fbpx

SVEFNVENJUR OG SKRÝTNIR TÍMAR

Eru ekki allir, sem hafa möguleika á, að halda sig heima hjá sér að mestu leyti? Hvort sem það er með vinnuna við eldhúsborðið, í leik með börnunum, með púsl á borðinu eða góða bók uppi í sófa. Þetta eru svo sannarlega skrýtnir tímar sem við erum að upplifa en ég hvet ykkur til að taka veiruna alvarlega svo hlutirnir versni ekki um of og um leið sýnum við þeim virðingu sem eru í hættu á að verða mikið veikir. Við fjölskyldan áttum bókaða ferð í austurrísku alpana fyrr í mánuðinum en hættum við að fara, ákvörðun sem við sjáum ekki eftir og vonandi getum við átt bara það inni að fara öll saman að ári. Hér í Svíþjóð er staðan svipuð og heima á Íslandi, gerðar hafa verið ráðstafanir á öllum sviðum en verið er að reyna að halda hversdagsleikanum gangandi eins mikið og mögulegt er. Arnór æfir ennþá þó að deildinni hafi verið frestað og úti á götu er töluvert um fólk. Svíar hafa verið gagnrýndir fyrir að taka ekki hlutina fastari tökum, en það eina sem maður sjálfur getur gert er að passa sig og sína vel, treysta á að stjórnvöld séu að taka réttar ákvarðanir og svo bíða og sjá hvað tíminn leiðir í ljós. Ég er þakklát fyrir að komast út í göngutúra með Aþenu Röfn og hugsa til landanna þar sem fólk má hreinlega ekki fara út úr húsi.

Annars hefur síðasta vika farið í að taka svefninn hennar Aþenu föstum tökum, sem hefur tekið á en er strax farið að skila sér í betri svefni fyrir alla. Hún hefur alla tíð verið mikið brjóstabarn, drukkið í tíma og ótíma og ekki spurt um stað né stund. Fyrsta árið hennar sofnaði hún í 99% tilfella á brjóstinu og var þar af leiðandi mikið að vakna á nóttunni í leit að brjóstinu, það var einfaldlega hennar leið til að róa sig og sofna aftur. Þetta ágerðist mjög þegar hún varð 11 mánaða og hætti sjálfviljug með snuð á svipstundu og vildi ekki sjá það ef ég bauð henni – viðbrögðin voru eins og hún hefði aldrei séð snuð áður í lífinu! Þessi aðferð, að svæfa hana á brjóstinu, var auðvitað mjög þægileg og auðveld fyrstu mánuðina en þegar leið á og næturvaknanir orðnar allt of margar (og þreytan nánast óbærileg) fór okkur að langa að breyta til. Arnór var sömuleiðis, skiljanlega, farinn að þrá að hafa stærra hlutverk í uppeldinu. Tækifærin til að taka slaginn voru ekki á hverju strái enda útileikur hjá honum eða Íslandsferð hjá okkur einhvern veginn alltaf á næsta leyti. Ég taldi það um daginn en Aþena fór 25 sinnum í flug fyrsta árið sitt. Ásamt tímaleysinu var ég líka svo óákveðin með hvaða aðferð væri best í að venja hana af næturgjöfinni og aftengja brjóstagjöf og svefn. Ef það er eitthvað sem ég hef lært af því að eiga barn er það að það eru til endalausar aðferðir í uppeldi og allir hafa mismunandi skoðun á ÖLLU. Að lokum skiptir langmestu máli að fylgja hjartanu í einu og öllu og að gera hlutina þegar maður er sjálfur tilbúinn til þess.

Okkar aðferð var frekar hefðbundin, Arnór baðaði og klæddi Aþenu Röfn, hún fékk að drekka hjá mér frammi í stofu og svo fóru þau saman inn í herbergi að skoða bók og hún sofnaði svo hjá honum, en ég svaf í gestaherberginu. Hún vaknaði nokkrum sinnum fyrstu nóttina með tilheyrandi gráti, sem mér fannst mjög erfitt en minnti mig á það allan tímann að hún væri hjá pabba sínum og alls ekki illa haldin, meira bara rugluð á því að hlutirnir væru öðruvísi. Næsta nótt gekk mun betur og núna viku síðar rumskar hún 1-2 sinnum frá kl. 20 til 6:30 en sofnar yfirleitt strax aftur. Eftir að við byrjuðum á þessum breytingum hefur hún svo verið mjög mikil mömmustelpa á daginn og reynt hvað hún getur að lyfta bolnum mínum í leit að sopa. Ég fann hvað hún var rugluð að fá þegar hún vildi á daginn en ekkert að nóttu til og við höfum því breytt dögunum líka og núna fær hún þrisvar að drekka á dag. Ég er ekki mikil reglumanneskja og hef hingað til verið mjög afslöppuð með það hvenær og hversu oft hún fær að drekka og því er þetta alveg nýtt fyrir mér. En eftir nokkra daga af þessari reglusemi gæti ég hins vegar ekki verið ánægðari með ákvörðunina og finn mikinn mun á Aþenu, hún er öruggari með sig og orðin duglegri að borða mat, sem hefur verið krefjandi verkefni hingað til.

Einhvern veginn endaði þetta sem nákvæm færsla um breytingarnar á þessu heimili. Núna gæti verið fullkominn tími til að nýta tækifærið og breyta til ef þið hafið verið að hugsa út í það en ekki enn tekið slaginn. Margir foreldrar eru að vinna heima þessa dagana og hafa jafnvel tækifæri til að sofa örlítið lengur eða leggja sig yfir daginn, og þurfa ekki að mæta eldsnemma í vinnu daginn eftir krefjandi nótt. Þessar næturvaknanir trufluðu mig ekkert stórkostlega allan þennan tíma en guð minn góður hvað ég er samt þakklát fyrir að sofa loksins vel. Ég var búin að gleyma því hvað það gerir mikið fyrir mann.

Farið vel með ykkur <3

Andrea Röfn

Fylgið mér á instagram: @andrearofn

ÞRENNT Á ÞRIÐJUDEGI

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Svart á Hvítu

    19. March 2020

    Yndislega Aþena, ji hvað ég man eftir þessu tímabili. Ég frestaði alltof lengi að taka þetta föstum tökum enda fátt notalegra, og Bjartur á ennþá erfitt með að sofna sjálfur í dag nema hafa mig eða pabba sinn sitjandi hjá sér. Man þetta betur með barn númer tvö;)

  2. sigridurr

    20. March 2020

    Yndi! <3