fbpx

INNBLÁSTUR FYRIR ELDHÚS // FALLEGAR BORÐPLÖTUR

Eldhús

Að velja rétta borðplötu fyrir eldhúsið getur reynst hausverkur fyrir flesta, úrvalið er mjög gott og verðbilið stórt. Borðplötur úr náttúrulegum steini heilla mig mest en eldhúsið okkar þarf mikið á smá yfirhalningu að halda og stefni ég á að klára það núna í vor. Eftir að hafa farið fram og tilbaka hvernig stein ég vil þá hallast ég í dag mest að ljósum kvartssteini, hann er mjög þægilegur í viðhaldi, þolir hita og mikið álag. Ég eignaðist nýlega borð með marmaraplötu og fann fljótt fyrir því að ég er fegin að það sé ekki stærra upp á viðhald að gera – verandi með barn og slíkt. En engu að síður er marmarinn alltaf gullfallegur og verður enn meira sjarmerandi með tímanum þó það muni alltaf sjást á honum. Einnig er hægt að velja granít sem er gífurlega slitsterkt ásamt að sjálfsögðu borðplötum úr við, harðplasti og slíku. Það þarf hreinlega að vega og meta hvað það er sem þú vilt.

Ég hef verið að sanka að mér ýmsum myndum af fallegum eldhúsum og þegar ég renndi yfir þær þá sá ég fljótt að ég virðist einungis vista hjá mér myndir af ljósum marmara/kvartsstein svo þetta er klárlega leiðin sem ég ætla að velja. Sjáið þessa fegurð.

         

       Myndir Svartahvitu Pinterest

Breytingarnar sem við sjáum fyrir okkur að fara í eru að skipta um borðplötu á eldhúsinnréttingu og þurfum því einnig að kaupa nýjan vask, blöndunartæki og helluborð. Allt sem við erum með núna fylgdi íbúðinni og er kominn tími á skipti. Auk þess langar mig til þess að smíða bekk við eldhúsborðið og smíða punthillu fyrir ofan eldhúsinnréttinguna.

Við höfum verið í nokkrum stórum og ósjarmerandi verkefnum við heimilið og því fara þessi draumaverkefni mín oft aftarlega á listann, en núna er að komast smá skrið aftur á framkvæmdir og forstofan og eldhús komið á to-do listann! Jeij.

Ég fékk mér annars prufu af kvartssteini hjá Granítsmiðjunni í Garðabæ í desember sem heitir Mistery White sem er draumur og hentar einmitt okkar tékklista – hlakka mikið til að fara af stað í þetta verkefni.

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

2020 NÝJUNGAR FRÁ IITTALA OG LITUR ÁRSINS

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1