Ein smekklegasta kona landsins er án efa fröken Harpa Káradóttir, stjörnu sminka og eigandi Make Up Studio Hörpu Kára. Núna er glæsilegt heimili hennar í Gnoðarvogi komið á sölu og kemur líklega engum á óvart að heimilið sé dásemd ein. Þessi bjarta og fallega íbúð í 104 Reykjavík hefur verið tekin í gegn frá grunni og var mikið vandað til verka.
Heimilið er elegant og ber þess merki að hér býr mikill fagurkeri sem kann að meta vandaða hluti og má sjá gott safn af fallegri list, hönnun, antík og plöntum sem skapar notalega stemmingu.
Hér er án efa gott að búa – kíkjum í heimsókn ♡
Eldhúsið er einstaklega fallegt með sérsmíðuðum innréttingum, vönduðum tækjum og sjáið svo hvað borðkrókurinn er smart.
Stíllinn hjá Hörpu er léttur, yfirvegaður og notalegur. En þannig lýsti hún stílnum sínum sjálf þegar ég fór í innlit til hennar fyrir nokkrum árum fyrir Glamour tímaritið. Polder sófinn frá Vitra er einstaklega flottur, Ton stólar við borðstofuborðið og Bubble lampi George Nelson yfir. Marokkóska gólfmottan rammar stofuna inn, en hún er frá góðvinum Hörpu í HAF store.
Gatið í veggnum setur sjarma á heimilið, skemmtileg hugmynd sem opnar á milli stofu og forstofu, en Harpa lét brjóta gatið í vegginn. Óvenjuleg hugmynd en kemur stórvel út!
Hér hafa ófá matarboðin verið haldin, borðstofan er björt og opin og hægt að ganga út á svalir.
Bjart og notalegt svefnherbergið með frábæru skápaplássi.
“Íbúðin og húsið hafa farið í gegn um miklar endurbætur á s.l. árum. Íbúðin var tekin í gegn árið 2015. Skipt var um öll gólfefni, baðherbergi og eldhús algerlega endurnýjað, skipt um raflagnir og sett ný rafmagnstafla. Gólfhiti settur í eldhús, baðherbergi og barnaherbergi. Allar innréttingar sérsmíðaðar. Húsið tekið í gegn að utan árið 2014, gert við allan múr og húsið málað að utan. Skipt var um glugga og gler í allri íbúðinni fyrir um 10 árum. Afar lítil viðhaldsþörf er á komandi árum…”
Fallega heimili og þau verða heppin sem munu búa hér. Sjá frekari upplýsingar um íbúðina á Fasteignasíðu Mbl.is
// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg