fbpx

& ÞÁ VARÐ ÉG FÖRÐUNARFRÆÐINGUR

Persónulegt

Mig langaði til þess að taka saman nokkur atriði sem stóðu uppúr á liðnu ári en eitt af þeim atriðum á þó skilið sína eigin færslu en það var þegar ég útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Make up Studio Hörpu Kára. Það er vel við hæfi að ég skrifi um það einmitt í dag þar sem ég tók eftir á samfélagsmiðlum að í gær byrjaði skólinn aftur með glænýjum nemendum og ég fékk alveg kitl í magann að fylgjast með þessum nemendum og vildi hálfpartinn óska þess að ég stæði í þeirra sporum að byrja í þessu skemmtilega námi – aftur. Og svo mundi ég líka að ég hef ekki komið með neina uppfærslu um námið eftir að við fluttum inn í nýju íbúðina enda haft í nógu að snúast.

Á einhvern ótrúlegan hátt hendir lífið stundum í mann ólíklegum verkefnum og þannig varð úr að ég var skyndilega búin að skrá mig í förðunarnám í lok september 2018, að mestu leyti því að ég þráði tilbreytingu í lífið, ég var byrjuð að staðna í starfi og vantaði eitthvað til að minna mig á hvar áhuginn minn liggur. Undanfarin ár hef ég einungis starfað við það að skrifa og hægt og rólega hef ég sjálf nánast drepið mína skapandi hlið í fullri hreinskilni sem blómstraði fyrir nokkrum árum síðan. Ég nefnilega elskaði að skapa, teikna, hanna, mála og svo margt þar á milli.

Þetta var mín helsta ástæða að ég ákvað að slá til þegar Harpa Kára sannfærði mig um að námskeið hjá henni myndi mögulega kippa mér í réttan gír. Og svo hef ég eins og margir tengja við, þótt förðun vera spennandi þrátt fyrir að kunna ekki neitt. Ég kom þangað inn með engan grunn og hafði aldrei farðað neinn áður, nema mig sjálfa og notaði t.d. aldrei augnskugga, gerviaugnhár eða slíkt, s.s. 100% amatör. Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir varðandi einmitt þetta atriði, hvort það þurfi að hafa grunn og vil því hafa það á hreinu:)

8 vikur liðu á ljóshraða svo skemmtilegt var námið. Þegar ég horfi tilbaka þá trúi ég varla hvað kennurunum tókst að kenna mér mikið og í dag þegar ég horfi á verkefnin mín er ég ótrúlega ánægð. En ég er víst haldin þeim leiða vana að vera mjög hörð við sjálfa mig og verð aldrei fullkomnlega sátt við það sem ég geri. Ég þurfti því smá fjarlægð frá verkefnunum mínum en þegar ég skoðaði aftur myndirnar í dag eftir gott jólafrí fannst mér þetta alveg hreint frábært og það er rosalegt afrek fyrir mig að viðurkenna það.

Ég útskrifaðist sem förðunarfræðingur í miðjum flutningum, þann 6. desember og núna mánuði síðar er tilvalið að birta nokkrar myndir frá náminu. Í náminu lærði ég það helsta um undirstöðuatriði förðunar ásamt því að læra heilmikið um húðumhirðu. Ég hef verið mjög dugleg að nýta mér þann fróðleik í leit minni að heilbrigðari húð, en Harpa, Natalie, Guðrún og Thelma ásamt öllum gestakennurunum eru þvílíkir viskubrunnar og ég var mjög dugleg að spurja enda forvitin með meiru. Með náminu fylgdi veglegt förðunarkitt og burstasett og ég uppgötvaði í leiðinni nýjar vörur sem eru nánast ómissandi í dag, og mig langar einmitt mikið til þess að deila með ykkur á næstu dögum mínum uppáhalds vörum sem námið og kennararnir kynntu mig fyrir.

