fbpx

GLÆSILEGASTA POSTULÍNSSTELL SEM HEIMURINN HEFUR SÉÐ?

HönnunKlassík

Það var árið 2012 sem Royal Copenhagen kynnti Flora línuna en hún var gerð til heiður klassíska Flora Danica stellinu sem er eitt virtasta og glæsilegasta postulínsstell í heiminum, yfir 230 ára gömul hönnun sem sæmir konungsfólki og er einnig á meðal mikilvægustu menningarverðmæta dana.

Ef ég reyni að einfalda sögu stellsins í örfáum setningum þá var það Friðrik 5. danakonungur sem lagði inn pöntun hjá Konunglegu dönsku postulínsverksmiðjunni fyrir stelli sem átti að vera glæsilegasta postulínsstell sem heimurinn hefði séð og þá sérstaklega þurfti það að heilla Katrínu keisaraynja Rússlands en hún var einmitt alræmdur safnari fíns postulíns og Friðrik vildi jú færa henni gjöf. Lést hún þó áður en postulínið varð tilbúið, enda tímafrekt að handgera slíkan lúxus. Fyrstu tólf árin var þó aðeins einn maður sem sá um að handgera og mála blómastellið, enda slíkir hæfileikar sjaldgæfir á þessum tíma, Johann Christoph Bayer framleiddi tæplega 2000 muni í stellið, og samkvæmt Royal Copenhagen kostaði þessi mikla nákvæmisvinna hans við stellið ekki aðeins styrk hans heldur einnig sjónina. Jahérna. Þegar Flora Danica stellið var loks tilbúið þótti það sýna heiminum listræna og tæknilega hæfileika dönsku þjóðarinnar, stellið er skreytt blómum og plöntum úr danskri náttúru og þykir af mörgum vera eitt fallegasta postulínsstell sem gert hefur verið. Það er í dag aðeins fáanlegt sérpantað hjá Royal Copenhagen enda afar dýrmætt stell og eru aðeins 20 manns í öllum heiminum sem hafa færnina og þekkinguna til handgera stellið og þarf margra ára þjálfun til vinna sig upp í það að mála Flora Danica.

Hér má sjá stellið sem um ræðir, en það er enn í dag handgert á sama máta og það var gert árið 1700 og eitthvað. Mögulega aðeins of skrautlegt að mínu mati svona allt stellið saman lagt á eitt borð, en án efa afskaplega fallegt nokkrir munir á móti hvítu stelli.

En yfir að Flora stellinu fallega,

Flora línan er í raun nútímalegri útgáfa Flora Danica og var fyrst kynnt fyrir 10 árum síðan. Handmáluð blómin hafa verið stækkuð upp og njóta sín nú betur, kantarnir eru málaðir með 23 karata gyllingu en flestu dúlleríinu sem einkennir klassíska Flora Danica hefur verið sleppt fyrir afslappaðri stíl og því hægt að nota stellið jafnt hversdagslega sem og við fínni tilefni. Flora stellið var hannað árið 2012 af Anja Vang Kragh, sem er fata og búningarhönnuður og hefur unnið m.a. fyrir Stella McCartney og Dior. Flora stellið er gert úr “bone china” postulíni, en postulín er ekki það sama og postulín og þykir “bone china” það allra fínasta í bransanum og er einnig sterkara en hefðbundið postulín, en þó er það léttara og þynnra!

Ég elska hvað Flora línan er lífleg og litrík og það er án efa æðislegt að skreyta borðið með þessum fallegu blómum og að mínu mati passa þau einnig við klassískt Blue fluted stell sem margir safna. Einnig bara nokkrir stakir blómaskreyttir diskar á móti hvítum er mjög fallegt.

Kosturinn við Royal Copenhagen stellið er sá að hlutirnir eru í ábyrgð í 2-3 ár ef ske kynni að eitthvað brotni (ef þú mundir að skrá vöruna í kerfið innan 90 daga.) Mér finnst það mjög stór kostur og hvetur jafnframt til þess að nota hlutina meira en bara við sparitilefni ♡

Hvað finnst ykkur? Gamla eða nýja stellið?

Ef þið hafið gaman af sögu þá mæli ég með að lesa um sögu Flora Danica sem lesa má á vefsíðu Royal Copenhagen.

Takk fyrir lesturinn, ég vona að þið hafið haft gaman af þessari sögu á bakvið þessa klassísku hönnun. Ég sjálf elska að vita meira um vörurnar og hvað býr að baki, eins og hér má sjá yfir 230 ár af sögu sem liggur að baki Flora stellinu sem nú er komið í nútímalegri búning – og er reyndar fallegra í dag að mínu mati.

BLEIKUR OKTÓBER // FALLEGAR STYRKTARVÖRUR

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. AndreA

    5. October 2022

    Já fínt já sæll
    færsla sem ég elskaði að lesa <3