fbpx

JÓLADRAUMUR Á CHRISTMAS WORLD SÝNINGUNNI

Fyrir heimiliðSamstarf

Ég er þessa stundina stödd í Frankfurt á jólasýningunni Christmasworld 2018 og eyddi gærdeginum umkringd jólakúlum, jólatrjám og allskyns fallegum hlutum fyrir heimilið. Þetta er fimmta árið sem ég fæ boð frá sýningarhöldurum að koma út en í fyrsta sinn sem ég fer ekki á hönnunarsýninguna Ambiente sem haldin er árlega hér í Frankfurt í byrjun febrúar, heldur í staðinn á Christmasworld – mjög skemmtileg tilbreyting en það eru einmitt 3 aðrar sýningar haldnar um helgina og hefjast tvær þeirra í dag, en það eru Paperworld og Creative world sem ég er spennt að sjá. Þetta er ein stærsta sýning í heiminum og í raun mætti tala um að hér mætist heimurinn á einni og sömu sýningunni sem skipt er niður í 11 risa stórar hallir.

Hingað mæta verslunareigendur frá öllum heimshornum og skoða allar nýjungarnar og hitta alla samstarfsaðila sína, þetta er einhverskonar “meeting point” fyrir allan heiminn ef svo má segja – og mannfjöldinn í takti við það. Frankfurt er fræg fyrir sýningarnar sínar og allt árið um kring er hægt að sækja hingað allskyns ólíkar sýningar sem eiga það sameiginlegt að vera á … sterum.

Á Ambiente sýningunni er áherslan á hönnunarfyrirtæki og má þar sjá merki eins og iittala og Stelton að kynna nýjungar frá sér, en á Christmasworld er áherslan meiri á vörur sem finna má í fallegum gjafavöruverslunum, blómabúðum og að ógleymdu jólaskrautinu ásamt öðru árstíðartengdu skrauti.

Ég hef verið að sýna frá deginum á snappinu mínum en tók einnig fullt af myndum sem ég vildi deila með ykkur hér. Ég get ekki annað en mælt með þessari sýningu fyrir ykkur sem eruð í verslunarbransanum, ég sjálf uppgötvaði fullt af skemmtilegum merkjum og munu líklega fleiri bætast við á morgun.

Það fyndna við þetta er að núna flæða yfir mig fyrirspurnir um mína eigin verslun – sem er ekki á döfinni en hver veit hvað ég geri þegar ég verð loksins fullorðin. En ég er í ekta orlofi hér úti, gisti á Hilton í boði sýningarinnar og fór út að borða með sjálfri mér í gær. Núna er best að drífa sig út á næstu sýningar dagsins og koma heim uppfull af hugmyndum á morgun. Eigið góða helgi!

ÍSLENSKT HEIMILI FULLT AF HUGMYNDUM

Skrifa Innlegg