Viðardýrin eftir Kay Bojesen þekkjum við öll en apinn, söngfuglarnir og öll hin dýrin eiga sér mjög marga aðdáendur.
Þrátt fyrir að Kay Bojesen hafi látist árið 1958 þá hefur Rosendahl sem eiga í dag réttinn á hönnuninni verið duglegir að setja á markað nýjungar, eða réttara sagt hefja endurframleiðslu á gömlum gullmolum. Frá árinu 2012 hafa þeir reyndar verið sérstaklega duglegir en á þeim tíma hafa komið á markað, lundinn, söngfuglarnir, turtildúfurnar, jólasveinninn og núna í haust kom apinn út í miðstærð.
Núna í febrúar er að koma mjög spennandi nýjung í safnið en það er sebrahesturinn sem upphaflega var hannaður árið 1935.
Ég er mjög spennt fyrir þessum og ætla svo sannarlega að næla mér í eintak og bæta honum í safnið mitt.
Myndirnar hér að ofan eru teknar á Ambiente sýningunni í Frankfurt…þar sem ég hefði átt að vera stödd í dag, en ég átti einmitt flugmiða þangað út í morgun sem ég þurfti að hætta við á síðustu stundu (fyrir helgi) þar sem að Bjartur náði ekki í tæka tíð að taka pela. Í staðinn fylgist ég með sýningunni m.a. á Instagram þar sem fjölmargir gestir á sýningunni deila myndunum sínum. Það hefði verið ljúft að komast úr kuldanum hér heima í nokkra daga, en núna er það bara að krossa fingur að ég fái aftur svona gott boð að ári liðnu en sýningin úti býður alltaf nokkrum blaðamönnum og bloggurum og því hef ég farið síðustu tvö ár. Skemmtileg sýning en alveg gífurlega stór, mig langar alltaf að opna verslun eftir að hafa farið þangað. -Kannski einn daginn;)
Vonandi var helgin ykkar góð!
-Svana
Skrifa Innlegg