fbpx

FYRIR & EFTIR // GLÆSILEGT HEIMA HJÁ ÖNNU KRISTÍNU OG REYNARI

Íslensk heimili

Munið þið eftir þessari færslu um þau Önnu Kristínu og Reynar sem voru á kafi í framkvæmdum í haust? Það er aldeilis kominn tími til að sýna ykkur lokaútkomuna sem er hin glæsilegasta enda mikil smekkkona hér á ferð og hafa þau fjölskyldan skapað sér dásamlegt framtíðarheimili sem veitir svo sannarlega innblástur.

Skoðum fyrst nokkrar myndir frá framkvæmdunum – smellið á myndirnar til að skoða þær stærri. 

” allt í einu stóðum við í alveg fokheldri íbúð.”

 

Hvað hafið þið búið hér lengi? Við byrjuðum á framkvæmdunum í júlí en fluttum svo inn “korter í jól”.

Hvað er íbúðin stór? Heildareignin er 144 fm með bílskúrnum.

Segðu okkur í stuttu máli frá framkvæmdunum, hvað var það helsta sem þið breyttuð? Þetta er eiginlega meira spurning held ég hverju við breyttum ekki. Þetta var svona þessi klassíska saga, ætluðum bara að mála og setja nýtt á gólfin, og geyma restina þangað til við ættum meiri pening en enduðum á að taka allt út. Það eina sem við héldum voru fataskápurinn í hjónaherberginu og sturtuklefinn, en við gerðum bara tímabundna breytingu á baðherberginu. – Þannig til að segja í stuttu máli hvað við gerðum þá tókum við út öll gólfefni, tókum niður einn vegg til að stækka alrýmið og setja eldhúsið þangað inn. Gerðum barnaherbergi þar sem eldhúsið var. Rifum allt út úr baðherberginu nema sturtuklefann og settum nýtt þar inn en biðum með að flísaleggja það og setja nýjan sturtuklefa en það stefnum við á að gera eftir kannski 1-2 ár. Stækkuðum svo tvö hurðaop til að hafa meira flæði milli rýma og lögðum plankaparket yfir alla íbúðina. Einnig voru settir nýjar hurðar og parketlistar en okkur langar líka að setja upp loftlista en þeir munu bara koma seinna.

Og til að setja hlutina í samhengi þá má sjá hér að neðan íbúðina fyrir framkvæmdir.

Var eitthvað sem kom á óvart við framkvæmdirnar?  Í rauninni ekki. Við vorum farin að hlakka til að geta loksins hannað og tekið í gegn íbúð frá grunni, þannig við vorum alveg undir þetta búin. Kannski það eina sem kom okkur á óvart var hversu fljótt þetta vatt uppá sig og allt í einu stóðum við í alveg fokheldri íbúð.

Gerðuð þið mikið sjálf eða fenguð þið aðstoð fagfólks?  Við gerðum nánast allt sjálf með hjálp góðra vina og fjölskyldu. Eina sem við lögðum ekki í var rafmagnið en það þurfti að þræða fyrir eldhúsinu. Svo þurfti kjarnaborara til að gera gat niður í kjallarann fyrir frárensli frá eldhúsinu en nýja eldhúsið er alveg í hinum enda íbúðarinnar, á við það upprunalega.

Og að lokum myndum af heimilinu í dag sem sýna ótrúlegar breytingar og útkoman er svo glæsileg. Litavalið á veggjum og á innréttingum heilla sérstaklega mikið. 

“Auðvitað er margt sem ég hefði viljað gera ef við ættum meiri pening en við ákváðum að fara skynsömu leiðina í öllu og safna okkur fyrir hlutunum.”

Parketið er Pergo frá Agli Árnassyni. Eldhúsinnréttingin er frá Ikea en höldurnar voru keyptar á Amazon og borðplatan sem er tímabundin er keypt í Húsasmiðjunni. 

