fbpx

SJARMERANDI SVEITASTÍLL Á SÆNSKU HEIMILI

Heimili

Það er eitthvað svo einstaklega notalegt við þetta fallega heimili þar sem ekta skandinavískur sveitastíll ræður ríkjum. Antík viðarhúsgögn og allskyns fallegir skrautmunir sem minna á gamla tíma prýða hvert rými og er þeim stillt upp með vel völdum og ögn nútímalegri munum sem eru eftirsóttir í dag, takið eftir gullfallegu myndinni á stofuveggnum – en ég þori að veðja að þetta sé sjónvarp í dulargervi (Samsung Frame)?. Litapallettan er dempuð og kalkmálaðir veggir ásamt ‘fluffy’ hvítri ullarmottu gerir hana svo ótrúlega hlýlega og notalega. Húsið er frá 1926 og fær gamli stíllinn að njóta sín vel og skemmtileg smáatriði sem ég tek eftir sem fer þessu húsi vel, eins og veggfóður myndskreytt blómamyndum William Morris frá 1879, en fyrir áhugasama þá er Morris af mörgum talinn vera faðir veggfóðursins ♡

& fyrir ykkur sem heillist af þessum gamla sænska sjarmerandi stíl þá hvet ég ykkur til að kynna ykkur Svenskt Tenn en það er án efa margt hér inni úr þeirri verslun sem er ein sú allra glæsilegasta sem ég hef stigið fæti inn í. Til að byrja með klassíski Dagg vasinn sem prýðir stofuborðið hannaður fyrir verslunina og ásamt honum má sjá glitta í bók um Josef Frank á borðinu sem ekki aðeins er einn merkasti hönnuður Svíþjóðar heldur lagði einnig grunninn af því sem Svenskt Tenn er.

En yfir að heimilinu sjálfu – kíkjum í heimsókn!

Þetta sjónvarp er engu öðru líkt – þarna fær falleg ljósmynd með “kartoni” að njóta sín í stað þess að sjá bara svartan kassann á slökktu sjónvarpinu sem myndi svo sannarlega ekki passa inn í þetta umhverfi.

Eldhúsið er í huggulegum sveitastíl með gömlum viðarbekk og borð í stíl, bogadregin vegghillan er klassík sem smellpassar hér inn. Eitthvað svo látlaus og fallegur eldhúskrókur.

Baðherbergið er algjör sjarmör með rauðum og hvítum gólfflísum á móti fölgrænni baðinnréttingu með fulningarhurðum – sem ég saknaði að sjá líka í eldhúsinu. Sjáið þetta krúttlega stutta baðkar, og með huggulegum viðarplanka ofan á fyrir dekurvörur eða góða bók.

Svefnherbergið er dásamlega notalegt, í mildum ljósgrágrænum lit og með gluggatjöld fyrir fataskápnum í stað hurða sem gerir heildina enn hlýlegri.

Myndir : Historiska Hem

Og enn eitt smáatriðið, sjáið myndina hér að ofan þar sem brasslista (sóplista) hefur verið bætt við á gólfið og brýtur það svona fallega upp. Mikið sem þetta heimili er skemmtilegt, þó svo að ég persónulega myndi ekki velja stílinn á mitt heimili þá elska ég þetta heimili og stofan er alveg toppurinn.

Takk fyrir lesturinn ♡

Fylgstu endilega með á Instagram @svana.svartahvitu

GLÆSILEGASTA POSTULÍNSSTELL SEM HEIMURINN HEFUR SÉÐ?

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Kristín

    7. October 2022

    Sæl

    Veistu hvaðan Bubblu ljósið úr stofunni er?