Ein af þeim sýningum sem stóðu uppúr hjá mér á HönnunarMars var í versluninni Snúrunni þar sem Finnsdóttir sýndi ásamt Further North og Pastelpaper. Þóra Finnsdóttir kom til landsins í tilefni sýningarinnar en hún sýndi í ár einstök keramík verk sem sum hver voru með því fallegra sem ég hef séð og heildarmyndin var ævintýralega falleg, flest af keramíkinu er þó ekki í framleiðslu og var aðeins hannað fyrir sýningar sem er synd því það var svo dásamlegt. Ég hitti Þóru í Snúrunni og spjallaði aðeins við hana, viðtalið birtist á dögunum hjá Glamour, sjá hér, en ég vil að sjálfsögðu líka birta það hér:) Ég hitti einnig annan hönnuða Omaggio vasanna frægu á HönnunarMars, meira um það síðar!
Hver er þinn bakgrunnur?
„Ég útskrifaðist úr Danmarks Design skólanum sem keramíkhönnuður árið 2009 en ég stundaði áður nám við líffræði. Ég var alltaf að búa eitthvað til úr leir en leit þó aðeins á það sem áhugamál í frítíma þrátt fyrir að það var það sem mig langaði til að gera. Það var ekki fyrr en eftir að ég eignaðist barn að ég fékk annan fókus og skipti þá um nám.”
Hvernig kom Finnsdottir til?
„Ég byrjaði á að gera Pipanella línuna fyrir árlegan jólamarkað í skólanum, það eru litlir blómavasar sem ég stimplaði með ólíku mynstri sem ég fékk frá öllum mögulegu hlutum meðal annars sápu, tölum eða belti. Pipanella vasarnir seldust rosalega vel og það var þá sem ég uppgötvaði ég að það var eitthvað sérstakt við það sem ég var með í höndunum. Ég byrjaði þá að skoða hluti á flóamörkuðum, ódýrt dót og gamalt, eitthvað sem enginn myndi banna mér að nota áfram í mína hönnun. Mér þótti spennandi að vinna með gamalt dót með sögu, gamlir hlutir sem fáir vildu eiga og gefa þeim nýtt líf. Það var byrjunin á Finnsdóttir, að breyta einhverju sem var þegar til, í eitthvað allt annað og gefa því nýtt líf.
-Þarna tekur Þóra upp kertastjaka frá Finnsdóttir og útskýrir að partur af honum sé afsteypa af rjómasprautu og hinn partur þess var afsteypa af lítilli nuddrúllu úr tréi.
„Það er þó mikilvægt að fólk sjái ekki beint hvað þetta var áður, hluturinn er kannski kunnulegur á einhvern hátt en þú veist ekki hvernig. Það gerir hann skemmtilegan og spennandi, og það fannst mér einnig spennandi hugmynd að vinna með.”
Þarna stóðst ég ekki mátið og fékk Þóru þá til að útskýra fyrir mér úr hverju blómavasinn sem ég á væri gerður úr. “Partur af vasanum er afsteypa af glerskermi, litlu plastbarnadóti sem hægt var að stafla, glerskál á hvolfi og tvær glerskálar sem liggja saman og mynda hringlaga form.” Þetta hefði mig aldrei grunað, en vasinn er jú algjörlega gordjöss og ennþá skemmtilegra að vita núna söguna á bakvið hann.
Hvernig myndir þú lýsa þinni hönnun?
“Hún sker sig úr fjöldanum, ég vil að mín hönnun segi sögu en hefur jafnframt notagildi og er eitthvað sem þú vilt skoða og halda áfram að skoða. Hún er smá skrítin, ekki “of nice” og vekur þig til umhugsunar.”
Ertu meðvituð um vinsældir Finnsdóttir á Íslandi? „Finnsdóttir vörurnar eru mjög vinsælar hér, það er eitthvað sérstakt í gangi á Íslandi varðandi vinsældirnar og hjartað mitt hlýnar við viðbrögðunum. Þó svo að ég hafi alltaf búið í Danmörku þá er Ísland mitt annað heimili og er partur af mér.“
Takk fyrir spjallið Þóra! Þess má geta að hún hefur búið nánast allt sitt líf í Danmörku og talar þó furðu góða íslensku þrátt fyrir það:)
Skrifa Innlegg