fbpx

AFMÆLISHELGIN Í BÚSTAÐ // 09.06.

Persónulegt

Ég fagnaði afmælinu mínu um helgina með fjölskyldunni uppí bústað – alveg eins og mig hafði dreymt um. Góður matur, uppáhalds fólkið mitt, afslöppun og nýjar upplifanir var einmitt það sem ég þurfti á að halda til að hlaða batteríin eftir annarsamar vikur. Við byrjuðum laugardaginn á hálfgerðri óvissuferð þegar við keyrðum alla leið á Flúðir til að smakka eina bestu sveppasúpu sem ég hafði heyrt um, nánar tiltekið í boði Farmers Bistro. Ég hafði heyrt um “sveppaveitingarstað” síðasta sumar og var mjög spennt að prufa þar sem ég er einlægur aðdáandi góðrar sveppasúpu og hef alla tíð verið.

  

Bústaðurinn er alltaf jafn huggulegur og varð ennþá meiri sjarmi yfir honum með lúpínur í vasa sem er eitt af mínum uppáhalds blómum / illgresum.

Farmers Bistro er veitingarstaður á Flúðum sem bauð okkur fjölskyldunni í hádegisverð, þar er boðið upp á mat úr nærumhverfinu ásamt því að kynna fyrir áhugasömum ræktunina og fengum við fjölskyldan mjög skemmtilega kynningu á papriku og svepparæktun.

 

Við fengum okkur öll sveppasúpuna frægu ásamt nýbökuðu brauði en skiptum svo á milli okkar réttum svo við smökkuðum ansi margt. Til dæmis fengum við að smakka sveppa og gulrótarís sem vakti mikla lukku hjá Bjarti Elíasi og frænda hans. Lambabaggi sló í gegn hjá öllum við borðið ásamt pizzu og kjúklingasalati en ég var þó hrifnust af súpunni sjálfri enda með eindæmum bragðgóð.

Sveppa og gulrótarísinn er eitthvað til að smakka – öðruvísi, en mildur og góður.

Það er alltaf stuð þegar þessir litlu frændur fá að vera saman og þeim þótti mjög skemmtilegt að fá að sjá hvernig paprikur og sveppir verða til. Það er alltaf svo gaman að fá að sjá svona á bakvið tjöldin og án efa öðruvísi upplifun.

Um kvöldið var mín eina ósk að fá uppáhalds kjúklingasalatið mitt, en það er helst dressingin sem gerir salatið. Í henni eru: hvítlauksrif amk 2 stk, olía af einni dós af fetaosti (ostur fer í salatið), msk balsamik edik gljái, msk sýróp. Við slumpum þessu þó öllu saman og smökkum til – virkilega ljúffeng dressing. Salatið er svo frjálst val af grænmeti ásamt kjúklingi, sumir bæta við doritos en mér finnst það óþarfi.

Á myndinni sést fallegi blómabolurinn sem ég fékk í afmælisgjöf frá Andrési og Bjarti og hitti beint í mark. Bolurinn er frá AndreA by AndreA, en Andrés hefur verið reglulegur gestur í versluninni hennar á góðum tilefnum – einnig löngu áður en við kynntumst Andreu sjálfri sem segir mikið. Ég útskrifaðist fyrir 7 árum í kjól frá Andreu og skírði einnig Bjart Elías í flík frá Andreu. En það eru ekki nema nokkrir mánuðir frá því að hún gekk til liðs við Trendnet ♡

Þeir þekkja sína konu…


Á sunnudaginn kíktum við svo í nýopnaðann dýragarð sem var rétt hjá bústaðnum en hann kallast einfaldlega Sveitagarðurinn. Öll umgjörð garðsins er frekar einföld, ekki það sem við eigum að venjast frá Slakka, en strákarnir voru mjög glaðir yfir þessari heimsókn og fengu að klappa ýmsum sveitadýrum. Í sumar á svo að bætast við stærðarinnar hoppukastali svo við eigum mjög líklega eftir að kíkja aftur við þegar veðrið er gott.

Er til eitthvað sætara en börn og kettlingar?

// Liturinn á veggnum heitir Soft Sand og er frá Sérefni.  Myndirnar eru teknar með Canon EOS M100 myndavélinni minni sem ég fékk í gjöf nýlega og sé núna vel hvað það munar miklu að taka góðar myndir fyrir bloggið en ekki notast við símamyndir. 

Af bústaðnum er annars allt gott að frétta – búið er að mála hurðir hvítar (efni í nýja færslu) og allt að gerast með pallinn. En allt tekur þetta tíma og við öll sallaróleg enda hvergi betra að vera hvort sem búið sé að klára allt eða ekki.

Ég mæli svo sannarlega með smá helgarferð út úr bænum þó það sé bara bíltúr, við fjölskyldan höfum reynt að vera dugleg að heimsækja áhugaverða staði í kringum bústaðinn og vorum enga stund að keyra á Flúðir. Við höfum einnig heimsótt gömlu laugina, Friðheima og erum alltaf spennt að uppgötva nýja staði. Farmers Bistro á ég án efa eftir að kíkja á aftur fyrir súpu og nýbakað brauð með smjöri mmmm…

Ég vona að þið hafið einnig átt góða helgi, með sól í hjarta munum það!

SVART HVÍTT HEIMILI MALENE BIRGER

Skrifa Innlegg

4 Skilaboð

  1. Andrea

    12. June 2018

    Yndislega fjölskylda
    En hvað ég er heppin að hafa kynnst ykkur ?
    Risa knús á afmælisbarnið og líka á uppáhalds Bjartinn minn ❤️

  2. Guðrún Vald.

    12. June 2018

    Þessi bústaður er náttúrulega með ólíkindum fallegur, enda ekki við öðru að búast ;)