Ég er ein af þeim sem kann miklu betur við það að leggja á borðið en að elda matinn og hef hingað til fengið að halda mig í þeirri deild. Fallega dekkuð borð gera matarboðin og borðhaldið aðeins skemmtilegra og það má nota ýmislegt óhefðbundið til að skreyta borðið með og getur alveg verið hin besta skemmtun. Listinn er endalaus og stoppar aðeins við þitt eigið hugmyndaflug. Ég elska að leggja á borð um jólin með gömlum Royal Copenhagen jólaplöttum sem ég hef sankað að mér í gegnum árin og blanda þeim við klassískt Blue Elements stell og ýmislegt punt sem ég vel að hverju sinni, jólanammistafir, piparkökur, litlar batterísseríur, styttur í vetrarþema og að binda slaufu með fallegum borða á glösin, hnífapörin eða kertastjakana eru nokkrar hugmyndir af borðskrauti í fljótu bragði. Hér að neðan má sjá fallegar hugmyndir til að leggja á borðið fyrir jólin.
Á hverju ári síðan 1963 hefur Royal Copenhagen fagnað jólunum með glæsilegu jólaborði þar sem fallegt borðstellið fær sín notið á listrænan hátt. Í ár eru því komin 60 ár af Royal Copenhagen jólaborðum og í tilefni þess voru fimm ólík jólaborð kynnt sem voru dekkuð af sex skapandi aðilum, sem öll eiga þau sameiginlegt að hafa mikil áhrif á danska menningu – sum í nokkra áratugi, og önnur sem eru á uppleið.
Hvert og eitt þeirra fékk að túlka sín jól á sinn persónulega hátt og eins og alltaf eru jólaborðin staðsett í gullfallegri og sögulegri flaggskipsverslun Royal Copenhagen við Amagertorv 6 í Kaupmannahöfn fram að jólum.
Smelltu hér til að lesa meira um 60 ár af jólaborðum Royal Copenhagen. Hér að neðan tók ég saman fallegan innblástur af jólaborðum Royal Copenhagen.
Og fyrir áhugasama þá má skoða hér jólaborðið sem ég og Andrea gerðum í hittifyrra, þegar tveir Royal Copenhagen safnarar hittast og fá að dúlla sér við að leggja á borð er mjög gaman ♡ Fyrir áhugasama þá fæst þetta fallega stell hjá Kúnígúnd og í Epal.
Skrifa Innlegg