fbpx

HEILT ÁR SYKURLAUS !

Persónulegt

Jahérna… allt í einu er liðið heilt ár án sykurs og reyndar lengra þar sem það var í byrjun apríl 2021 þegar ég ákvað að taka út hvítan sykur og þessi færsla því verið lengi í fæðingu!

Fyrstu mánuðina var ég frekar upptekin af þessum nýja lífstíl og las vel utan á matarpakkningar og var reglulega að prófa nýjar uppskriftir en í dag er ég minna að spá í þessu enda löngu komið í vana. Og það er í rauninni ekkert sem ég sakna sem inniheldur sykur þar sem ég hef komist að því að það er til endalaust úrval af ljúffengu sykurlausu góðgæti. Og er ég mjög dugleg að smakka allt nýtt í búðinni án viðbætts sykurs sem er nýtt og skemmtilegt “hobbý” hjá mér haha.

Þið ykkar sem hafið áhuga að prófa þá lofa ég ykkur því að um leið og sykurinn er kominn úr kerfinu ykkar þá er þetta ótrúlega auðvelt. Og tekur ekki nema örfáa daga. Ég tek það þó fram að ég er ekki neinn sérfræðingur og er bara að deila því sem reynist mér vel. Lykillinn er að vera vel vopnuð af allskyns gúmmelaði án sykurs þegar nartþörfin bankar upp á fyrst um sinn. Ég skrifaði reyndar fína bloggfærslu um þetta sl. haust sem hægt er að lesa með því að smella hér og ég stend enn við hvert einasta orð sem þar stendur ♡ Ég hef einnig útbúið flokk hér á blogginu “Matur og bakstur” þar sem finna má nokkrar uppskriftir sem ég gríp oft í. Einnig er ég með highlights á Instagram þar sem ég deili stundum uppskriftum / Instagram @svana.svartahvitu

Ég elska að geta borðað allt það sem mig langar í hvort sem það séu pizzur, brauð, kökur, ís og súkkulaði án samviskubits (sem ég fékk oft áður – ps. auðvitað á engin/n að hugsa þannig.) En ástæða þess hve lengi ég var að fást til þess að skrifa þessa færslu er að ég vil ekki gefa neinum rangar hugmyndir og að einhver lesandi haldi að það þurfi að neita sér um eitthvað, hvað þá ef það er matur sem lætur þér líða vel ♡

Ég er ekkert í megrun og er nánast í fyrsta skipti í lífinu laus við allar slíkar pælingar og það eitt og sér er mesti sigurinn fyrir mig. Ég spái ekki í vigtinni og stíg helst aldrei á slíka en finn að mér líður betur á líkama og sál eftir undanfarna mánuði. Ég borða allskyns gúrme mat alla daga og eitthvað úr nammiflokknum oft í viku án þess að finnast ég nokkurn tíman vera að “svindla” eins og var búið að stimpla rækilega í hausinn á mér.

“Ég hef í gegnum tíðina verið voðalega holl inná milli og leyft mér um helgar þá bragðaref, snúð og álíka og svo mánudeginum eftir helgi átt erfitt með að “rétta mig af” eða jafnvel þyngst því líkaminn sækir ennþá í sykruð matvæli og blóðsykurinn í ójafnvægi með tilheyrandi þreytu. Það hentar mér því langbest hef ég fundið út að borða einfaldlega það sem ég vil (án sykurs), þegar ég vil.” // Tekið úr færslu frá ágúst 2021.

Ég viðurkenni vel að á sl. ári hef ég verið í þannig aðstæðum að ég hef fengið mér eitthvað örlítið með sykri í en þó teljandi á fingrum annarrar handar. T.d. kanilsnúð hjá ömmu minni… því lífið er alltof stutt til að missa af síðasta snúðnum hennar ömmu og engin matarkúr er þess virði. Enda á ég ekki ömmu á lífi í dag ♡ Einnig ákvað ég að ég myndi undanskilja áfengi frá þessum lífsstíl – tek það þó fram að það hentar mér þar sem ég drekk afskaplega sjaldan áfengi en þá við góð tilefni sem ég vil enn geta skálað fyrir. En hver og ein/n fer bara sína eigin leið.

En fyrir utan það að missa allan áhuga á megrun og megrunartali (þá lokast eyrun mín):) þá tók ég líka þá ákvörðun að hætta að segja nei við myndatökum sem var mjög frelsandi, og að vera bara… æ smá meira sama um útkomuna. Jiminn hvað það er mikið skemmtilegra þannig! Myndirnar hér að neðan eru svo þar sem ég er alsæl í nýjum kjólum sem ég leyfði mér í tilefni þess hvað það er gaman að vera til:)

Ég vona að þú lesandi góður gerir bara hreinlega bara það sem lætur þér líða vel – og ef þig vantar ráðleggingar með eitthvað þá er þér velkomið að skilja eftir athugasemd hér að neðan eða senda mér skilaboð. Ég fæ oft fyrirspurnir um hvað ég er að borða á daginn… það gæti verið forvitnilegt að taka það saman ef áhugi er fyrir slíku:)

Mynd : Aldís Pálsdóttir  

Bleikur kjóll: AndreA og fjólublár kjóll keyptur í Magasin du Nord.

Takk kærlega fyrir lesturinn ♡

Fylgstu endilega með á instagram @svana.svartahvitu

DRAUMAHEIMSÓKN TIL HELLE MARDAHL

Skrifa Innlegg