Ég fékk leyfi til að birta nokkrar myndir héðan heima sem teknar voru fyrir nýjasta tölublað Home Magazine, blaðið er reyndar orðið uppselt hjá útgefanda sem þýðir þó að örfá eintök gætu verið til hjá einhverjum söluaðilum en blaðið er þó hægt að skoða núna frítt á netinu, hér. Þátturinn sem ég var í heitir “uppáhalds hlutirnir” og því fékk ég að velja nokkra hluti sem ég held upp á til að láta mynda.
Ég á alltaf frekar erfitt með að velja mína uppáhalds hluti en hér á myndinni sjást þeir nokkrir. Þar má t.d. nefna fuglinn fljúgandi sem ég gerði sjálf, svo er annar “fugl” á stofuborðinu sem ég sútaði sjálf og gerði úr listmun. Ég held einnig upp á Y-stólinn og Pia Wallén teppið sem flakkar gjarnan á milli stofu og svefnherbergis. -Þjónar einmitt þeim tilgangi þessa dagana að vera sængin hans Andrésar míns. Ég gæti einnig nefnt Eros stólinn eftir Philippe Starck sem var mín fyrsta hönnunarmubla og startaði mögulega þessari stólasöfnun minni, en hann gáfu mamma og pabbi mér þegar ég bjó enn hjá þeim.
Sasa klukkuna hef ég margoft nefnt sem uppáhalds, hún er bæði eftir einn minn uppáhalds hönnuð hana Þórunni Árna og síðan fæst hún á gamla vinnustaðnum mínum dásamlega Spark Design Space þar sem allt er svo fagurt. Það var reyndar klippt á PH ljósið mitt á þessari mynd sem hafði verið ljós drauma minna þar til ég fékk mér það í haust.
Hella Jongerius-Ikea vasinn fær líka alltaf að vera með því ég á svo dásamlegar vinkonur sem lögðu mikið á sig til að koma þessum vasa til Íslands frá L.A. áður en Ikea tók hann til sölu hér heima, en ég hafði bloggað um það hvað ég væri skotin í þessum vasa.
Reyndar er ekkert mikið í sérstöku uppáhaldi á þessari mynd, en ég gæti svosem nefnt það hvað ég er hræðilega veik fyrir hlébarðamynstri og það á alveg sæti á topp listanum mínum. Ég gæti dressað mig frá toppi til táar (ef ég hefði áhuga) í öllu hlébarðamynstri, þá meina ég skó, sokkabuxur, kjól, peysu, kimono, klút og veski….Hversu smart væri það nú haha?
Ljósaskiltið góða frá Petit og svo er ég mjög skotin í þráðlausa B&O hátalaranum mínum sem sést glitta þarna í, hann hefði reyndar átt skilið sérmynd enda afar mikið notuð græja á heimilinu:)
Draslhillan í andyrinu okkar er hin eina sanna draslhilla –Uten Silo frá Vitra, ég get vel mælt með henni fyrir þá sem eru alltaf að týna lyklum og öðru mikilvægu!
Barnaherbergið er alltaf uppáhalds, klárlega skemmtilegasta rými heimilisins og alltaf háleit markmið hvað eigi að gera næst við það rými.
Ljósmyndarinn var Gróa Sigurðardóttir en henni er hægt að fylgjast með á facebook og á heimasíðu hennar.
Síðast en ekki síst, mitt allra mikilvægasta fyrir utan að sjálfsögðu þetta lífsnauðsynlega (fjölskylda, vinir o.sfr.), þá eru það brillurnar mínar fallegu sem ég hætti ekki að vera skotin í, þau eiga reyndar skilið sérfærslu líka. Þessi eru frá Saint Laurent og keypt í gleraugnaversluninni Ég C í Hamraborg, umgjörðin er úr gráglæru plasti og armarnir gylltir og ég hef sjaldan verið jafn sátt með brillurnar mínar. Svo er það tölvan góða þar sem öll mín vinna fer fram í, án hennar væri ég nokkuð handalaus:)
Skrifa Innlegg