Strigaskór dagsins að þessu sinni eru Nike Cortez
Nike Cortez var fyrsti íþróttaskórinn hannaður af Nike, árið 1972, og er þar af leiðandi sagður risa stór ástæða fyrir velgengni Nike. Skórinn var fyrst hannaður af Bill Bowerman, einum stofnenda Nike. Bowerman var hlaupaþjálfari og þjálfaði meðal annars Ólympíukeppendur, en hann taldi íþróttamenn þurfa þægilegan og endingargóðan skó hannaðan fyrir langhlaup. Hann hannaði því Cortez með það að leiðarljósi að skórinn yrði jafn þægilegur og hann væri endingargóður. Skórinn var gefinn út á meðan Ólympíuleikarnir árið 1972 fóru fram og mátti sjá fjölda keppenda í skónum, sem orsakaði gríðarlega hraða útbreiðslu skósins til almennings. Nike Cortez gjörbreytti hlaupaheiminum, hlauparar entust lengur og hlupu hraðar. Cortez skórinn hlaut strax mikla velgengni og var hampað fyrir óneitanleg þægindi og einfalt útlit. Hönnunin var einstök og ólík öðru sem áður hafði sést.
Síðan skórinn var fyrst gefinn út hefur hann farið frá því að vera hlaupaskór og yfir í að vera götuskór. Skórinn hefur þótt viðeigandi í meira en 40 ár og var endurútgefinn í hinni upphaflegu litasamsetningu á síðasta ári. Litasamsetningin er blá, rauð og hvít, sú sama og Forrest Gump klæddist í samnefndri kvikmynd.
Ég fékk mér mitt fyrsta par af Nike Cortez fyrir stuttu. Þeir fást í Húrra Reykjavík í litasamsetningunni hvítur/svartur/hvítur, eða þessari hér:
Þessir skór fá toppeinkunn frá mér. Fimm stjörnur fyrir þægindi og fimm fyrir útlit. Næst langar mig í upprunalegu litasamsetninguna!
xx
Andrea Röfn
Skrifa Innlegg