Ég átti dálítið áhugavert samtal við ömmu mína í dag, en hún var að furða sig á því afhverju við unga fólkið viljum búa á svona litlausum og líflausum heimilum. Svo gróf hún upp tímarit og sýndi mér dæmi um hvernig við unga fólkið sum búum. Ég svosem brosi bara yfir svona pælingum vitandi það að ég birti reglulega myndir af ægilega smart heimilum sem kalla mætti litlaus, en ég var svosem ekkert að minna hana á bloggið mitt í samræðu dagsins vonandi að hún ætti ekki við mig þegar hún talaði um okkur unga fólkið. Talandi um ömmu, þá á hún nefnilega eitt fallegasta heimili sem ég veit um, yfirfullt af fallegum hlutum sem hún hefur sankað að sér á ferðalögum um heim allan. Því myndi mér ekki detta í hug að miða okkar heimili saman, ég eignast vonandi einn daginn svona fallegt heimili þar sem úir og grúir af hlutum sem enginn nema ég á, heimili uppfullt af minjagripum, minningum og listaverkum, en það kemur bara með tímanum. Smekkur okkar þroskast með tímanum sem betur fer og hægt og rólega hættum við að kippa okkur upp yfir hinum og þessum trendum þegar kemur að hönnun og heimilum.
Ég er hinsvegar æ oftar að lenda í samræðum um hina og þessa stíla, hönnunarklisjur og það að mörg heimili séu bara “alveg eins”. Ég er nefnilega alls ekki sammála þessu, það má vel vera að ég hafi birt myndir af heimilum sem eru keimlík, en þessi heimili eru mörg hver staðsett í t.d. Svíþjóð og ég vona að sumir haldi þá ekki að ÖLL sænsk heimili hljóti þá að líta svona út. Mögulega vel ég þessar myndir á bloggið mitt því ég heillast af þeim stíl á þeirri stundu. En það eru til ótalmargar bloggsíður sem sína allt litrófið þegar kemur að heimilum og VÁ það er svo mikið til að sjá og njóta. Það eru til hundruðir bloggsíðna og jafnvel tímarita ef þú ert meira fyrir ‘shabby chic’ stíl, iðnaðarstíl, franskan sveitastíl, danskan sveitastíl, minimalískan stíl, miðaldarstíl og listinn heldur endalaust áfram, þú getur nefnilega valið það sem þú vilt sjá.
Einnig eru uppi þær hugmyndir að ALLIR eigi sömu hönnunarhlutina í dag, það er nefnilega heldur ekki rétt að mínu mati. Þetta fer frekar eftir því hvaða fólki þú ert að fylgja á Instagram og Facebook og hvaða bloggsíður og tímarit þú lest. Mín upplifun eftir að hafa heimsótt fjölmörg íslensk heimili í gegnum vinnu síðustu árin hefur frekar sýnt mér hvað það er mikil fjölbreytni í gangi og ég hef aldrei lent í því að heimsækja keimlík heimili. Ég hef þrátt fyrir það staðið mig að því að fá bakþanka yfir því að eiga stundum “alveg eins og allir”, en það er svo fáránleg hugsun að ég er fljót að ýta henni frá mér. Ég vel hlutina inn á mitt heimili af því að mér þykja þeir fallegir burtséð frá því hver á þannig líka. Þrátt fyrir að þú sjáir Kubus stjaka, Tablo sófaborð, POV veggkertastjaka, Ferm Living vírakörfu og álíka (fallega) hluti á mörgum heimilum á netvafri þínu þýðir ekki að allir eigi þannig. Teldu núna upp þá aðila í kringum þig sem eiga svona hluti líka? Eru það allir?
Varðandi Omaggio fjölmiðlaæðið sem reið hér yfir, jafnvel sá vasi er ekki til inni á öllum heimilum eins og margir halda fram. Ég á eitt stykki af þessum (fallega) vasa og ég ætla ekki að þurfa að skammast mín fyrir að hafa fallið fyrir honum þó svo að margir vilji kalla hann hönnunarklisju í dag vegna mikillar fjölmiðlaumfjöllunar. Ef þér finnst hluturinn flottur þá er það nóg.
Ég ætlaði svosem ekkert að hafa þetta langt, en vildi koma þessu frá mér. Njótum þess að hafa heimilin okkar eins og við viljum, hvort sem það er eftir nýjustu tískustraumum eða ekki. Lífið er til að njóta, njótum þess á okkar hátt og hlustum ekki á neikvæðnisraddir:)
Og á meðan að ég er að þessu, þá vil ég einnig svara þeirri umfjöllun sem nú er í gangi um lífstílsblogg og keyptar umfjallanir, og vil minna ykkur á að þó að einhver sé að gera vissa hluti, þá þýðir það ekki að allir séu að því.
Góða nótt,
x Svana
Skrifa Innlegg