Ég vona að fyrirsögnin móðgi enga en það er einfaldlega staðreynd að konur ráða oftast útliti heimilins og eiga þau stundum til að verða því smá kvenleg. Ef ég tek mitt eigið heimili sem dæmi þá hefur minn maður mjög takmarkaðan áhuga fyrir heimilinu okkar eða a.m.k. útliti þess og hef ég því algjörlega frjálsar hendur til að koma heim með hvaða hluti sem er og mála veggi bleika ef mér hentar. Kostur ekki satt? En þegar ég finn heimili þar sem karlmaðurinn ræður öllu þá er útkoman mjög oft algjörlega frábær eins og innlitið hér að neðan sýnir. Hér býr Jesper Klintdrup Poulsen hönnunaraðdáandi með meiru og hefur hann haldið úti mjög vinsælum instagram aðgangi undir nafninu Klintdrupp og opnaði nýlega bloggsíðu. Litapallettan samanstendur af brúnum, gráum, hvítum, svörtum og bláum og má í hverju horni finna glæsilega hönnun sem er oftar en ekki norræn.
Klintdrupp á glæsilegt safn af stelli frá Royal Copenhagen og myndirnar hans fá mig til að langa samstundis að rjúka út í Kúnígúnd og versla mér nokkra bolla. -Það er reyndar bara tímaspursmál.
Klassísk skandinavísk hönnun heillar hann og má sjá nokkra mjög verðmæta hluti á heimili hans.
Hér er fallega búið um á hverjum degi en þessa mynd þyrfti ég líklega að sýna mínum manni sem sönnun til þess að karlmenn kunni svo sannarlega að búa fallega um rúmið haha.
Draumalampinn minn þessa stundina, Panthella!
Nagelstjakarnir frægu sem fást í Snúrunni hér heima.
Klintdrupp blandar saman nokkrum seríum frá Royal Copenhagen en Mega Fluted er á mínum óskalista.
Ég mæli með að fylgja þessum smekkmanni, hann veit aldeilis hvað hann syngur og ég er bálskotin í honum. @Klintdrupp. Eruð þið þó ekki smá sammála því sem ég nefndi hér að ofan með karlmannleg heimili vs. kvenleg heimili? Eða er þetta kannski alveg jafnt á ykkar heimili:)
Skrifa Innlegg