fbpx

HUGLEIÐINGAR UM HEIMILI & HÖNNUN

HeimiliPersónulegt

Ég átti dálítið áhugavert samtal við ömmu mína í dag, en hún var að furða sig á því afhverju við unga fólkið viljum búa á svona litlausum og líflausum heimilum. Svo gróf hún upp tímarit og sýndi mér dæmi um hvernig við unga fólkið sum búum. Ég svosem brosi bara yfir svona pælingum vitandi það að ég birti reglulega myndir af ægilega smart heimilum sem kalla mætti litlaus, en ég var svosem ekkert að minna hana á bloggið mitt í samræðu dagsins vonandi að hún ætti ekki við mig þegar hún talaði um okkur unga fólkið. Talandi um ömmu, þá á hún nefnilega eitt fallegasta heimili sem ég veit um, yfirfullt af fallegum hlutum sem hún hefur sankað að sér á ferðalögum um heim allan. Því myndi mér ekki detta í hug að miða okkar heimili saman, ég eignast vonandi einn daginn svona fallegt heimili þar sem úir og grúir af hlutum sem enginn nema ég á, heimili uppfullt af minjagripum, minningum og listaverkum, en það kemur bara með tímanum. Smekkur okkar þroskast með tímanum sem betur fer og hægt og rólega hættum við að kippa okkur upp yfir hinum og þessum trendum þegar kemur að hönnun og heimilum.

Ég er hinsvegar æ oftar að lenda í samræðum um hina og þessa stíla, hönnunarklisjur og það að mörg heimili séu bara “alveg eins”. Ég er nefnilega alls ekki sammála þessu, það má vel vera að ég hafi birt myndir af heimilum sem eru keimlík, en þessi heimili eru mörg hver staðsett í t.d. Svíþjóð og ég vona að sumir haldi þá ekki að ÖLL sænsk heimili hljóti þá að líta svona út. Mögulega vel ég þessar myndir á bloggið mitt því ég heillast af þeim stíl á þeirri stundu. En það eru til ótalmargar bloggsíður sem sína allt litrófið þegar kemur að heimilum og VÁ það er svo mikið til að sjá og njóta. Það eru til hundruðir bloggsíðna og jafnvel tímarita ef þú ert meira fyrir ‘shabby chic’ stíl, iðnaðarstíl, franskan sveitastíl, danskan sveitastíl, minimalískan stíl, miðaldarstíl og listinn heldur endalaust áfram, þú getur nefnilega valið það sem þú vilt sjá.

Einnig eru uppi þær hugmyndir að ALLIR eigi sömu hönnunarhlutina í dag, það er nefnilega heldur ekki rétt að mínu mati. Þetta fer frekar eftir því hvaða fólki þú ert að fylgja á Instagram og Facebook og hvaða bloggsíður og tímarit þú lest. Mín upplifun eftir að hafa heimsótt fjölmörg íslensk heimili í gegnum vinnu síðustu árin hefur frekar sýnt mér hvað það er mikil fjölbreytni í gangi og ég hef aldrei lent í því að heimsækja keimlík heimili. Ég hef þrátt fyrir það staðið mig að því að fá bakþanka yfir því að eiga stundum “alveg eins og allir”, en það er svo fáránleg hugsun að ég er fljót að ýta henni frá mér. Ég vel hlutina inn á mitt heimili af því að mér þykja þeir fallegir burtséð frá því hver á þannig líka. Þrátt fyrir að þú sjáir Kubus stjaka, Tablo sófaborð, POV veggkertastjaka, Ferm Living vírakörfu og álíka (fallega) hluti á mörgum heimilum á netvafri þínu þýðir ekki að allir eigi þannig. Teldu núna upp þá aðila í kringum þig sem eiga svona hluti líka? Eru það allir?

