fbpx

NÝJA HEIMILIÐ – FYRIR & EFTIR

HeimiliPersónulegt

Þá er loksins að komast smá mynd á nýja heimilið okkar fjölskyldunnar.

Síðustu vikur hafa verið mjög strembnar og við gáfum okkur smá frí frá stússi um helgina til þess að ná aðeins andanum og er því enn eftir að klára að hengja upp öll ljósin og ýmislegt á veggi. Við afhentum lyklana af leiguíbúðinni okkar á föstudaginn s.l. og má segja að mjög þungu fargi hafi verið létt af mér.

Ég er mikið spurð núna hvort þetta sé hreinlega íbúð sem við erum í því þetta virki “svo stórt” en þetta er jú bara gamla herbergið mitt sem ég bjó í á mínum unglingsárum. Nema það að við bættum við litlu rými sem við notum sem barnaherbergi og minnkuðum inn til foreldra minna og söguðum hurðargat inn til okkar svo í heildina þá er herbergið núna um 20 fermetrar. Það nýtist mjög vel því herbergið er L – laga og var upphaflega tvö minni herbergi sem var brotið á milli fyrir mörgum árum síðan, ég er því mjög þakklát pabba að hafa ákveðið að kaupa nýtt parket fyrir okkur því fyrir voru þrennskonar gólfefni ásamt sárum í gólfi eftir veggina og leit alls ekki vel út. Einnig er ég ótrúlega heppin með mennina í mínu lífi sem eru einstaklega handlagnir og gátu græjað herbergið á einfaldan hátt svo vel fari um okkur öll. Umrætt herbergi var geymsla undanfarin ár og alveg stútfull af dóti svo foreldrar mínir hafa tekið mikið á sig fyrir þessa flutninga okkar og losuðu sig við fullt af hlutum til að koma okkur fyrir ásamt öllu sem okkur fylgdi ♡

Lífið á hótel Mömmu er annars nokkuð gott, húsið sem um ræðir er um 160 fm raðhús í gamla bænum í Hafnarfirði á tveimur hæðum og með garði. Þetta síðasta orð er mikilvægast – garður, vá hvað ég hef lengi þráð að hafa garð en við höfum aldrei búið í íbúð með garði svo núna tel ég niður í sumarið.

Stefnan er sett á að geta safnað fyrir innborgun í fyrstu íbúð, en þessi sem verið var að selja undan okkur var seld á 48 milljónir og hefðum við þurft að eiga um 10 milljónir í útborgun fyrir viðráðanlegu láni sem er nánast ómögulegt hafandi búið á leigumarkaði í 10 ár. Planið er því að búa hér í eitt ár og svo tökum við stöðuna reglulega bæði á markaðnum og einnig hvernig gengur að leggja fyrir. Ég er að minnsta kosti orðin mjög spennt fyrir þessu stóra verkefni.

Ég ætla að deila með ykkur þremur myndum af herberginu í bili ásamt smá fyrir svo þið sjáið hverju við breyttum. Næst á dagskrá er að setja upp gardínur og svo mun ég klára að koma öllu fyrir.

Liturinn á veggnum heitir Soft Paris og er frá Sérefni, en rósettan er einnig þaðan. *Ég er í samstarfi við Sérefni.

Hérna er horft úr stofu og inn í herbergið sem bætt var við, ég þurfti að berjast fyrir því að láta setja lista í kringum hurðaropið en sumum þótti það sko algjör óþarfi. Við erum einnig eftir að setja ljós inn til Bjarts, núna er bara rússapera og frekar gulleit birtan þar inni. Vá hvað mig hlakka til að sjá útkomuna þegar allt er komið á sinn stað.

Hér er horft úr svefnherberginu og inn í stofuna okkar, en rúmið okkar komst ekki fyrir í þessum enda (vantaði 4 cm uppá breidd rýmisins) og sofum við hjúin núna í einhverskonar fermingarrúmi haha.

Hér má sjá hurð sem var tekin og lokað fyrir en ég var alltaf með fataskáp fyrir þessari hurð í den, en núna er sá sami fataskápur hinum megin við hurðina og fáum við að geyma fötin okkar frammi á gangi til að spara plássið.

Litlar en þó mjög góðar breytingar! Er þetta ekki bara að verða nokkuð huggulegt? Leyfi þessum símamyndum að duga í bili – sýni ykkur betur innan skamms.

// Mæli einnig með að fylgja mér á Instagram @svana.svartahvitu 

ÞEGAR HJARTAÐ MISSTI ÚR SLAG

Skrifa Innlegg

8 Skilaboð

  1. Guðrún Sørtveit

    6. February 2018

    Vá þetta er fínt <3

  2. Lára

    6. February 2018

    Þetta er mjög kósý hjá ykkur :)

  3. Huldajons

    6. February 2018

    Vá þetta er allt að koma til… vel gert hjá þér Svana mín eins og öll þau verkefni sem þú tekur þér fyrir hendur. Hlakka til að koma og sjá. :)

  4. Sigrún Víkings

    7. February 2018

    Æði! Svo Svönulegt og fínt? tek til fyrirmyndar hvað þið náið að nýta þessa fermetra vel!