fbpx

MÓÐURMÁL

ANDREA RÖFNAÞENA RÖFNMEÐGANGAN

Á dögunum birtist viðtal við mig í Lífinu á Vísi.is. Viðtalið var í flokknum Móðurmál og líkt og nafnið gefur til kynna var móðurhlutverkið í aðalhlutverki. Ég naut þess að svara þessum spurningum og leiða hugann aftur að síðastliðnum mánuðum, breytingunum sem hafa átt sér stað og öllu því sem ég hef lært. Móðurhlutverkið er magnað og lífið hefur svo sannarlega tekið stakkaskiptum á allan máta. Ég var spurð að því hvort mér þætti ég sjálf hafa breyst við það að verða mamma og svarið mitt var: „Ég held að það hafi einfaldlega dregið fram í mér mínar bestu hliðar og ég geri mér betur grein fyrir því hvaða manneskju ég hef að geyma. Mér finnst ég hafa áttað mig betur á því hvað skiptir mig mestu máli í lífinu, og í hvað ég tími orku minni og athygli.“  Mér finnst þetta svar ná ágætlega yfir þessar helstu breytingar sem ég hef fundið fyrir á sjálfri mér, enda miklu minni tími til að velta sér upp úr óþarfa hlutum nú þegar orkan mann beinist að annarri manneskju meirihluta dagsins.

Í viðtalinu fer ég yfir það hvernig við komumst að óléttunni, hvað fótboltinn stjórnar miklu og hvernig okkur gekk að velja nafn, svo fáeitt sé nefnt. Þá nefndi ég einnig að „Mér finnst alltof mikið talað um meðgöngu og fæðingar, miðað við það sem koma skal að lokinni fæðingu. Brjóstagjöf er klárlega umræðuefni sem á skilið meira pláss. Mér finnst umræðan snúast rosalega mikið um það hvað brjóstagjöfin sé falleg og yndisleg, en það gleymist að nefna erfiðleikana, hvað hún tekur á í upphafi og mögulega fylgikvilla eins og sýkingar og stíflur. Þá finnst mér einnig gleymast að tala um að hún hentar ekki öllum og að það sé líka bara allt í lagi.“

Þið sem fylgið mér á samfélagsmiðlum hafið kannski tekið eftir því hvað fótboltinn spilar stóran sess í lífi okkar.  „Það gengur mjög vel en er krefjandi fyrir okkur bæði. Fótboltinn er mjög óhefðbundin vinna, honum fylgir mikil pressa um að vera í standi andlega sem líkamlega, standa sig vel í einum til tveimur leikjum í viku og vera á sífelldu ferðalagi. Honum fylgir ekkert fæðingarorlof og það er nánast aldrei frí um helgar. Helsti kosturinn er klárlega sá að hann klárar æfingar um eitt eða tvö og á þá restina af deginum til að eyða með okkur. Þann tíma nýtum við vel enda mjög dýrmætur. Þetta fótboltalíf er alls ekki sá glamúr sem margir halda að það sé, og það tekur á okkur bæði á mismunandi máta. Við mæðgurnar erum meira og minna límdar saman en fyrir Arnór fylgir þessu mikill söknuður á köflum. Sem betur fer er fótboltinn líka skemmtilegur og gefandi, sérstaklega þegar það gengur vel hjá liðinu eins og núna.“ 

Mín uppáhalds spurning var: Eru einhver skilaboð eða ráðleggingar sem þú vilt koma til verðandi mæðra? 
„Að fylgja eigin innsæi í einu og öllu og hugsa fyrst og fremst um þarfir sínar og barnsins. Mér finnst líka mikilvægt að vera aldrei í samanburði við aðrar mæður og börn, það tekur allt sinn aðlögunartíma og hann er ekki sá sami hjá öllum – börn eru öll sitthvor einstaklingurinn og þau passa ekki öll inn í einn kassa. Það þurfa allir að fá að finna sína rútínu í mismunandi aðstæðum og þó að barnið þitt sofi eða borði öðruvísi en það næsta, eða er lengur að fá tennur eða byrja að skríða, þá er það alveg eðlilegt. Ég fagna hverju stigi hjá Aþenu Röfn en hún fær að finna sinn takt upp á eigin spýtur og ég hef aldrei staðið sjálfa mig að því að bíða eftir næsta stigi í hennar þroska. Það er miklu skemmtilegra að njóta hvers tímabils fyrir sig því tíminn líður svo hratt.“ 

Mér finnst þetta það mikilvægasta sem ég hef lært síðustu 9 mánuðina. Það kom mér á óvart hversu miklar skoðanir fólk hefur á foreldrahlutverkinu og hvað mörgum finnst börn eiga að passa inn í sama box. Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á því að það er allt í góðu þó að Aþena Röfn sofi ekki jafn langa lúra og önnur börn, sé með aðra rútínu og sofni út frá brjóstinu, sem dæmi. Þetta með rútínuna fannst mér erfiðast en eins og gefur að skilja er ekkert sjálfsagt að halda henni góðri þegar við erum á stöðugu flakki og ekki alltaf í sama umhverfinu. Um leið og ég áttaði mig á því að það eru ekki öll börn eins og hver og einn þarf að finna sinn takt, fann ég fyrir miklum létti og gat hætt að afsaka mig í tíma og ótíma fyrir að gera ekki allt nákvæmlega „eftir bókinni“.

Viðtalið í heild sinni má lesa hér

x

Andrea Röfn

instagram: @andrearofn

JÓLAGJAFAHANDBÓK 66°NORÐUR

Skrifa Innlegg