Varðandi Omaggio fjölmiðlaæðið sem reið hér yfir, jafnvel sá vasi er ekki til inni á öllum heimilum eins og margir halda fram. Ég á eitt stykki af þessum (fallega) vasa og ég ætla ekki að þurfa að skammast mín fyrir að hafa fallið fyrir honum þó svo að margir vilji kalla hann hönnunarklisju í dag vegna mikillar fjölmiðlaumfjöllunar. Ef þér finnst hluturinn flottur þá er það nóg.

Ég ætlaði svosem ekkert að hafa þetta langt, en vildi koma þessu frá mér. Njótum þess að hafa heimilin okkar eins og við viljum, hvort sem það er eftir nýjustu tískustraumum eða ekki. Lífið er til að njóta, njótum þess á okkar hátt og hlustum ekki á neikvæðnisraddir:)

Og á meðan að ég er að þessu, þá vil ég einnig svara þeirri umfjöllun sem nú er í gangi um lífstílsblogg og keyptar umfjallanir, og vil minna ykkur á að þó að einhver sé að gera vissa hluti, þá þýðir það ekki að allir séu að því.

Góða nótt,

x Svana

FALLEGT HOLLENSKT HEIMILI

Skrifa Innlegg

26 Skilaboð

  1. Elísabet Gunnars

    26. March 2015

    Heyr Heyr!

  2. María Rut Dýrfjörð

    26. March 2015

    Góðir punktar. Svo má ekki gleyma því að meirihlutinn af innlitum inná heimili er stíliseraður og þar gætir trenda alveg eins og í tískuiðnaðinum. Stílistarnir koma jafnvel með vörur inná heimilið rétt bara fyrir myndatökuna og oftar en ekki er þá um að ræða hluti sem þykja móðins á hverjum tíma og því óumflýjanlegt að heimili í svipuðum stíl (t.d. svart og hvítt minimalistískt) verði keimlík. Uppstillt innlit inná heimili eru þannig ekkert ósvipuð og módelmyndir inní Vogue, það er gaman að skoða og fá innblástur en þú veist að það er ansi langsótt að þitt eigið heimili verði svona flott (allavega ekki á meðan börnin eru lítil) alveg eins og þú veist að það er ekki raunhæft að líta út eins og Cara Delevingne á forsíðu nýjasta Vogue.

    PS: mér þætti ansi skrítið ef hér myndi slæðast inn innlit í ‘shabby chic’ stíl – er ansi hrædd um að þá færi ég að róa á önnur mið í blogglesningu. Takk fyrir líflegt blogg!

    • Íris

      26. March 2015

      Tek undir með Maríu :)
      Eftir að hafa fylgst með í nokkur ár myndi ég halda að eitthvað “hefði komið fyrir” ef ég sæi shabby chic tröllríða öllu hérna :)

      • Svart á Hvítu

        26. March 2015

        Haha já það mun seint gerast!:) Enda margar frábærar íslenskar bloggsíður sem taka þann stíl fyrir!

    • Svart á Hvítu

      26. March 2015

      Alveg sammála, það gleymist þó of oft hjá mörgum að minna sig á að innlitin eru einmitt flest stíliseruð, sérstaklega þessi erlendu. Ég hef sko íhugað að birta eina mynd héðan heima svona eins og heimilið er oftast… s.s. smá drasl hér og þar. En svo stoppa ég mig af og hugsa að fólk hljóti nú að vita að það sé þannig hjá öllum:)

    • Svart á Hvítu

      26. March 2015

      Takk fyrir linkinn Súsanna, hann virkaði ekki í gær þegar ég setti inn færsluna:)
      Þó tek ég fram að ég hef verið á leiðinni að skrifa þennan póst lengi og er því ekki alveg beint svar við þessari færslu þó hún hafi ýtt undir það, ég hef ítrekað fengið spurningar og komment varðandi hvað öll heimili séu eins. Og ákvað því að skella þessu bæði, s.s. varðandi heimilin og svo hlutina í eina og sömu færsluna.

