fbpx

HALLÓ HEIMUR – FÆÐINGARSAGA

AÞENA RÖFNPERSÓNULEGT

Dóttir okkar kom í heiminn í Malmö þann 20. febrúar eftir 41+5 daga meðgöngu. Hún vó 3585 grömm og var 50 cm. Hjörtun okkar hafa stækkað margfalt síðan þá og hún hefur fyllt líf okkar af eintómri hamingju og ást síðustu 6 vikurnar.

Ég er búin að byrja á þessari færslu allt of oft og hafa skjalið opið í næstum því tvær vikur án þess að ná að klára eða vera nógu sátt með textann. Hvernig nær maður að koma þessari upplifun í orð? Fæðingarsagan mín finnst mér vera svo miklu meira en bara það sem gerðist á fæðingardeildinni eftir að ég fór af stað. Aðdragandanum fylgdi mikil spenna og óvissa þar sem fótboltinn hjá Arnóri spilaði stóran sess.

Síðast þegar ég bloggaði, 8. febrúar, var settur dagur runninn upp. Daginn eftir kom Arnór heim frá Spáni þar sem hann hafði verið í æfingaferð í 10 daga. Á meðan hann var í burtu var mamma hjá mér, vafði mig í bómull og við pössuðum að gera ekki of mikið á hverjum degi svo ég færi nú ekki af stað. Þrátt fyrir að algengt sé að ganga lengra en 40 vikur með fyrsta barn gátum við með engu móti vitað hvernig það yrði í okkar tilfelli og til öryggis vorum við með tímasetningar á hverju einasta flugi frá Spáni á kristaltæru, þennan tíma sem hann var í burtu. Léttirinn við að fá Arnór heim var rosalegur. Þá vorum við svo handviss um að ég færi af stað hvað og hverju, fyrst okkur tókst að komast í gegnum þessa æfingaferð áfallalaust. Hérna í Svíþjóð eru konur helst ekki settar af stað fyrr en sléttum tveimur vikum eftir settan dag, ef allt er í standi og konunni líður vel. Mér leið ótrúlega vel undir lok meðgöngunnar og hefði þess vegna getað verið ólétt í nokkrar vikur til viðbótar (segi ég núna!). En tíminn leið og ekkert bólaði á dótturinni sem naut sín voðalega vel í móðurkviði. Arnór spilaði heimaleik við Chelsea í Evrópudeildinni 14. febrúar og á þeim tímapunkti voru báðir foreldrar okkar beggja öll hérna úti. Talandi um hentuga tímasetningu fyrir barnabarnið að koma í heiminn. En áfram lét hún bíða eftir sér, fram yfir afmælið mitt þann 15. febrúar, greinilega ekkert spennandi að deila afmælisdegi með mömmu sinni.

Seinni leikurinn gegn Chelsea átti svo að fara fram í London fimmtudaginn 21. febrúar og við höfðum ekki einu sinni pælt í möguleikanum að þurfa að hafa „áhyggjur“ af honum í sambandi hvenær fæðingin færi af stað. Að sjálfsögðu vorum við ákveðin í því að Arnór færi ekki í leikinn ef fæðingin myndi lenda á sama degi. Hins vegar vildum við bæði að hann spilaði leikinn ef hann gæti. Á sunnudeginum, 17. feb, fannst okkur við komin heldur nálægt þessari dagsetningu og ákváðum því að fara upp á fæðingardeild til að kanna stöðuna á mér. Þá var ekkert að frétta, útvíkkunin 1,5 og þeim fannst engin ástæða til að setja mig af stað miðað við mína líðan. Á þriðjudeginum tókum við aftur stöðuna uppi á deild en hún var óbreytt frá sunnudeginum.

Nóttina eftir, aðfararnótt miðvikudagsins 20. feb, vaknaði ég svo um kl. 2 með verki sem duttu niður um 7 leytið. Verkirnir voru frekar óþægilegir en sársaukafullir og komu á 5-6 mínútna fresti en ég náði að dorma í gegnum þá. Þegar við vöknuðum ákváðum við þó að fara upp á deild og athuga málið og vorum komin þangað 7:50. Líkt og kvöldið áður mældist ég með 1,5 í útvíkkun. Verkirnir hins vegar fóru að ágerast það hratt að við fórum ekkert aftur heim. Við komum okkur í staðinn fyrir á fæðingarstofunni, fengum morgunmat og kaffi og tókum því eins rólega og við gátum.

