fbpx

UM ÓLITRÍK HEIMILI OG ÓLÍKAN SMEKK

Heimili

Ég rakst á dögunum á umræðu þar sem rætt var um hvað heimili væru orðin ólitrík í dag og öll orðin eins, svört hvít og grá. Ég hef gaman af uppbyggilegum skoðanaskiptum og hlusta oftar en ég hef áhuga á allskyns taut um heimili – þá sérstaklega íslensk. Ég hef þó aldrei staðið sjálfa mig að því að deila slíkum skoðunum, enda hrífst ég af óteljandi ólíkum heimilisstílum þrátt fyrir að ég viti vel hvar minn persónulegi stíll liggur. Svart hvít heimili geta verið óskaplega falleg og jafnvel persónuleg, allt grátt frá gólfi til lofts getur verið mjög hlýlegt og allt hvítt getur verið mjög sjarmerandi. Það að við sjálf kjósum ekki slíkt fyrir okkar eigin heimili þá þýðir það ekki að það veiti ekki öðrum ánægju.

Sumir leyfa sérkennilegum áhugamálum að einkenna heimilin og aðrir leyfa gífurlegum söfnunaráhuga að yfirtaka sitt. Litrík heimili eru jafn algeng og þessi ólitríkari og stílhreinni og stundum þarf einungis að líta í eigin barm og endurmeta hverjum við fylgjum, hvaða blöðum við flettum og hverja við hlustum á til að sjá að lífið er stútfullt af einhverju fyrir alla. Litríku eða ekki.

Í tilefni umræðunnar læt ég fylgja með myndir frá fallegu hvítu heimili frá Anette @whitelivingetc þar sem nánast enga liti er að finna. Heimilið er fallegt og ber með sér vissa ró. Hún er staðföst á sínum stíl sem ég tel jákvætt, ef þú finnur eitthvað sem þú hrífst af skaltu bara fara alla leið. Það mun að minnsta kosti veita þér gleði og það er það eina sem skiptir máli.

Myndir : Instagram @whitelivingetc

Og yfir í litríkari pælingar þá er ég þessa dagana að velja lit á forstofuna, ljósgræn eða ljósblá er að heilla mig mest og sé ég fyrir mér gyllta spegla á forstofuskápinn til að gera þessa litlu forstofu aðeins meira spennandi. Þar sem ég er nú þegar með bleikt eldhús, lillablátt á ganginum og grænt í svefnherberginu þá getur vandast valið að velja rétta litatóna til að passa við restina. Þá væri jú vissulega auðveldara að hafa allt hvítt og fínt haha.

Ráðum við ekki alveg við það að leyfa hverjum og einum að velja fyrir sig og sitt heimili? Svart, hvítt, marglitað eða “heimili eins og allir hinir eiga” (það er vinsælt tautefni hjá þið vitið hvernig týpum;)

Njótið dagsins!

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu

INNBLÁSTUR FYRIR FORSTOFUNA // 35 HUGMYNDIR

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Ella

    28. February 2020

    Að mínu mati fullkomið heimili! ;)