      En fagna þó umræðunni og flott að hafa ólíkar skoðanir á þessu, annað væri bara leiðinlegt:)
      x Svana

  3. Thorunn

    26. March 2015

    Svo sammála! Flott skrif Svana

  4. Erla

    26. March 2015

    fáum við myndir af hemili ömmur þinnar ;););)

    • Svart á Hvítu

      26. March 2015

      Hahah hún myndi ekki leyfa það held ég:) En það er svo gjörólíkt mínum smekk en þó svo fallegt á sinn hátt. Útsaumaðir púðar, þung útskorin viðarhúsgögn í austurlenskum stíl, minjagripir frá afríku og grænlandi og svo mætti lengi telja. Hér er ein mynd frá instagraminu mínu: https://instagram.com/p/mgJEhLwhft/?taken-by=svana_
      Mér þykir nefnilega ótrúlega margir stílar fallegir þó að ég kjósi þá kannski ekki fyrir mig sjálfa:)
      x Svana

  5. Agla

    26. March 2015

    Skemmtilegar pælingar :)

    Ég er einmitt ein af þessum sem þoli ekki að eiga sama hlutinn og allir aðrir – hvort sem það eru skór, föt eða húsgögn. En er það ekki bara líka ákvörðun um persónulegan stíl ? Ég hef líka bara alltaf verið hrædd um að standa sjálfan mig að því að langa í einhvern hlut bara afþví að hann er í tísku og margir eiga hann – þ.e. að löngunin í hlutinn sé ekki sprottin upp á réttum stað.

  6. Ragnhildur Sigurðardóttir

    26. March 2015

    vel mælt :)

  7. Ingunn

    26. March 2015

    Frábær og þörf umræða!
    – takk fyrir skemmtilegt og fjölbreytt blogg :-)

  8. Sigga Elefsen

    26. March 2015

    Ánægð með þetta blogg ! mjög gott að starta Þessari umræðu. Þegar ég byrjaði að búa fannst mér ég “þurfa” að hafa minimaliskan stíl heima hja mér því að það var tískan og mér þótti hann svo ótrúlega fallegur. En eftir að hafa búið í íbúðinni minni í hálft ár, algerlega svartri og hvítri (með örfáum grænum hlutum sem statement color) fann ég að það var ekki mitt og fór ég hægt og rólega að koma með fleiri liti inn á heimilið en það asnalega við það var að til að byrja með þá var ég alltaf efins um hvort ég væri að gera “rétt” því þetta var svolítið out of the norm og ekki beint eitthvað sem ég var að skoða á bloggum eða í H&H

    Sem betur fer var ég ekki lengi að ýta þessari hugsun frá mér því það þarf í raunini engum öðrum en mér og fjölskylduni minni að líða vel í litaglaða heimilinu mínu :)

    Ekki það að mér finnist öll íslensk heimili eins en ég hef þó oft spáð í því hvort fleirri séu í sömu stöðu og ég var, finnast þau þurfa að fylgja tendum svo að heimilið verði ekki “lummó”

    -skemmtilegar pælingar ❤ ❤

  9. Greta

    26. March 2015

    Skemmtileg færsla og pælingar og eins og talað úr mínu hjarta.
    Já og ég á líka vasann af því að mér finnst hann svo fallegur!

  10. Guðrún

    26. March 2015

    Flott lesning.

    Finn eimmit núna t.d. hjá mér að ég þori varla að hafa fallega Omaggio vasann minn uppi við því ég meika ekki athugasemdirnar “svo þú ert ein af þeim”. Sem mér finnst voðalega leiðinlegt þar sem ég fékk vasan að gjöf frá eiginmanninum og vil þar af leiðandi hafa blómin frá honum í honum og vasan uppi við

    • Svart á Hvítu

      26. March 2015

      Það er nákvæmlega það sama og ég hef lent í. Ég held að ég hafi aldrei birt mynd af mínum hérna inná blogginu einmitt útaf fordómum í svo mörgum. En við eigum bara að standa með því sem okkur finnst flott, lengra á það ekki að ná:)
      -Svana

