Mig hefur langað í dálítinn tíma að stíga örlítið út fyrir þægindarhringinn minn og stækka Svart á hvítu bloggið í leiðinni. Bæði fyrir mig til að staðna ekki, því bloggið er jú orðið 7 ára gamalt og einnig til þess að ég – sem starfa sem einyrki hitti oftar fólk! Niðurstaðan var Snapchat!
Ég hef því ákveðið að ég ætla að halda úti öflugustu Snaphat heimilis & hönnunar rás landsins, nei nei við ætlum ekkert að gera þetta í neinum hálfkæringi – þannig verður það aldeilis ekki. Í dag var fyrsta innlitið á Svartahvitu snappinu og var það inn á eitt fallegasta heimili landsins hjá HAF hjónunum þeim Karitas Sveinsdóttur og Hafsteini Júlíussyni hönnunargúrúum.
Hér að neðan eru nokkrar valdar símamyndir – það er svo mikið mikið meira að sjá á Snapchat sem verður inni næstu 22 klukkustundirnar.
Þið hafið séð mig fjalla um HAF hjónin reglulega í gegnum tíðina og gáfu þau út fyrir jólin kertastjakann Stjaka sem ég er ástfangin af. Við sýnum ykkur kertastjakann vel og vandlega á snappinu. Karitas er án efa ein smekklegasta kona landsins og það var dásamlegt að fá að kíkja í heimsókn til hennar og fá að sýna ykkur heimilið sem er að sjálfsögðu einstaklega fallegt.
Mig langar þó til þess að biðja ykkur um eitt, til þess að ég geti sinnt þessu af alvöru þá vil ég hafa ykkur sem flest inni á Svartahvitu snappinu og langar mig til að biðja ykkur um að dreifa orðinu ef ykkur líkar við efnið og ef þið viljið sjá meira af svona.
Ég byrjaði þó daginn á heimsókn til Andreu (AndreA Boutique) og Heiðdísar Helgadóttur (teiknisnillingur) vinkvenna minna sem voru að opna Pop up verslun á Laugavegi 72, ég hvet ykkur til þess að kíkja á þær stöllur á Laugavegsröltinu.
P.s. Því fleiri sem við erum á Svartahvitu Snapchat þá verður efnið meira. Ég verð ykkur mjög þakklát ef þið viljið aðstoða mig við þetta.
Jólakveðja, Svana
Skrifa Innlegg