Í Mogganum um helgina birtust myndir af heimilinu mínu og ég má til með að deila þeim líka hingað inn, það er nefnilega ekki oft sem að heimilið manns er myndað af svona flinkum ljósmyndara. //Myndir:Golli hjá mbl.
Það var bara nokkuð gott að hafa sagt já við þessu innliti, þá kláraði ég to do listann minn og skellti t.d. upp myndum á vegginn fyrir ofan sófann. Einnig var nýji blómapotturinn frá Postulínu hengdur upp, en hann hafði verið lengi á óskalistanum.
Ég var beðin um að lýsa stílnum á heimilinu, það er alltaf dálítið erfið spurning en ég svaraði henni á þessa leið. “Ætli ég myndi ekki lýsa honum sem líflegum og ferskum. Þar sem ég hef starfað undanfarin ár við það að skrifa um allt það nýjasta í heimi hönnunar og heimila er því varla furða að mitt heimili sé dálítið undir áhrifum tískustrauma, því neita ég ekki. Í grunninn eru húsgögnin og ljósin klassísk hönnun en smáhlutirnir sem skreyta heimilið sem og plaköt á veggjum breytast með tímanum, það má einnig alltaf finna eitthvað bleikt á mínu heimili, það er svo fallegur litur.”
Ég safna áhugaverðurm bókum, þessi er sú nýjasta í safnið ‘Taxidermy art’, alveg minn tebolli. Stólaplakatið er gefið út af Vitra, skenkinn smíðaði Andrés minn og stóllinn eftir Philippe Starck var mín fyrsta hönnunareign, ég fékk hann í útskriftargjöf frá foreldrum mínum og ég man að ég bjó ennþá hjá þeim þá. Stóllinn er reyndar glær en eftir að gæran var sett á hann þá hefur kötturinn minn eignað sér hann.
Ég hef alltaf allskyns myndir á ísskápnum, mér finnst það voðalega heimilislegt að hafa nokkrar fjölskyldumyndir og annað fallegt á ískápnum en það er kannski bara ég. Svo mætti alveg segja að ég sé safnari, en það er stundum alltof mikið af hlutum uppivið sem gjarnan mætti hvíla inni á milli og setja inní skáp. Þessi mynd er t.d. góð sönnun um það, spurning að létta smá á þessu svæði:)
Æj ég er voðalega skotin í herberginu hans Bjarts:) Náttborðið kemur frá langömmu hans og langafa og kommóðuna gerði Andrés upp. Rúmið er gamalt og við lökkuðum það hvítt en stuðkantinn og teppið fékk ég hjá henni Linneu í Petit.
Ef þið eruð með einhverjar spurningar endilega skiljið eftir athugasemd,
x Svana
Skrifa Innlegg