Við fengum lyklana afhenta að íbúðinni okkar á fimmtudagskvöldið s.l. og höfum síðan þá haft nóg fyrir stafni – að minnsta kosti hann Andrés minn. Það voru nokkrir hlutir á lista sem við vissum að þyrfti að gera bæði innandyra og að utan og það verður gaman að tækla það verkefni saman. Það fyrsta sem þurfti að gera var að taka niður loftpanel og setja gifs í öll herbergi fyrir utan eldhús og baðherbergi sem voru tekin í gegn fyrir um tveimur árum síðan og því er búið að setja gifs þar. Núna er því búið að opna loftið alveg en við ákváðum að skipta líka um einangrunina, en húsið var byggt um 1963 og því var frauðplast og pappi sem rakavarnarlag sem þykir ekki fullnægjandi í dag, m.a. ef horft er til brunavarna, kyndingar og hljóðeingangrunar. Núna er staðan því sú að loftið er opið og verða settar nýjar dósir, dregið nýtt rafmagn í allt og því tilvalið að nýta tækifærið að endurhugsa ef þess þarf staðsetningu á tenglum.
Á þessum tveimur myndum að ofan sést hvernig loftið var áður, loftið í stofunni var upprunalegur panell sem var kominn tími á og í svefnherbergjum voru loftaplötur sem sjást ekki oft á heimilum.
Hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með! Þess má geta að það eru margir að mistúlka neðstu myndina að lofthæðin verði meiri eftir breytingu en svo er ekki, hér á eftir að setja upp einangrun ásamt gifsplötum svo lofthæðin kemur til með að vera sú sama.
// Ég hef sett mikið í story á Instagram frá ferlinu og kem til með að vera virk þar fyrir áhugasama @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg