fbpx

FORELDRAFRÍ Á HÓTEL GEYSI – ÞVÍLÍKUR DRAUMUR

PersónulegtSamstarf

Það er varla annað hægt en að hugsa um notalegt foreldrafrí þessa dagana (helst í sól) á meðan önnur hver fjölskylda er búin að vera ansi mikið lokuð inni á heimili sínu undanfarnar vikur. Það á að minnsta kosti við okkur en ég hef fengið að eyða einstaklega miklum tíma undanfarið með mínum börnum í nokkrum sóttkvíum sem er jú frábært flesta daga en suma daga er lítið um skemmtidagskrá og hugurinn reikar þá hingað. Þegar ég fékk að sofa heila nótt – á fallegu hóteli. Vá hvað það var ljúft!

Það var fyrr í vetur sem okkur var boðið að gista á Hótel Geysi og ég get sagt ykkur það að á þessum tímum þá jafnast ein nótt á hóteli nánast við ferðalag til útlanda. Og þetta glæsilega hótel er engu líkt.

Við fengum að gista á svítunni sem var mikil upplifun, herbergið er einstaklega glæsilegt og ég get varla ímyndað mér meira lúxus foreldrafrí en þetta. Við röltum svo niður í veitingarsalinn uppádressuð og fengum dýrindis kvöldverð og skáluðum fyrir lífinu í gómsætum kokteilum í fallegri setustofu sem umkringd er sögu hússins. Ég hafði heyrt ekkert nema góð meðmæli af hótelinu og þá sérstaklega hversu vel allir sofa þarna og herregud þetta stóðst allar væntingar upp á 10, rúmið, sængin og koddinn var með því þægilegra sem ég hef prófað. Og toppurinn yfir i-ið voru myrkvunargluggatjöldin sem gerðu kolsvartamyrkur svo við fórum útsofin og endurnærð heim.

Rúmin á öllum herbergjunum eru Jensen sem fást í Epal en eins og segir á heimasíðu hótelsins;

“Eitt það mikilvægasta við hótelgistingu er góður svefn og því kusum við Jensen rúmin í öll herbergin. Jensen rúmin eru gæðavottuð eftir alþjóðlegum stöðlum og bera einnig Svansmerkið, en strangar kröfur þess tryggja að Svansmerkt vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna. Jensen hefur hlotið verðlaun frá norska hönnunarráðinu fyrir þægindi, framleiðslu og góða hönnun.”

Sængurnar eru einnig það allra besta sem ég hef upplifað og komst ég að því að þær heita Kaufmann Home Classic og eru í flokknum ‘hlýjar’.

“Í herbergjaálmunni eru 77 herbergi þar af 6 svítur. Öll herbergin eru með fallegu útsýni yfir sveitina. Herbergin eru óvenju rúmgóð miðað við hefðbundin hótelherbergi. Standard herbergin eru 29 fermetrar, þau eru með baðherbergi með sturtu og útsýnisglugga. Deluxe herbergin eru með baðherbergi með baðkari og frönskum svölum og eru 35 fermetrar. Við bjóðum upp á fimm svítur sem eru 58 fermetrar með baði og sturtu, frönskum svölum og setustofu. Geysis svítan er 87 fermetrar með baði og sturtu, svölum og setustofu.” 

Skemmtilegt hvað saga hússins fær sín notið. Hér var rekinn íþróttaskóli fyrir drengi í fyrri tíð og var vinsælasta íþróttin glíma. Og var Sigurður stofnandi skólans (& Geysissvæðisins) Glímukóngur Íslands! Ég er svo forvitin að eðlisfari að ég elska að vita allar svona upplýsingar. Steinhúsið sem setustofan er staðsett í var byggt á árunum 1944-1946 og var það síðan fellt inn í stórhýsi það sem nú hýsir veitingarsali hótelsins. Virkilega fallegur arkitektúr og spennandi að sjá hvernig hið gamla og nýja tvinnast saman í eina heild. Það var Leif­ur Weld­ing hönnuður ásamt Bryn­hildi Guðlaugs­dótt­ur arkitekt sem hönnuðu hótelið.

Samstarf / Hótelgistingin var í boði Hótel Geysis

Án efa eitt fallegasta hótel landsins og upplifunin ekkert nema frábær. Allt ilmaði svo vel, maturinn var svo góður, allt umhverfið auðvitað stórbrotið og svo var þetta hreinlega endurnærandi fyrir sálina. Afhverju gerir maður ekki svona oftar spyr ég mig nú? Ég mæli með heimsókn hingað fyrir smá tilbreytingu í lífið ♡

Þessi eina hótelnótt sýndi mér svo sannarlega hvað skiptir miklu máli að hafa notalegt og fallegt í kringum sig í svefnherberginu – þar sem við eyðum stórum hluta ævi okkar ekki satt. Það er nú saga að segja frá því að þetta var einnig upphafið af því að við fundum vel hvað gott rúm bætir svefninn mikið – auðvitað er hægt að segja sér það sjálf, en að finna það er annað. Ég hlakka mikið til að leyfa ykkur að fylgjast með rúmapælingum sem ég hef verið að skoða undanfarið!

Takk fyrir okkur Hótel Geysir!

Þangað til næst, Svana.

OSTRUR Í FALLEGRI ÚTGÁFU FRÁ FERM LIVING

Skrifa Innlegg