að breyta ótrúlega miklu þegar kemur að yfirbragði heimilisins á einfaldastan hátt.

Finnst þér einhver viss stíll ríkjandi á íslenskum heimilum?

Í raun ekki. Það er gjarnan talað um hjarðhegðun á Íslandi og að „allir” séu með sama stílinn en þótt margir hallist að svipuðu útliti og fylgi ákveðnum hópi, þá er það ekki sérstakur stíll. Það er meira yfirbragð sem fólk vill fylgja eða er hrifið að. En það er ekkert eitt sem er gegnumgangandi. Þarna er munurinn að mínu mati sá að stíllinn segir „bara ég” og er þinn einstaki smekkur en að fylgja öðrum er meira „veldu mig”, ég er hér.

Ef öll heimili þyrftu að vera máluð í sama lit, hvaða lit myndir þú velja?

Gráan lit. Gráir litir eru að vísu heill heimur af litatónum en ef einfaldlega er talað um gráan lit, þá gerir grátt alla liti fallegri, dýpri og einstakari. Mér þykir miður þegar gráir litir eru talaðir niður, því máttur þeirra er sannarlega mikill. Fyrir mér er grámálað heimili jafn sjálfsagt og hvítmálað.

Hvaða hlutur eða húsgagn fyrir heimilið situr efstur á óskalistanum?

Hér segir maðurinn minn, eini sanni, vinnuborð í eldhúsið. Lea, 16 ára, segist vilja Svaninn. Kaja, 11 ára, vill nýtt rúm. Ég vil sannarlega fallega eyju í eldhúsið en það sem mig hefur lengi langað í er Pipistrello-lampinn eða pappalampi eftir Noguchi. Þú sérð hvað rétt lýsing skiptir mig miklu máli! Fallegir lampar og ljós, vandaðar mottur, túlípanar og gæðailmkerti eru minn veikleiki og það sem mér þykir einstök prýði af.

En ég gæti samt alltaf búið til pláss fyrir einstaka hluti, sem myndu sóma sér vel, á heimilinu okkar ef þeir „bönkuðu” upp á. Ég myndi ekki loka á fölbleikan Svan úr leðri. Fyrir mér eru húsgögn eins og hann erfðagripir sem gaman væri að vita að myndu fylgja fjölskyldunni. Það gleður mig að sjá slíka hluti á áhugaverðum heimilum, þar sem vel er farið með þá. En þar er ekkert eitt sem mig langar sérstaklega í frekar en annað. Það er líklega vegna þess að mér þykir svo margt fallegt en alveg óháð því að ég spái í það hingað heim til okkar. En það er margt sem myndi passa vel, ég neita því ekki, en það kæmist bara ekki fyrir, nema annað færi út í staðinn! Við búum ekki stórt. Og mér þætti líka erfitt að losa mig við eitthvað af því sem við eigum, því ég er mjög ánægð með dótið okkar.

Myndir með færslu : Home & Delicous / Coco Lapine 

Ég hvet ykkur til að hafa samband við Höllu Báru og vera fyrst til að heyra af nýjum tímasetningum þegar vinsælu námskeiðin fara aftur af stað. Hallabara(hjá)hallabara.com og einnig er hægt að fylgjast með Home & Delicious á Facebook fyrir enn meiri innblástur.

Á námskeiðinu verður farið yfir ýmsa þætti til að koma sköpunargáfunni af stað og hvernig má vinna með eigin stíl. Huga að heimilinu í heild og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar. Halla Bára fer yfir tíðarandann, tísku og stíl. Og svarar spurningum sem allar eru mikilvægt skref í átt að aukinni færni og meira öryggi í að vinna með rými sem vilji er til að geisli af. 

Hvað er það helsta sem búast má við að læra á námskeiðinu hjá þér?

Hugmyndin mín með þessum námskeiðum er að hvetja og aðstoða þá sem koma til mín að átta sig á, grafa eftir og finna hver þeirra smekkur og stíll er þegar kemur að yfirbragði heimilisins. Að átta sig á því skiptir höfuðmáli þegar kemur að persónulegu, fallegu og áhugaverðu heimili fyrir þig og þitt fólk.

Fyrir hverja er námskeiðið?

Einfaldlega fyrir alla sem hafa áhuga á innanhússhönnun og vilja ná lengra í að vinna með heimilið sitt. Gera þá vinnu ánægjulegri, án pressu, af meira öryggi, sætta sig við að gera stundum mistök. Fyrir þá sem vilja virkja sköpunargáfuna og kalla fram eigin hugmyndir án þess að láta aðra hafa áhrif sig.

Þarf að koma undirbúin/n?

Alls ekki. Eina sem þarf er áhugi. Það kemur til mín fólk sem vinnur að einhverju leyti við hönnun og arkitektúr og vill auka þekkingu sína og færni á innanhússhönnun. Sömuleiðis ungt fólk í hönnunar- og arkitektanámi. Eða þeir sem langar í slíkt nám. En aðallega bara fólk sem hefur áhuga á innanhússhönnun og vill gera meira með hana fyrir sig.

// Myndirnar með færslunni eru af fallegu heimili sem Halla Bára deildi með lesendum sínum á Home & Delicious vefnum og mér þótti tilvalið að leyfa að fylgja með.

  

Ljósmynd : Gunnar Sverrisson sem vill svo skemmtilega til að er eiginmaður Höllu Báru ♡

 

Takk fyrir spjallið mín kæra – þvílík uppspretta innblásturs og fróðleiks.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

NOKKRIR BLÓMAPOTTAR & BLÓMASTANDAR Á ÓSKALISTANUM

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

3 Skilaboð

  1. Daníel G.

    25. March 2020

    Meira svona! Svo gaman að lesa viðtöl við skapandi fólk ;)

  2. Jóna Kristín

    27. March 2020

    Sammála Daníel. Skemmtileg færsla!