fbpx

STJÖRNUSTÍLISTINN LOTTA AGATON SELUR HEIMILIÐ

Heimili

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með stíl sænska stjörnustílistans Lottu Agaton þróast í gegnum árin en hún hefur verið óhrædd við að feta nýjar slóðir þegar kemur að heimilisstíl. Hún er yfirleitt skrefi á undan þegar kemur að tískustraumum og má þar nefna að hún málaði allt heimilið sitt fyrir 5 árum síðan í dökkgráum lit, veggi og loft og kom þar af stað vinsælli tískubylgju sem enn sér ekki fyrir endann á – þar sem loft og veggir eru málaðir í dökku – sjá myndir hér. Hún seldi það heimili fyrir um fjórum árum síðan og fór þá aftur yfir í allt ljóst en þá voru flestir svíar nýbúnir að mála yfir hvítu veggina sína og eflaust mörgum sem brá nokkuð að þessi vinsæli stílisti og trendsetter hafi tekið svona mikla u-beygju varðandi litaval. Heimilið sem við erum að skoða núna er staðsett á Kungsholmen, vinsælu íbúðarhverfi í Stokkhólmi og seldist íbúðin á augabragði.

Stíllinn er notalegur og fallegir ljósir jarðlitir og náttúruleg efni eru einkennandi. Stærðarinnar listaverk setja sinn svip á heimilið ásamt vel valinni hönnun og úthugsuðum smáatriðum sem hafa verið hennar einkennismerki – hér hefur hverjum einasta hlut verið vandlega raðað.

Myndir // Per Jansson via My Scandinavian home 

Hún Lotta er í miklu uppáhaldi hjá mér eins og ég hef svo oft komið inná áður, ég hitti hana fyrir um tveimur árum síðan í afmælisboði String í Stokkhólmi sem mér var boðið í af Epal, en Lotta sér um alla stíliseringu fyrir String. Ég stóðst ekki mátið og viðurkenni að ég beið eftir henni fyrir utan baðherbergið til þess eins að geta sagt henni hvað ég væri roooosa mikill aðdáandi hennar haha. Þeir sem þekkja mig sjá þetta líklega fyrir sér – en ég á frekar erfitt með að segja ekki allt sem ég hugsa! Hún var sem betur fer jafn æðisleg og ég sá fyrir mér – en ein verstu vonbrigðin eru líklega að vera aðdáandi einhvers sem kemur svo í ljós að sé ekki næs (eins og mögulega einn súper frægur hönnuður sem var hér á landi einu sinni haha… ).

Smá útúrdúr, en það er gaman að skoða falleg heimili sérstaklega þegar fólkið sem býr þar er brosmilt og skemmtilegt ♡

FALLEGASTA LJÓSIÐ KOMIÐ HEIM

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Sigrún Víkings

    26. March 2021

    Þú hefur ekki bara hitt hana. Þið eruð líka sófaborð-systur!