fbpx

SKRIFSTOFAN Í DAG & NÝ BÓK Í SAFNIÐ

BækurPersónulegtUmfjöllun

Það hefur verið heldur hljóðlegt hér á blogginu síðustu daga en þegar að mömmur eru aðframkomnar af svefnleysi þá virkar heilinn ekki endilega sem skyldi sem einmitt var í mínu tilfelli og þá spretta hugmyndirnar a.m.k. ekki fram varðandi bloggpósta. Ég hef einnig verið að íhuga hvernig einstæðar mæður fara að, nei án nokkurs gríns þá eiga þær skilið medalíu um hálsinn fyrir að ná að halda öllum boltum á lofti einar með krílin sín því mér er varla að takast það. Ég ákvað að vera í heilt ár í fæðingarorlofi til að geta verið lengur heima með stráknum mínum en í staðinn þarf ég að sinna smá vinnu á sama tíma sem ég hef sem betur fer mjög gaman af því annars hefði þessi ákvörðun alls ekki verið góð:) Í dag tók ég mig til og flokkaði vinnuaðstöðuna mína, pappíra og tímarit en það er ótrúlegt hversu miklu munar að vinna við hreint og vel skipulagt skrifborð.

Einnig langaði mig til þess að segja ykkur örlítið frá áhugaverðri bók sem ég fékk fyrir stuttu í gjöf og hef verið að glugga í en hún heitir Tækifærin.

IMG_0174

Ég er mikill aðdáandi HAY, en skipulagsboxin og appelsínugula mappan eru frá þeim, ég á möppuna einnig í stærri týpunni en ég elska að hafa hana opna því hún gefur vinnuaðstöðunni svo mikið líf. Þarna sést einnig í bókina góðu sem ég hef verið að fletta reglulega í síðan ég fékk hana fyrir stuttu.

IMG_0180

Tækifærin er bók sem hefur að geyma viðtöl við 50 íslenskar konur sem deila með okkur sinni reynslu og góðum ráðum úr atvinnulífinu. Þetta er svona bók sem ég hefði gjarnan viljað hafa lesið þegar ég var 19 ára gömul óviss um hvert ég stefndi í lífinu og við hvað ég ætlaði að vinna. Það þarf ekkert að lesa hana blaðsíðu fyrir blaðsíðu sem er góður kostur, ég hef þegar klárað fjölmörg viðtöl en þó byrjaði ég að sjálfsögðu að lesa viðtalið við flottu vinkonu mína hana Fatou sem starfar sem sérfræðingur á gæðasviði Nóa Siríus:)

IMG_0179

Þó að konurnar sem viðtölin eru við eiga það allar sameiginlegt að hafa lokið námi á sviði tækni eða raunvísinda, sem er augljóslega ekki mitt svið, þá gat ég þó tengt við svo margt sem þarna kom fram og svo finnst mér bara svo einstaklega jákvætt að svona bók sé til sem ungar stelpur geti sótt innblástur í og góð ráð. Að lesa viðtöl við konur sem hafa náð langt í sínu fagi, eru bæði frumkvöðlar, forstjórar eða sérfræðingar er ekkert nema hvetjandi, sama á hvaða sviði þú starfar:)

“Veljið eitthvað sem þið hafið gaman af því stór hluti vikunnar fer í vinnuna. Ekki hugsa bara um tekjumöguleikana, vinnuumhverfið skiptir svo miklu máli. Erfitt getur verið að komast að því hvað manni finnst um starfsvettvanginn áður en námi lýkur, en sumarvinna á sviðinu sem þig langar að læra um og starfa á, er góð leið ef kostur er. Anna Kristín Sigurpálsdóttir. Sérfræðingur í framkvæmdadeild.

“Hindranir eru alltaf fyrir hendi en ég held að við séum oft sjálfum okkur verst. Ég hef stundum talað mig niður og ekki þorað að taka áhættu, ekki þorað að segja: Já ég get þetta, jafvel þótt ég viti það vel með sjálfri mér. Eða ekki þorað að segja: Þetta er starfið sem ég á að fá. Það er eitt af því sem lærist með aldrinum. Með því að skilja sjálfan sig betur gerir hver og einn sér betur grein fyrir í hverju hann er raunverulega slakur og líka hvar hæfileikarnir liggja.” Auður Magnúsdóttir. Deildarstjóri próteintæknideildar.

“Númer eitt, tvö og þrjú er að fylgja eigin ástríðu ef hún er fyrir hendi. Ekki velta þá fyrir ykkur peningum eða vinnutíma. Við verjum einum þriðja af lífinu í vinnunni og því er svo mikilvægt að við fáumst við eitthvað sem við höfum áhuga á. Sjálfstraust skiptir líka mjög miklu máli – að trúa á sjálfan sig. Jafnvel þótt sjálfstraustið sé ef til vill ekki alltaf fyrir hendi, þá er bara málið að láta eins og svo sé!” Lóa Fatou Einarsdóttir. Sérfræðingur á gæðasviði.

Ég tók þessar setningar bara handahófskennt úr bókinni, en það er alltaf gott að lesa góð ráð. Ég er ekkert mikið í því að mæla með bókum svosem, en núna styttist í allar útskriftirnar og því langaði mig til að segja ykkur stuttlega frá þessari bók sem ég hafði gaman af og ég held að gæti mögulega hjálpað stelpum (líka strákum) að finna sinn farveg:) Sjá frekari upplýsingar um bókina á vefsíðu Tækifæranna –hér.

Screen-Shot-2015-04-23-at-22.38.42

MÆÐRABLÓMIÐ HANDA ÖLLUM MÖMMUM

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Agla

    7. May 2015

    Skemmtilegt blogg – ætla klárlega að næla mér í þessa bók :)