fbpx

TIPS & TRIX FYRIR ELDHÚSIÐ

EldhúsRáð fyrir heimiliðVerslað

Við sem búum í leiguhúsnæði erum oft að vandræðast hvernig eigi að flikka uppá heimilið án þess að vera að negla of mikið eða mála. Það er hinsvegar heilmikið hægt að gera en aðaláherslan er þá á skrautmuni í stað innréttinga og það að gera sem mest úr fallegu hlutunum og á meðan að geyma þreytta hluti inni í skáp. Þetta síðarnefnda er dálítið sem ég er að vinna í hægt og rólega og fór nú síðast um daginn í gegnum allar eldhússkúffur og tók í burtu allt sem hefur ekki verið notað lengi og fékk í staðinn fullt af nýju skúffuplássi sem vel má nýta. Það getur verið gott að renna reglulega í gegnum skrautmuni í eldhúsinu (á reyndar við allt heimilið) og hvíla sumt á smá tíma og þá getur reynst vel að tæma allar hillur og borð og endurraða en setja aðeins þá hluti aftur sem þú annað hvort notar reglulega eða eru virkilega fallegir. Hitt má einfaldlega fara ofan í skúffu eða í kassa sem fer svo í Góða Hirðirinn. Ég tók saman nokkur tips hvernig hægt er að fegra eldhúsið á einfaldan hátt og nokkra hluti sem myndu svo sannarlega fegra hvaða eldhús sem er.

eldhus

1.// Georg Jensen hnífur fyrir þá vandlátu. Epal. 2.// Falleg kopar pressukanna frá Bodum. Ormsson. 3.// Smart uppþvottalögur frá Meraki. Maí & Litla Hönnunarbúðin. 4.// Brauðbox í fagurgrænum lit til að fela allt kexið og brauðpoka. Kokka. 5.// Smeg ristavél sem yrði seint stungið ofan í skúffu. Hrím. 6.// Kastehelmi krukkur frá iittala undir hafra, fræ og fleira. Sölustaðir Iittala. 7.// Gyllt hnífapör hljóma of vel. Maí & Fakó. 8.// Rivsalt er eitthvað sem mig langar til að prófa. Maí & Litla Hönnunarbúðin. 9.// Fullkominn steypujárnspottur undir ljúffenga pottrétti. Ormsson.

Að stilla upp bestu hlutunum er gott trix.

Ég geng alltaf frá gömlu og lúnu brauðristinni og kaffivélinni ofan í skúffu eftir notkun en ef tækin væru örlítið fallegri mættu þau alveg vera uppivið. Í staðinn er ég með viðarbakka þar sem ég geymi saltflögur í fallegri krús og fræ sem fara í hafragrautinn í fallegum krukkum, einnig er ég með vel valin og fín áhöld í marmarastandi sem ég fann í Góða Hirðinum ásamt öðru punti eins og viðarbretti og skrautbakka.

Einnig getur breytt miklu fyrir lúkkið að bæta við fallegri plastmottu á eldhúsgólfið en það fást fallegar m.a. í Pipar & salt og Kokku. Ég mæli einnig með að bæta við eldhúsið plöntu eða kryddjurtum sem er sérstaklega sniðugt fyrir þá sem eru með græna fingur en það gefur eldhúsinu mikið líf. Það getur verið vandasamt að halda þessum elskum á lífi en æfingin skapar meistarann og ég mun halda ótrauð áfram að reyna að halda basilíkum á lífi en þær drepast undantekningarlaust hjá mér. Toppurinn er svo auðvitað að hafa þær í smart blómapotti en þessir gylltu frá Winston living eru sérstaklega flottir.

Ef þú ert eitthvað ósátt/ur við eldhúsinnréttingarnar í leiguhúsnæðinu má svo sannarlega skipta um höldur á hurðum og skápum til að aðlaga að þínum stíl, -passa bara vel upp á gömlu höldurnar til að skipta út þegar þú flytur burt.

Það sem ég hef fundið út er að það er hægt að gera gott úr nánast öllu með því að veita dálitla athygli að smáhlutunum, t.d. uppþvottalögur í fallegum umbúðum og smart viskastykki við vaskinn geta gert gæfumuninn í þreyttu eldhúsi. Ég hef jafnvel gerst sek að fylla á minn gamla L:A Bruket uppþvottalögurbrúsa í stað þess að kaupa strax nýjann því ég er svo hrifin af umbúðunum (líka mjög góð sápa).

Hægt er að fjárfesta í smáhlutahillum og stilla þar upp bestu kaffibollunum, uppáhalds te-inu og jafnvel litlum kaktusum en þá þarf að vísu að bora í veggi. Vinsælt val væri String hilla (sjá uppraðanir í hlekk), en þó er hægt að finna smáhlutahillur í Ikea og í fleiri verslunum. Fallegar matreiðslubækur er einnig gott að nýta sem skraut og koma jafnvel vel út í diskarekkum, ég elda ekkert alltof oft uppúr slíkum bókum en hef þó gaman af því að eiga nokkrar vel valdar og þessi hér er núna á óskalistanum.

Marni-kitchenwide

Þetta eldhús hér að ofan er einstaklega fallegt og kemur vel út að nota Rand mottuna undir borðið þó svo að þeir sem eigi börn hristi líklega hausinn núna. En takið eftir hvað plönturnar, litríku viskastykkin og matreiðslubækurnar gera mikið. P.s. það var ekki fyrr en að ég hafði birt þessa færslu að ég tók eftir að Elíasbet Gunnars hafði einnig birt þessa mynd í nýjustu færslunni sinni, -sjá hér:) Við erum greinilega með svipaðan smekk!

2d7e35f88ce3a919fc534919c56ca0aa

5b45a0f7e5f445d6ddcebcb5e605edda

 Myndir frá Pinterest síðu Svart á hvítu

Eldhúsið er hjarta heimilisins og þá er tilvalið að hafa það örlítið smart er það ekki?:) Ef ykkur líkar vel við svona færslur með ráðum fyrir heimilið þá megið þið endilega smella á like hnappinn hér að neðan eða skilja eftir athugasemd.

Screen-Shot-2015-04-23-at-22.38.421111

SJÚKLEGA FALLEGT & HLÝLEGT HEIMILI

Skrifa Innlegg

6 Skilaboð

  1. Daníel

    9. August 2016

    Mjög skemmtileg færsla! Hahah ég hugsaði það einmitt þegar ég sá Rand mottuna að þetta væri líklegast ekki það sniðugasta undir eldhúsborð jafnvel þótt það séu bara fullorðnir á heimilinu :P en flott er það!

    • Svart á Hvítu

      10. August 2016

      Haha já það er rétt, fullorðnir myndu varla ráða við að borða við mottu:)

      • Erla

        11. August 2016

        hahah við vorum með svona mottu undir borðinu okkar og með 1 árs barn…það var æði…djók, mæli ekki með því. Hún er komin undir hjónarúmið og unir sér vel. Takk fyrir þessa færslu þurfti á henni að halda, væri til í létta baðherbergisfærslu flj´jotlega, langar að pimpa það aðeins upp ;)

        • Svart á Hvítu

          12. August 2016

          Hahahah já ég held þetta sé off á listanum næstu árin að setja mottu undir borðið:)
          Góð hugmynd með baðherbergi, -skelli því á listann!
          -Svana

  2. Alda Rós

    10. August 2016

    Æði þetta er klárlega inspirationið sem ég þurfti :D