Hvað heita litirnir á veggjunum?  Á alrýminu er hinn klassíski arkitektahvítur frá Sérefni en við ákvaðum að halda því hvítu afþví eldhúsið er mjög sérstakt á litinn og leyfa þeim lit að vera smá ríkjandi. – Stelpurnar völdu svo báðar sína liti en liturinn á Andreu herbergi heitir Krickelin Dimbla frá Sérefni og liturinn á Emblu herbergi Linnea Sand. – Svo fékk ég þann heiður að nefna minn eigin lit hjá Sérefni en það er liturinn á hjónaherberginu. Hann vann ég með hjálp hennar Árnýjar hjá Sérefnum. Það er liturinn “Anna”.

Myndir : Anna Kristín Óskars 

Gerðir þú fjárhagsáætlun, ef já – stóðst hún?  Svona já og nei, við toppuðum okkur alveg með þessum kaupum og vorum því ekki með mikið á milli handanna fyrir framkvæmdirnar þannig við vorum alltaf mjög skynsöm í öllu sem við gerðum. Ég eyddi ógrynni af dögum í að keyra á milli fyrirtækja og fá tilboð. Við enduðum á að “klára” allt sem við vildum gera fyrir undir 3 milljónum og það finnst mér alveg ótrúlega vel sloppið. Auðvitað hjálpaði þarna að við gátum gert alla vinnuna sjálf með mikill hjálp fjölskyldu og vina.

Þegar þú lítur til baka, er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi?  Í rauninni ekki. Auðvitað er margt sem ég hefði viljað gera ef við ættum meiri pening en við ákváðum að fara skynsömu leiðina í öllu og safna okkur fyrir hlutunum. Með tímanum fer ég vonandi að geta bætt við nokkrum hlutum sem mig langaði að hafa eða skipta út.

Lumar þú á ráði handa þeim sem stefna á breytingar á heimilinu?  Vera ófeimin við smá liti. Þarf ekki að vera öll íbúðin en bara setja liti inn hér og þar til að poppa heimilið aðeins upp og gera það meira að þínu, – Vera einnig dugleg að fá tilboð hjá fyrirtækjum og ekki endilega stökkva á það fyrsta sem þú sérð. – Einnig tókum við allar prufur af litum á veggina og af parketinu uppí íbúð og horfðum á það í morgun-, dag- og kvöldbirtu áður en við tókum endanlega ákvörðun.

Eru fleiri framkvæmdir á dagskrá?  Við eigum í raun baðherbergið alveg eftir en við hugsuðum breytingarnar á því bara sem tímabundnar en miðað við ástandið í landinu núna grunar mig að það muni vera aðeins lengra í að við klárum það en planið var. – Einnig langar okkur að setja stein sem borðplötu á eldhúsið en hann myndi þá samt alltaf vera í svipuðum tón og platan sem við erum með núna. – Loftlistar eiga líka að koma á alla íbúðina.

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?  Ég hélt alltaf að ég væri með danskan stíl en núna sé ég að ég hallast mun meira að hinum sænska en svíarnir leyfa sér aðeins meiri lit og blanda meira saman.

Hvað er það besta við heimilið? Við erum bara ótrúlega ánægð með allt sem við gerðum en ætli breytingarnar á alrýminu standi ekki uppúr. Okkur hafði alltaf dreymt um að eiga íbúð sem væri með opnu og fallegu eldhúsi þar sem öll fjölskyldan getur verið saman. Stundirnar þegar stelpurnar sitja öðru megin við eldhúsborðið og segja okkur frá deginum á meðan við stöndum hinu megin og undirbúum kvöldmatinn… það gerist ekki mikið fullkomnara en það!

 

Takk fyrir að deila með okkur þessum fallegu myndum elsku Anna Kristín og til hamingju með glæsilega heimilið ykkar. Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast betur með Önnu Kristínu á Instagram @annakristinoskar

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

NÝ & SPENNANDI ÍSLENSK HÖNNUN EFTIR VÉDÍSI PÁLS

Skrifa Innlegg