Klukkan 10 var ég komin með harðar hríðir og fór í bað til verkjastillingar. Baðið var ótrúlega gott til að byrja með en svo fóru verkirnir að versna og 90 mínútum síðar fannst mér það ekki virka lengur sem verkjastilling og var orðin þreytt á hitanum. Þegar ég fór upp úr um 11:50 mældist útvíkkunin 4. Þá fékk ég glaðloft og tók hverja hríð standandi og hallandi mér fram á rúmið. Í næstu mælingu, kl. 14, mældist útvíkkunin 8. Þetta hafði því gengið frekar hratt fyrir sig og verkirnir eftir því. Þarna var ég orðin þreytt á glaðloftinu sem var hætt að virka jafn vel fannst mér. Ég þáði mænurótardeyfingu eftir að ljósmóðirin bauð mér að fá annað hvort hana eða morfín. VÁ hvað það var góð ákvörðun, ég lofsyng þessa deyfingu sem gjörsamlega bjargaði mér á þessum tímapunkti. Ég gat aðeins slakað á, borðað, safnað orku og spjallað við Arnór. Mér fannst þessi ákvörðun líka ‘meant to be’ þegar það var íslenskur læknir sem kom og lagði deyfinguna. 14:45 eða 45 mínútum síðar var ég komin með fulla útvíkkun. Rembingurinn hófst rúmlega klukkutíma síðar eða kl. 16 og endaði með því að ég var klippt. Klukkan 16:50 kom hún í heiminn, dóttir okkar, litla fallega og guðdómlega dóttir okkar. 50 cm og 3585 grömm. Til í þetta líf, með langar neglur og fullt af hári. Fljótlega eftir að ég var saumuð og gat sest upp fann hún svo brjóstið, sem hefur síðan þá verið hennar uppáhalds staður. Á miðnætti vorum við litla fjölskyldan svo komin heim til okkar. Þakklát, hrærð og hamingjusöm með lífið eftir mögnuðustu upplifun lífs okkar.

Eftir fæðinguna höfðu ljósmæðurnar orð á því hversu gott teymi við Arnór mynduðum í fæðingunni. Ég gæti hreinlega ekki verið heppnari og þakklátari með hann og það sýndi sig svo sannarlega í öllu þessu ferli. Daginn eftir flaug hann svo til London, spilaði þennan risastóra leik og stóð sig eins og hetja. Um kvöldið var hann kominn heim til stelpnanna sinna. Mamma var hérna á meðan en hún hafði akkurat átt flug til okkar daginn sem ég átti. Ég var lengi að ákveða hvort ég ætti að láta þetta fótboltaævintýri fylgja fæðingarsögunni en svona var þetta hreinlega og mig langar ekkert að skafa af því hversu stóran sess fótboltinn spilar í okkar lífi. Það er að sjálfsögðu hægt að hlæja að þessu í dag og ég get ekki ímyndað mér ef Arnór hefði farið með liðinu þennan miðvikudagsmorgun. En hann var aldrei á leiðinni í það flug og við vitum það bæði undir niðri. Allt er gott sem endar vel.

Fyrstu 3 dagarnir..

<3

Andrea Röfn

MEÐGANGAN: SPURT OG SVARAÐ

Skrifa Innlegg

6 Skilaboð

 1. Elísabet Gunnarsdóttir

  5. April 2019

  TAKK elsku hjartans Andrea fyrir að deila þessari dásemdar reynslu og fallegu sögu <3 ég fékk kusk í augun.

 2. Andrea

  5. April 2019

  Dásamlegt
  Til hamingju <3

 3. Hildur Sif

  5. April 2019

  Takk fyrir að deila sögunni þinni með okkur <3 svo gaman að fylgjast með og til hamingju með lífið og prinsessuna!

 4. 5. April 2019

  Innilega til hamingju – falleg og einlæg frásögn

 5. Andrea Fanný

  6. April 2019

  Innilega til hamingju með þetta fallega litla líf

 6. Fanney Ingvarsdóttir

  8. April 2019

  Ótrúlega fallegt! <3