Kæru lesendur, það er loksins komið að aðalvinningnum í 4 ára afmælisleik bloggsins. Núna langar mig að gefa hönnun eftir einn besta hönnuð sem uppi hefur verið og einn af mínum uppáhalds, – sjálfan Arne Jacobsen.
Arne Jacobsen (1902-1971) er þekktur sem áhrifaríkasti móderníski arkitekt sem uppi hefur verið. Hann sá oft ekki aðeins um hönnun bygginga, en einnig húsgögnin ásamt öllum innréttingum og útbúnaði. Meistaraverk hans sem arkitekt eru meðal annars SAS hótelið í Kaupmannahöfn en það er þó hönnun hans á stólum sem hefur haldið nafni hans á lofti öll þessi ár.
Það kannast flestir við Maurinn sem þekktur er fyrir mínimalíska hönnun sína og formfegurð. Arne Jacobsen hannaði Maurinn upphaflega árið 1952 fyrir kaffiteríu danska lyfjaframleiðandans Novo Nordisk. Hann vildi hanna stól sem væri þægilegur, léttur og staflanlegur allt í senn og er stóllinn aðeins gerður úr tveimur pörtum; setan og bakið er úr formbeygðum krossvið og fæturnir eru úr krómhúðuðu stáli. Í takt við mínimalíska hönnunina vildi hann að stóllinn hefði aðeins þrjár fætur og voru þær hafðar eins mjóar og mögulegt var. Maurinn fór fljótlega í fjöldaframleiðslu hjá Fritz Hansen vegna gífulegra vinsælda. Sagan segir að Arne Jacobsen hafi verið á móti því að láta framleiða stólinn með fjórum fótum, en eftir að hann féll frá þá hóf Fritz Hansen framleiðslu á Maurnum með fjórum fótum sem er í dag vinsælasta útgáfan af stólnum. Stólinn hannaði hann einnig upphaflega í fjórum tegundum af krossvið ásamt svörtum lökkuðum, en eftir að hann féll frá hefur stóllinn verið framleiddur í öllum regnbogans litum.
Arne Jacobsen er talinn hafa verið mikill fullkomnisti og afar háar væntingar hans til framleiðslufyrirtækja á húsgögnum sínum leiddi hann á fund með Fritz Hansen árið 1934. Sá fundur markaði upphaf af löngu og afar farsælu samstarfi, en enn þann dag í dag sér Fritz Hansen um að framleiða hönnun Arne Jacobsen.
Vegna vinsælda Maursins, hóf Arne Jacobsen að vinna að fleiri stólum sem einnig voru gerðir úr aðeins tveimur pörtum, stóllinn sem hefur vakið hvað mesta athygli er Sjöan (Series 7), en þá má einnig nefna Grand Prix, Lily, Tongue og kollinn Dot.
Sum af hans allra þekktustu húsgögnum í dag er Eggið og Svanurinn sem hannaðir voru fyrir SAS Royal hótelið í Kaupmannahöfn árið 1957, og svo eru það stólarnir Sjöan og Maurinn. Þessi húsgögn eru í dag álitin sem táknmynd skandinavískar hönnunar.
Maurinn valdi ég sem aðalvinninginn, ekki aðeins vegna þess hve fallegur hann er, en einnig vegna þess að mér þykir hann geta staðið mjög vel einn og sér.
Það er verslunin Epal sem gefur lokavinninginn, en það er ein af mínum allra uppáhaldsverslunum:) Fyrir þá sem ekki vita þá er Epal einnig eina verslunin á Íslandi sem selur hönnun frá Fritz Hansen.
Það sem þarf að gera til að eiga möguleika á því að vinna þennan fallega stól er að:
…
1. Setja like á facebooksíðu Svart á Hvítu og Epal
2. Like-a þessa færslu.
3. Skilja eftir athugasemd hér að neðan með nafninu þínu.
Svo megið þið líka endilega segja mér hvar þið sjáið fyrir ykkur að stilla stólnum upp á heimilinu ykkar.
Endilega deilið gleðinni!
Ég mun svo tilkynna vinningshafa þann 1.desember.
Skrifa Innlegg