Það kom mér skemmtilega á óvart að nálgunin í þessu námi er á að nemendur eiga eftir útskrift að geta unnið í “bransanum” og geta tekið að sér ólík verkefni fyrir myndatökur, auglýsingar, sjónvarp, kvikmyndir og slíkt. Því var mikil vinna lögð í húðvinnu til að útkoman væri nánast lýtalaus þar sem förðun fyrir myndatökur er ólík því að farða einhvern fyrir árshátíð. Við tókum fyrir sérstaklega hvernig eigi að farða “no make up – make up” og var það einnig eitt af þremur lokaverkefnum en aldrei hefði mig grunað að förðunarfræðingar væru mikið að vinna með slíka förðun. Við lærðum m.a. auglýsingaförðun, brúðarförðun, tískuförðun, sjónvarpsförðun, smokey, no make up ásamt ýmsu öðru og kem ég til með að búa að þessari þekkingu um ókomna tíð. Ég elska líka þá nálgun í skólanum að allir koma inn með ólíkan bakgrunn og á okkar eigin forsendum og því ekki nein pressa með próf og heimavinnu, við áttum bara að hafa gaman og líða vel í skólanum. Sem var einmitt raunin og hentaði mér gífurlega vel þar sem ég hef undanfarið ár verið að kljást við mikinn kvíða og hjálpaði Harpa mér persónulega mikið og á ég henni margt að þakka ♡

Síðustu þrjár myndirnar hér að ofan tók ég af sýnikennslum, annað er brot af því sem ég var að gera í skólanum.

Beauty make up //  Yndislega Linda Ben kom sem módel til mín í klassíska beauty förðun, en hún kom strax upp í hugann á mér þegar ég fór að hugsa um mögulegt módel í þetta lokaverkefni. Hér vildi ég leggja áherslu á rauðar varir og eyleliner sem mér þótti vera mín sterka hlið í náminu.  Útkoman var glæsileg, algjört power kvendi á þessari mynd, en við sem fylgjumst með Lindu vitum að hún er alltaf brosandi.  // Mynd : Saga Sig – Fatnaður : AndreA

Fashion make up // Katrín Erla kom nokkrum sinnum til mín sem módel í skólanum, algjört yndi þessi stelpa sem er einmitt núna sjálf byrjuð í náminu. Hér er hún í tískuförðun þar sem útkoman er oft óhefðbundin og allt er leyfilegt. Ég vildi vinna með bleikan varalit á augum ásamt nóg af glimmeri sem reyndist ekki auðveldasta hugmynd sem ég hef fengið! Hér hefði ég viljað lengri tíma til að ná akkúrat fram því sem ég vildi en ég er í dag mjög ánægð með útkomuna ♡ // Mynd: Anna Kristín Óskars – Fatnaður : AndreA

No make up – make up // Halla Sigríður Ragnarsdóttir módel kom til mín í lokaverkefni í no make up – en þrátt fyrir heitið “engin förðun” fór mikill tími í húðvinnu, létta augnskyggingu og andlitskyggingu, allt fyrir þá útkomu að módelið átti að vera með fullkomna glóandi húð. // Mynd: Saga Sig – Fatnaður: í einkaeigu, frá AndreA

Ég fann nýlega bók sem ég hafði skrifað í þegar ég var 8 ára gömul að þegar ég yrði stór ætlaði ég að verða “snirtifræðingur og hönuður” haha… ætli þetta sé þá ekki bara búið að rætast! Förðunarfræðingur og vöruhönnuður ♡

Ég hlakka til að deila með ykkur þessu nýja áhugamáli mínu.

Takk fyrir að lesa – og fyrir áhugasama þá rakst ég á (það bað mig enginn um að skrifa þessa færslu né deila þessu), en hægt er að vinna förðunarnámskeið hjá Make up Studio Hörpu Kára á Instagram – sjá nánar hér.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

2019 DAGATÖL // HEIÐDÍS HELGADÓTTIR

Skrifa Innlegg