Ég má til með að mæla með hönnunarnámskeiðinu sem hún Halla Bára innanhússhönnuður hjá Home & Delicious fór af stað með fyrir stuttu síðan. Námskeiðið byggir hún á hugmyndum sínum um að búa sér til áhugavert og fallegt heimili en ég ásamt góðri vinkonu fórum til hennar s.l. laugardag og áttum virkilega góða stund. Námskeiðið er haldið á heimili Höllu í miðbæ Reykjavíkur og það er ekki annað hægt en að fyllast af innblæstri inná þessu gullfallega heimili. Stemmingin var notaleg við sátum nokkrar í stofunni með skrifblokk og penna og punktuðum niður ráð sem koma til með að nýtast vel síðar. Í boði voru léttar veitingar og að lokum vorum við leystar út með ljúffengri gjöf.
Heimilið er eitt það fallegasta sem ég hef heimsótt, afslappaður stíll þeirra hjóna skýn í gegn ásamt góðu auga fyrir litum, efnisvali og gæðum.
Ég mæli 100% með og um að gera að draga með vinkonur, vini, frænkur eða mömmur! Upplýsingarnar hér að neðan tók ég af facebook síðu Home & Delicious.
Á námskeiðinu verður farið yfir ýmsa þætti til að koma sköpunargáfunni af stað og hvernig má vinna með eigin stíl. Huga að heimilinu í heild og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar. Halla Bára fer yfir tíðarandann, tísku og stíl. Og svarar spurningum sem allar eru mikilvægt skref í átt að aukinni færni og meira öryggi í að vinna með rými sem vilji er til að geisli af.
Sæktu innblástur, þiggðu ráð og viðaðu að þér þekkingu til að skapa þér og þínum persónulega umgjörð.
Námskeiðin eru fyrir litla hópa og áhugasama einstaklinga sem vilja koma saman, hlusta, spjalla og læra um það hvernig heimilið verður aldrei fullkomið heldur hugsað sem eining sem heldur utan um okkur og þróast með breyttum aðstæðum.
Sum námskeiðin eru haldin á heimili Höllu Báru og önnur í heimahúsum þar sem þess er óskað.
Fyrir skráningu, frekari upplýsingar um tilhögun og verð, sendið þá tölvupóst á hallabara@hallabara.com
Skrifa Innlegg