fbpx

FALLEGASTA LJÓSIÐ KOMIÐ HEIM

HeimiliHönnunKlassíkPersónulegt

Verner Panton er einn af mínum uppáhalds hönnuðum og mig hafði dreymt um að eignast klassíska skeljaljósið hans í mjög mörg en það er eitt af hans meistaraverkum og var hannað árið 1964. Ljósið ber skemmtilega nafnið Fun en það mætti einnig segja að sé frekar lýsandi orð um hönnun Verner Panton, það er nefnilega mikil gleði sem einkenndi öll hans verk, bæði í litum og formum. Flest ykkar þekkja Panthella lampana sem eru einnig á meðal hans þekktustu verka en Fun ljósin tróna á toppnum að mínu mati og eru framleidd af danska hönnunarframleiðandanum Verpan. Algjörlega stórkostlega falleg hönnun sem ég hreinlega fæ ekki nóg af.

Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að kaupa ljósið í miðstærð Fun 1dm en þess má geta að ljósið kemur í ótrúlega mörgum útgáfum og stærðum; loftljós, náttljós, gólflampar og borðlampar. Fun ljósin þarf að láta sérpanta hjá Epal og það eru engin sýningareintök en ég lofa ykkur því að þau eru jafn falleg og þið haldið. Þessi stærð er fullkomin þykir mér, nógu ‘grand’ án þess að gleypa stofuna mína sem er ekkert mjög stór.

Ljósið kom aldeilis vandlega innpakkað og hver og ein skel var pökkuð inn í silkipappír og með ljósinu fylgdu hvítir hanskar sem ég þurfti að vera í á meðan ég raðaði ljósinu saman – mikið stuð! Skeljarnar eru náttúrulegar og því engin þeirra eins sem gerir hvert ljós einstakt. Rósettan frá Sérefni rammar ljósið síðan svona fallega inn, finnst hún alveg 100% setja punktinn yfir i-ið.

Núna er borðlampi í Fun línunni á óskalistanum mínum en falleg ljós eru eitthvað sem ég á mjög erfitt með að standast. Verpan framleiðir mikið af klassíkum eftir Verner Panton sem var án efa einn af risunum í danskri hönnunarsögu þrátt fyrir að hafa oft farið óhefðbundnari leiðir en kollegar hans. Ég mæli svo sannarlega með því að skoða úrvalið hjá Verpan af ljósunum ef þú ert í leit að einstakri hönnun.

Ég er alveg bálskotin, hvernig lýst ykkur á valið?

VORBOÐINN LJÚFI : MÚMÍN VORNÝJUNGAR

Skrifa Innlegg