Nýlega lét ég verða af því græja sjónvarpsskenk í stofunni en mig hafði lengi langað að prófa rattan efni og mig dreymdi einnig um skenk sem væri það stór að ná yfir allan vegginn. Niðurstaðan var að kaupa Ikea skenk og gera hann upp (Montana draumurinn bíður betri tíma;) Hugmyndin var því að finna einfaldan grunn og mála, setja fallegar höldur, rattan efnið og að lokum plötu ofan á.
Rattan efni hefur notið mikilla vinsælda undanfarið og hægt að nota það á mjög marga vegu til að gefa húsgögnum og innréttingum nýtt og aðeins hlýrra útlit. Það sem ég þurfti í verkefnið var að sjálfsögðu skenkurinn sem ég keypti í Ikea (Besta skenkur), en það má vissulega gera svona uppfærslu með öðrum húsgögnum, bæði gömlum og nýjum. Fyrir hugmyndir þá mæli ég með Pinterest og skrifa til dæmis “rattan hack” eða “ikea rattan cabinet”….
Hurðirnar eru Ikea Ostvik með gleri sem var brotið úr með mikilli þolinmæði þar sem glerið er hert og ætlaði svo sannarlega ekki að gefa sig! (tips: að nota síl, dúkknál eða álíka og hamra FAST í hornin.) Eftir að glerið var farið þurfti að spartsla og pússa í raufina og að lokum að grunna og mála. Ég valdi að mála í sama lit og vegginn sem er Soft Sarceilles frá Sérefni (samstarf).
Rattan efnið er frá Sérefni (samstarf) – og kemur í nokkrum ólíkum tegundum, það klippti ég til og festi með heftibyssu.
Höldurnar pantaði ég af Amazon en ég fékk þó ábendingu að svona höldur fáist einnig hér á Íslandi – væri gaman að heyra í athugasemd í hvaða verslun það er.
Platan ofan á er harðplast með marmaraáferð keypt í Hegas (ætlað á borðplötur) og Andrés minn sagaði í rétta breidd og límdi á masónít plötu því ég vildi hafa þetta sem þynnst. Ég sé fyrir mér að setja alvöru stein eða kvarts ofan á og það fær vonandi að gerast seinna og er þessi lausn líklega bráðabirgða – en ég á eftir að fikta meira í þessum skáp og hurðum haha. Næst mun ég líklega mála ljósa rönd yfir brúna kantinn.
Til að vera 100% hreinskilin þá er skápurinn fallegri á mynd en í persónu haha, það er vandmeðfarið að festa rattan efnið á alveg rétt og ég málaði það eftir að hafa fest á og það færðist smá til eftir að hafa blotnað. Einnig hefði ég mátt vera þolinmóðari og pússa á milli umferða sem ég mætti gera á næstunni og laga ójöfnur. Að lokum þá þarf ég einnig að finna lausn á brúnu röndinni sem truflar mig. Haha thats it (!) ;)
Að öðru leyti er ég mjög ánægð með útkomuna og ætla núna að hengja upp myndir á vegginn ásamt sjónvarpið!
Smellið á slóðina til að sjá DIY Instagram myndbandið sem ég setti saman // DIY sjónvarpsskenkur fyrir og eftir. Takk fyrir að fylgjast með – þangað til næst:)
Fylgstu endilega með á Instagram @svana.svartahvitu
Skrifa Innlegg