Það er tvennt sem að ég þarf að sýna ykkur í þessari færslu, fyrst og fremst er það Hafnarfjarðar plakatið fína sem ég fékk mér reyndar í lok sumars en þar sem að ramminn brotnaði fljótlega er ekki svo langt síðan að það endaði uppi á vegg. En svo er það Montana hillan mín sem ég var búin að segja ykkur frá, ég hef verið í smá vandræðum hvar ég ætti að koma henni fyrir og er með hana núna inni í stofu ofan á tveimur kollum í mátun svo ég fari nú ekki að bora í veggi að óþörfu. Mér sýnist þetta þó vera staðurinn fyrir hana fyrir utan það að hún verður hengd upp í sömu hæð og sófinn er. Ég var síðan svo sannarlega ekki að ýkja þegar ég sagði ykkur frá krotinu á hillunni en ég hef haft tímarit ofan á þessari blessuðu eiginhandaáritun til þess að ég geti horft á hana á hverjum degi, ég er ekki alveg komin yfir áfallið en brosi þó alveg yfir þessum ósköpum. Áritunina má sjá á neðstu myndinni… *Þið ykkar sem vitið ekki hvað ég er að tala um verðið fyrst að lesa þessa færslu hér “Fyrsta Montana hillan mín”.
Horft úr eldhúsi inni í stofu, mér hefur þótt frekar erfitt að fá fallega blómapotta undir stórar plöntur eins og Monstera en ég er ennþá eftir að finna þann eina rétta. Ég er mjög hrifin af þessum í gluggakistunni en þeir eru úr Garðheimum og svo er svarti frá Postulínu. Eins og ég skrifaði hér að ofan þá er ég bara að máta hilluna þarna og þessvegna er hún ofan á kollunum:)
Áritunin er vel falin undir nokkrum tímaritum… úff, ég lofa að ykkur mun bregða smá:)
Plakötin frá Reykjavík Poster eru seld víða, ég fékk mitt í gegnum síðuna þeirra því ég vildi láta sérmerkja mitt sem þau bjóða einmitt upp á. Sum plakötin eru þá með “Ég bý hér”, en vegna þess að við höfum flutt mjög oft og erum ennþá á leigumarkaðnum vildi ég geta átt plakatið lengur og fékk því hönnuðinn til að setja lítil bleik hjörtu við alla staðina sem við höfum búið saman á í Hafnarfirðinum. Ef þið horfið vel á neðri myndina þá ættuð þið að geta séð fjögur hjörtu öll í kringum miðbæinn. Efsta hjartað er reyndar heima hjá foreldrum mínum en þar sem við Andrés vorum bara 16 ára þegar við kynntumst þá eyddum við mörgum árum þar:)
Ég veit að Epal, Snúran og Hrím hafa verið að selja plakötin, en Hafnarfjarðar plakatið er líka hægt að kaupa í Litlu Hönnunarbúðinni á Strandgötunni.
Hér bættist svo einn gordjöss leðurpúði við á dögunum en hann er frá Andreu og ég er alveg hrikalega skotin í honum:)
Svo er það aðalmálið sem ég veit að sum ykkar voru mjög forvitin að sjá.. úff ég veit varla hvort ég eigi að vera að sýna þetta! Hér er brot úr færslunni þar sem ég sagði ykkur frá þessu “ Í gær hitti ég hinsvegar Peter Lassen sjálfan sem hannaði Montana hillurnar, hann er á níræðisaldri og því varð ég mjög spennt að fá að spjalla við hann um hönnun enda býr sá maður yfir mörgum sögum. Hann var einnig forstjóri Fritz Hansen í 25 ár og vann á þeim tíma með m.a. Arne Jacobsen sjálfum. Ég ákvað að það hlyti að vera besta hugmynd í heimi að kaupa mér Montana einingu og fá Lassen til að árita hana, og sá gamli var svo sannarlega til í það. Ég sýndi honum með fingrinum hvar áritunin ætti að vera, mjög lítið og smekklegt. Hann hinsvegar var með aðra hugmynd greinilega, því hjartað í mér stoppaði smá þegar ég sé hann byrja á risa teikningu með svörtum olíutúss ofan á hillunni…”
Hér má sjá þessa glæsilegu eiginhandaáritun frá Peter Lassen sjálfum og svona fín teikning líka, haha ég held að mér muni aldrei hætta að þykja þetta fyndið.
Skrifa Innlegg