fbpx

TIPS & TRIX: HVERNIG Á AÐ INNRÉTTA Í KRINGUM SJÓNVARP?

Fyrir heimilið

Ef það er einn hlutur á heimilinu mínu sem ég á í hvað mestu ástar-haturssambandi við þá er það sjónvarpið. Það er sá hlutur sem við flest eigum en sjáum þó sjaldnast í innlitum og eina ástæða þess hlýtur hreinlega að vera hversu agalega ljót þau geta verið og kjósa því tímaritin oft að fela þennan hlut frá okkur lesendum. Sem betur fer hafa sjónvörp þó farið minnkandi með árunum og túbusjónvörp orðin ansi sjaldgæf sjón og sum eru jafnvel orðin nokkuð falleg ef svo má orða. Ég hef átt margar sjónvarpsumræður við minn mann og ég stunda það að raða blómavösum til að fela myndlykilinn og ýti sjónvarpinu nánast útaf skenknum til að koma því sem allra mest útí horn eins og hægt er. Þið megið ímynda ykkur hvort það pirri suma haha.

Það er auðvitað alveg frábært að eiga sjónvarp og ég vil helst ekki án þess vera en það er svo sannarlega ekki minn uppáhaldshlutur á heimilinu. Jafnvel þó að þú sért með nýjustu græjuna – ofur þunnt sjónvarp en ekki gömlu “túpuna” þá er það jú alltaf svartur tómur rammi þegar slökkt er á því og því ber að huga vel að umhverfi þess.

Ég lagðist í smá rannsóknarvinnu því þetta er jú í alvöru eitthvað sem við mörg veltum fyrir okkur! Hvernig er hægt að innrétta fallega í kringum sjónvarp og hvernig er hægt að koma þessum stóra hlut vel fyrir án þess að fallega stofan okkar þurfi að gjalda fyrir það?

screen-shot-2016-08-10-at-13-55-06

Mynd : Lotta Agaton

Það sem skiptir máli er að fela snúrur og reyna að koma aukahlutum eins og myndlykli og apple tv vel fyrir og helst úr augnsýn. Einnig kemur oft betur út að hengja sjónvarpið upp ef möguleiki er á því til að létta örlítið á.

Dökkur veggur! Það hjálpar til við að láta sjónvarpið falla inní umhverfið þegar það er slökkt á því ef veggurinn er dökkur. Þar fyrir utan er það betra fyrir augun þegar horft er á bíómynd að sjónvarpið sé ekki í svona mikilli andstæðu við umhverfið.

Annað ráð er ef að sjónvarpið er vegghengt kemur vel út að vera með skenk fyrir neðan með skrautmunum á eða lampa svo sjónvarpið sé ekki í algjöru aðalhlutverki.

Ef sjónvarpið er ekki mjög stórt þá getur virkað vel að útbúa myndavegg í kring, slíkt kemur sérstaklega vel út á hvítum vegg ef ramminn á tækinu er einnig hvítur (já það eru til hvít sjónvörp). Ef sjónvarpið er hinsvegar svart þá kemur betur út ef veggurinn er dökkmálaður.

picture-wall-around-television

Hér kemur sérstaklega vel út að hafa myndavegg þar sem sjónvarpið er í aukahlutverki og uppröðun ekki háð því að passa í kringum sjónvarpið sérstaklega.

samsung_blogger_sept_gitte_0052_1

Hér kemur vel út að hafa opnar hillur í skenknum þar sem vandlega er raðað upp fallegum hlutum í bland við bækur og tímarit. Hlutir eins og planta og karfa sem geyma má í teppi gefur hlýleika sem er góð andstæða við annars kuldalegan flatskjáinn. Hér hefur einnig verið veggfóðrað á bakvið sjónvarpið sem kemur sérstaklega vel út.

samsung_blogger_sept_gitte_0080

Við keyptum okkur nýtt sjónvarp á dögunum eftir að okkar gamla varð úr sér gengið, núna þarf því að stækka skenkinn og ég er að íhuga að bæta við einni Besta Ikea einingu án hurðar svo ég geti raðað í nokkrum skrautmunum en ég er nú þegar með tvöfaldann Besta skenk.

Montana eining hefði verið fullkomin lausn en er smá út fyrir budgetið og því fær Ikea að redda mér að þessu sinni.

tv_wallSum sjónvörp eru reyndar alveg einstaklega vel hönnuð, það þarf lítið að fela þetta hér sem Nina hjá Stylizimo á þrátt fyrir að hér vanti nokkra skrautmuni og meiri hlýleika eins og sjá má.

     stilinspirationcoffetableborgemogensen4

Myndir via Pinterest

Lokaráðið ef þú ert alveg að verða gráhærð af sjónvarpinu er hreinlega að loka það inní skáp, þökk sé flatskjám þá passa þau flest inn í skápa svo hægt er að loka á þessar elskur þegar við erum ekki að horfa.

Á morgun verður klárað að koma nýju græjunni vel fyrir og vonandi kemst loksins betri mynd á stofuna sem er alltaf hálf ókláruð hjá mér. Ykkur er velkomið að fylgjast með á Snapchat (Svartahvitu) eins og áður – en núna fer ég að verða aftur virkari eftir ljúft sumarfrí.

MÁNUDAGSINNLIT: SÆNSKT & FALLEGT

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. Sóley

    11. August 2017

    Skemmtileg færsla og góður innblástur :)