fbpx

BÚSTAÐURINN : NOKKRAR MYNDIR

Persónulegt

Það hefur líklega ekki farið framhjá ykkur sem fylgist með að fyrir nokkru síðan kom lítill og fallegur bústaður í fjölskylduna og núna loksins er að koma ágætis mynd á hann. Það finnst varla duglegri maður en hann pabbi minn og hefur hann staðið í ströngu að gera upp bústaðinn og er hann jafnvel í huganum strax farinn að huga að stækkun, en hann er einn af þeim sem þarf aldrei að hvílast. Við hinar, ég, mamma og systir mín ætlum meira að passa upp á að það verði huggulegt hjá okkur sem það er nú aldeilis að verða. Enn er nú ýmislegt sem á eftir að týnast til, ég vona að fallegu flísarnar okkar verði lagðar næstu helgi á anddyrið og gestaskúrinn verði parketlagður og málaður sem fyrst. Við systurnar skiptum helginni á milli okkar þar sem foreldrar mínir tóku eina helgi í frí frá bústaðarvinnu og vorum við Andrés og Bjartur því ein að dúlla okkur þarna í dag. Algjör draumadagur ♡

Bústaðurinn var allur málaður með litnum Soft Sand sem við fengum í Sérefni. Það hafa verið tekin yfir 500 skjáskot af þessum lit þegar ég set hann á Svartahvitu snappið svo þessi litur verður án efa afar heitur í sumar! Það kemur reyndar alls ekki á óvart því hann er þessi fullkomni neutral litur sem passar við allt, ég þekki nokkrar sem eru að mála með þessum lit núna, svo ég mæli að minnsta kosti með að fá prufu hjá Sérefni ef þú ert að leita af mildum og fallegum lit.

Bekkinn keypti mamma í Hugmyndir og heimili en þaðan er einnig stofuborðið, þið sem hafið ekki kíkt við hjá þeim ættuð að skella því á listann ykkar. Eldhúsborðið var keypt notað og Mæðradagsplattarnir koma svo fallega út á veggnum. Mestmegnið af hlutunum í bústaðnum eru notaðir eða eitthvað sem þegar var til sem gerir litla bústaðinn svo kósý þrátt fyrir að vera ekkert endilega tilbúinn.

Pabbi málaði Ikea Lack vegghillurnar sem eru upphaflega úr unglingaherberginu mínu í sama lit og veggurinn og kemur það alveg ótrúlega vel út. Fyrst voru þær grunnaðar og svo málaðar. Reyndar voru þær einnig styttar til að passa á vegginn, en ég vil benda á að þessar hillur eru nánast holar að innan svo þær þurfa þá að mæta vegg, en þetta er góð lausn fyrir þá sem eiga nú þegar til svona hillur en vilja breyta til. Hér er þó eftir að bæta við ýmsu punti …

Parketið er algjört bjútí, það er reyndar mikið hlýrra /meira út í brúnt en það virkar á þessari mynd. Það heitir Hardy Oak harðparket og er frá Byko en þið getið nálgast allar upplýsingar + verð hér. Fallegi Sunrise bakkinn sem vinkona mín og vöruhönnuðurinn Anna Þórunn hannaði smellpassar í bústaðinn, en sætu bleiku krúsirnar fékk ég í A4 en þær eru frá Bloomingville.

Innréttinguna keyptu foreldrar mínir í Ikea en borðplatan er frá Byko. Þarna á eftir að bæta við höldu undir vaskinn en þó það sé ekki skúffa finnst ykkur ekki smá truflandi að það sé engin halda? Glerskápurinn hvíti var síðan keyptur notaður á Bland og er fullkominn undir fína bleika stellið sem sum ykkar hafið séð á snappinu.

Instagram reikningurinn minn fær að fylgja með í þetta sinn en þið finnið mig þar undir nafninu svana.svartahvitu ♡ Vonandi áttuð þið góða helgi, ég fer að minnsta kosti endurnærð inn í komandi viku en ég þurfti einmitt á því að halda! x Svana

KATE MOSS & BLEIKUR SÓFI

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

  1. Björk

    8. May 2017

    Fallegt, til hamingju með þetta! Má ég spyrja hvaðan þessir svarthvítu kaffibollar koma? :)

    • Svana

      8. May 2017

      Já:) Þeir eru frá Day home sem fæst í Heimahúsinu, veit ekki hvort þeir séu ennþá til. Hinir eru frá Postulínu!