Góðan daginn elsku þið. Mótmælin í Bandaríkjunum og byltingin sem er að eiga sér stað í kjölfar andláts George Floyd hefur haft mikil áhrif á mig síðustu daga. Myndefnið sem flæðir í kjölfarið um samfélagsmiðla og fréttavefi er skelfilegt og sýnir skýrt og greinilega hversu rótgróinn rasismi er og hefur verið það í áraraðir. Ég hef nýtt tímann minn síðastliðna viku í að lesa og fræða mig um kynþáttahatur, forréttindi hvítra og þetta rótgróna og kerfisbundna samfélagsmein. Fyrir tilstilli tækninnar eru augu heimsins alls að opnast fyrir þessum raunveruleika sem verður að breytast.
Fyrir nokkrum dögum leið mér eins ég hefði ekki rétt á því að tjá mig um þessi málefni, verandi hvít kona sem aldrei hefur mætt mótlæti í líkingu við það sem svartir og litaðir í Bandaríkjunum og um allan heim þurfa að horfast í augu við hvern einasta dag. Hins vegar áttaði ég mig fljótt á því að mér finnst það í mínum verkahring að nota röddina mína og þennan vettvang sem ég hef til að miðla upplýsingum um það sem við getum gert til að læra um og uppræta rasisma. Ég viðurkenni forréttindi mín og þá staðreynd að ég gerði mér ekki grein fyrir því að rasismi er miklu algengari en við héldum, meira að segja í litla samfélaginu okkar á Íslandi.
Það er hafsjór af efni í boði sem útskýrir það sem er að eiga sér stað í Bandaríkjunum, sögu svartra, forréttindi hvítra og hvers vegna hlutirnir hafa þróast í þann raunveruleika sem við sjáum í dag. Á samfélagsmiðlum er að finna tillögur um sjóði og undirskriftarlista til að leggja baráttunni lið. Einnig er mikið af upplýsingum um lesefni, sjónvarpsefni og hlaðvörp sem snúast um málefnið. Á þriðjudaginn var #blackouttuesday á samfélagsmiðlum. Fjölmargir tóku þátt og í kjölfarið heyrðust raddir um að það væri ekki nóg að birta eina mynd til að „vera með“ og halda síðan áfram með daginn sinn. Fólk yrði að opna augun og taka þetta lengra, læra, fræða aðra ásamt því að leggja baráttunni lið með fjárframlögum og undirskriftum. Tjá sig og nota rödd sína. Ég skil að mörgum líður mögulega ekki nógu upplýstum og treysta sér ekki til að tjá sig akkurat núna. Við viljum eðlilega byrja hjá okkur sjálfum, líta inn á við og taka þetta svo lengra. En hvort sem það er online eða ekki, miðlum því sem við erum að læra þessa dagana á einn eða annan hátt. Það er undir okkur komið. Þetta er ekki bara bylgja á samfélagsmiðlum sem gengur síðan yfir. Ég ákvað að taka saman í eina færslu nokkra instagram posta sem hafa reynst mér vel og innihalda mikið magn af upplýsingum um rasisma, white privilege, fræðsluefni, sjóði og undirskriftalista. Ég á margt eftir ólært og þetta er bara brotabrot úr hafsjó af upplýsingum sem eru aðgengilegar á netinu – en ég hvet ykkur til að skoða þetta nánar.
Fyrst langar mig að mæla með þessu viðtali við Brynju Dan, þessu viðtali við Kolfinnu og Sigurð og þessu viðtali við Chanel Björk ásamt story sem er í highlights hjá henni á instagram @chanelbjork.
Andrea Röfn
Skrifa Innlegg