    • Svanhildur

      28. March 2015

      Nákvæmlega það sama og ég hef lent í líka. Ég á Omaggio vasann og pantaði hann í Líf&List löngu áður en hann varð þetta hype sem hann svo varð. Ég hef ítrekað útskýrt veru hans hérna heima hjá mér af fyrra bragði, einmitt af ótta við þetta “ein af þeim” komment og tek það sérstaklega fram að ég hafi ekki beðið í langri röð eftir honum, o.s.frv. Ég held að það sé kominn tími á að hætta því, fólki kemur það ekkert við.

  11. Piparfugl

    26. March 2015

    Guðrún og Svana, endilega hafið Omaggio- vasana uppi við, ég er með mína á hillu inni í stofu, er líka með Iittala nammiskálar í eldhúsinu og múmínbolla inni í eldhússkáp. Þetta eru fallegir og skemmtilegir hlutir bara soldið þreyttir og taka soldið mikið pláss á kostnað annarrar hönnunar t.d. Svolítið einsleitt alt saman. En það er bara mín skoðun :)

  12. Bryndís Gunnlaugsdóttir

    26. March 2015

    Ánægð með þetta blogg =)

    Finnst einmitt pirrandi þegar maður er sagður vera “eins og allir” því einstaka hlutir sem maður á eru “vinsælir” hlutir. Mér finnst nefnilega ekkert að því að vera “eins og aðrir” eða það sem er stundum kallað “venjulegur”. Það er svo mikil pressa á alla að skara fram úr að allt í einu er skammarlegt að vera venjulegur, eins og hinir og/eða meðalmanneskja. Ef það er val fólks þá er það bara í fínasta lagi =)

    En mig langar að spyrja að einu – svona fyrir okkur sem erum að horfa á fleiri stíla en shvart/hvítt – getur þú gert einhvern tímann blogg sem sýnir myndir af mismunandi stílum svo maður geti kannski fundið sinn stíl og getað þá í framhaldinu google-að eftir hugmyndum?

  13. Soffia

    26. March 2015

    Ég hef alveg frá byrjun bloggsins synt á móti strauminum, ef svo má að orði komast. Ég hef verið að breyta og skreyta með því sem ég á til, því sem ég finn í Góða, og leitað þá í ódýrari verslanirnar til þess að finna mér eitthvað fallegt.

    Það breytir því ekki að ég á þennan margumrædda Omaggio afmælisvasa og mér finnst hann afskaplega fallegur. Enda var það eina ástæðan fyrir að mér langaði í hann, mér fannst hann fallegur. Ég neita því algjörlega að vera einhver plebbi þrátt fyrir það. Mér finnst eiginlega jafn plebbalegt að vera að upphefja sjálfan sig með því að kalla aðra nöfnum fyrir að gera einmitt það sem þeir vilja gera

    En það er bara ég! Mér finnst bara að fólk eigi að fá að hafa heimili sín í friði, alveg eins og það fílar þau best – hvort sem að þau séu full af “klisjum” eða einstökum hlutum.

    Mér finnst jafn vitlaust að segja: “ég vil þetta ekki af því að allir eiga þetta” eins og að segja :” ég vil þetta af því að allir eiga þetta”.

    Ég kýs bara að segja, ég vil þetta af því að mér langar í þetta og finnst það fallegt!

    • RR.

      28. March 2015

      það vantar alveg LIKE takka!!! :)
      LIKE á þetta komment hjá þér Soffía!

  14. Fjóla Finnboga

    29. March 2015

    Heyr Heyr!! Á þessa umræðu einmitt of oft við “eldra” fólkið í minni fjölskyldu :)
    Vill svo skemmtilega til að ég á einmitt Ferm Living vírkörfu og vitið menn, það er enginn annar í kringum mig sem á þannig, sem og gyllta omaggio vasan, ég er eina í minni fölskyldu og mínum vinahóp sem á hann hehe :) j