fbpx

ELDHÚSIÐ HJÁ MÖMMU & PABBA // FYRIR & EFTIR MYNDIR

EldhúsÍslensk heimiliPersónulegt

Bleika eldhúsið hjá foreldrum mínum hefur vakið verðskuldaða eftirtekt og þegar ég hef sýnt frá því á Instagram berast mér alltaf margar fyrirspurnir varðandi allt frá lita, efnis og tækjavali hjá þeim og allt þar á milli, því fékk ég mömmu til að svara nokkrum spurningum varðandi heimilið sem mér þykir afskaplega gaman að fá að deila með ykkur. Ég á svo ótalmargar minningar frá þessu heimili þar sem Svana amma mín og afi Svenni áttu heima þarna síðan þau byggðu húsið og því ekki bara góður andi sem þarna býr heldur prýðir heimili foreldra minna margir fallegir munir og húsgögn frá afa og báðum ömmum mínum sem hafa öll kvatt okkur á undanförnum 2 árum og finnst mér því minningin þeirra lifa áfram hér inni ♡ Eldhúsið er það sem tók mestum breytingum eftir að foreldrar mínir tóku við húsinu og hefur verið gaman að fylgjast með draumaeldhúsinu hennar mömmu verða til.

Hver er saga hússins? 

“Húsið var teiknað af arkitektinum Guðmundi Kr. Kristinssyni, foreldrar mínir byggðu það og var það nokkur ár í byggingu. Við fluttum í það árið 1968 og var það bara hálf klárað, vantaði milliveggi, gólfefni, hurðar, eldhúsinnréttingu og fleira. Útidyrahurðin var frá gömlu lögreglustöðinni í Hafnarfirði, eldgömul innihurð sem átti að henda.  Hún var svo óþétt að það rigndi og snjóaði inn um hana heilan vetur og því var sett fyrir hana ullarteppi sem greip snjóinn og bleytuna. Smám saman en þó á nokkuð mörgum árum var húsið klárað og eldhúsið var ekki sett upp fyrr en árið 1979. Fallegt sérsmíðað eldhús úr dökkum við með kork á milli skápa og tveimur ofnum sem var mjög framandi á þeim tíma.

Árið 2019 tókum við pabbi þinn ákvörðun um að flytja í húsið og vorum við alltaf ákveðin í því að taka niður vegginn sem skildi að borðstofuna og eldhúsið. Það eru stórir og miklir gluggar eftir endilöngu húsinu og langaði okkur að njóta betur útsýnisins yfir garðinn og líka fannst okkur það stækka húsið.”

Þurfti að breyta miklu áður en þið fluttuð inn? 

“Við þurftum ekki að breyta miklu en ákváðum að skipta um allar lagnir og rafmagn og þá kom af sjálfu sér að það þurfti nýtt gólfefni og baðherbergin og þvottahúsið var endurnýjað. Það á eftir að laga hurðakarma og hressa uppá innihurðar sem eru fallega rauðar á litinn og ósnertar frá upphafi og því viljum við alls ekki breyta.”

Hver sá um allar framkvæmdirnar? “Við sáum sjálf um alla hugmyndavinnu og að mestu um allar framkvæmdir enda er pabbi þinn sá allra duglegasti maður sem ég þekki. Létum þó smíða og sprauta eldhúsinnréttinguna.”

Hvað er það besta við heimilið? “Það besta er opna rýmið í kringum eldhúsið og tengingin við garðinn. Húsið er í léttum norrænum stíl og minnir mig oft á dönsku húsin frá sama tíma. Mér finnst líka svo mikil fegurð í því að fá að búa í húsinu, húsi minninga minna”

Hvernig er stíllinn? “Stíllinn er blandaður, bæði létt og þung húsgögn, mikið af gömlu í bland við nýtt. Nánast hver einasti hlutur á sér sögu.”

Afhverju bleikt eldhús?  “Töluvert áður en ég ákvað hvernig eldhús ég vildi þá sá ég mynd af fallega bleikum skáp og ákvað þá að eldhúsið mitt yrði akkúrat svona bleikt. Ég fékk frænda minn til að smíða eldhúsið eftir minni hugmynd og við höfðum ekki einu sinni fyrir því að rissa það upp. Það á þó enn eftir að klára að setja upp lítinn búrskáp við hliðina á ísskápnum.”

Eru fleiri framkvæmdir á dagskrá? Næst á dagskrá er ný útidyrahurð og þegar hún er komin er hægt að klára forstofuna og setja flísar. Ég tók að mér það verkefni að finna útihurð en nú eru liðin tvö ár síðan og enn ekki komin ný hurð. Er samt búin að ákveða hvernig hún á að vera en ég á eftir að finna einhvern til að smíða hana fyrir mig. Þannig ef einhver lesandi þekkir til hurðasmiðs þá má hann láta mig vita.”

Á myndinni hér að ofan má sjá horft inn í smá innskot þar sem áður var lokað rými / búr með rauðri hurð og hægt að ganga þaðan niður í bílsskúrinn. Nú hefur verið opnað alveg inní það rými þar sem ísskápurinn stendur núna (þið rétt sjáið hann ekki á myndinni) en þar á aðeins eftir að klára og því tók ég ekki mynd sem sýnir allt. Einnig var lokað á innganginn þaðan í bílsskúrinn og opnað í staðinn á öðrum stað í húsinu og nýtist því þetta rými betur og er orðið partur af eldhúsinu.

Hér má sjá annað sjónarhorn sem ég birti sjaldnar en þar má sjá hvernig hlaðnir veggir með vikursteinum setja sterkan svip á heimilið en það einkennir mörg hús eftir arkitektinn Guðmund Kr. Kristinsson frá þessum tíma. Þarna í innskotinu var heimasíminn geymdur og amma sat þar oft löngum stundum og spjallaði við vinkonur. Hinum megin við hlaðna vegginn fyrir miðju á myndinni er arinn og þar er borðstofan í dag en fyrir breytingu var veggur þar sem eyjan er staðsett sem aðskildi lítið eldhús og borðstofu. Ég elska hvað heimilið er fallegt bæði fyrir og eftir breytinguna.

Hér að neðan má sjá nokkrar gamlar myndir úr myndaalbúminu þar sem sjá má hvernig þetta var áður. Pínulítill eldhúskrókur með upphengdu borði og 3 kollum, svo hinum megin var lítil borðstofa og einn skenkur með sparistelli í. Mjög svo hversdagslegar myndir, afi elskaði ljósmyndun og það var ekki hægt að kíkja í heimsókn án þess að mynd væri tekin:) Fyrsta myndin er skemmtileg, þarna vantaði enn skápa og aðeins tjöld fyrir heimatilbúnum hillum og var þetta svona í langan tíma, góðir hlutir gerast nefnilega hægt.

Takk fyrir lesturinn ♡

Og ekki hika við að senda mér spurningu ef það er eitthvað fleira sem ykkur langar til að vita.

Liturinn heitir Pink Charm og er frá Sérefni // Innrétting er sérsmíðuð // Gólfefni er frá Parka // Gardínur saumaði mamma úr dúk frá H&M home // Skápur er gamall sem mamma málaði í sama lit og vegginn // Spegillinn er íslensk hönnun eftir Auði Gná // Veggljósið er antík // Loftkastararnir og tenglar eru frá S. Guðjónssyni // Vaskur og blöndunartæki eru frá Ísleifi Jónssyni // Barstólar eru frá Norr11. 

AUÐVELT HAUSTFÖNDUR // HURÐARKRANS

Skrifa Innlegg