fbpx

ÞAR SEM STÍLHREIN KLASSÍSK HÖNNUN, SNALLTÆKI NÚTÍMANS & ÍSLENSK LIST MÆTAST

ListSamstarf
Nýlega kíkti ég við á svo áhugaverða listasýningu í Ormsson en þar hafði Gallery Y setti upp vandaða sýningu í tilefni 100 ára stórafmælis verslunarinnar. Það sem vakti athygli mína var að nokkur verkin voru sýnd í Samsung Frame sjónvörpum og var það í raun forvitnin sem fékk mig til að kíkja við, þar sem ég er bæði áhugasöm um hvernig hægt er að raða listaverkum smekklega á sjónvarpsvegg ásamt því að ég hef mikinn áhuga á því að kynna mér betur íslensku myndlistarflóruna og uppgötva nýja listamenn. Það kom sér því afskaplega vel að á sýningunni hitti ég óvænt hana Olgu Lilju sem er listrænn stjórnandi Y Gallery og úr varð að ég fékk að taka stutt viðtal við hana og fræðast enn meira ♡

“Hér mætast stílhrein og klassísk hönnun, snjalltækni nútímans og hópur okkar fremsta listafólks.”

Ljósmyndari: Gunnar Bjarki

Segðu okkur í stuttu máli frá sýningunni? 

Sýningin tekur saman verk átta myndlistarmanna sem við höfum unnið með. Sýningin inniheldur nokkur videoverk auk verka á pappír, skúlptúr og textílverk.

Hvað er það sem einkennir Y Gallery? 

Galleríið er staðsett á mjög óhefðbundnum stað, ekki bara fyrir gallerí heldur bara yfir höfuð. Það er á Olís bensínstöðinni í Hamraborg, samhliða gallerírekstrinum eru bensíndælurnar í notkun allan sólarhringinn. Rýmið er sérstakt að því leyti að það er þakið gluggum nánast allan hringinn þannig að sýnileikinn er mikill utan frá, nánast svona drive-through gallerí. Síðan er umhverfið náttúrulega stórskemmtilegt, bílakjallarinn í Hamraborg. Auk sýningadagskrár í gallerí rýminu höfum við tekið að okkur ýmis verkefni í samstarfi við fyrirtæki og aðrar stofnanir t.a.m. Auglýsingahlé Billboard sem myndlistarsýning í samstarfi við fyrirtækið Billboard sem rekur yfir 400 auglýsingaskjái í Reykjavík. Fyrir það verkefni er einn listamaður valinn til að sýna á öllum skjánum á sama tíma í þrjá daga samfleytt. Síðan er þetta samstarf við Ormsson mjög áhugavert. Til að draga saman þetta langa svar má segja að það sem einkennir starfsemi Y er að koma myndlist á framfæri í óhefðbundnu rými og samhengi.  

Olga Lilja Ólafsdóttir. Listrænn stjórnandi Y Gallery

Hver voru þín fyrstu viðbrögð við að halda listasýningu í raftækjaverslun? 

Þetta lá bara beint við, við hjá gallerínu höfðum talað um hvað það væri gaman að sýna fleiri videoverk á þessum nýju skjám, og síðan höfum við gaman af svona óhefðbundnu samhengi.

Hvernig er að sýna listaverk í sjónvarpi? 

Það fer náttúrulega kannski svolítið eftir sjónvarpinu, og umhverfinu. Það er eins og að sýna listaverk í ramma, það fer eftir rammanum og hvar hann er hengdur upp.

Eru videoverk eitthvað sem við eigum von á að sjá meira af? 

Videoverk hafa verið mjög fyrirferðamikil á myndlistarsýningum í galleríum og söfnum síðustu áratugi. Hinsvegar rata þau sjaldan inn á heimili fólks. Þeir sem hafa keypt videoverk hafa kannski í flestum tilfellum verið safnarar eða söfn, en við viljum breyta því. Videoverk geta átt við hvern sem er og það er gaman að geta komið þeim í annað samhengi utan hefðbundinna sýningarsala myndlistar. Það sem við munum sjá meira af er að fólk fái sér skjái sem umgjörð fyrir listaverk

Núna eru sjónvörp oft miðpunktur stofunnar á flestum heimilum, lumar þú á góðu ráði við uppröðun hvernig hefðbundið sjónvarp getur orðið partur af fallegum myndavegg? 

Í fyrsta lagi er gott að losna við snúrurnar, sumir þessara skjáa notast einungis við eina snúru sem hægt er að þræða í gegnum vegginn eða fella inn í vegg. Síðan eru sjónvörp náttúrulega oft mjög stór og þá er gott að huga að því að hafa jafnvægi með öðru stóru verki á veggnum, til að má aðeins út einmitt það sem þú bendir á, að sjónvarpið sé fókuspunktur rýmisins.

Hvað er gott að hafa í huga þegar raða á saman vel heppnuðum myndavegg? 

Kaupið verk sem virkilega tala til ykkar, ekki bara fagurfærðilega heldur hugmyndafræðilega. Síðan er um að gera að skoða fleiri verk eftir sama höfund og velta fyrir sér verkinu í stærra samhengi þess sem listamaðurinn fæst við. Það er það sem við höfum lagt áherslu á þegar við höfum verið að aðstoða við kaup og upphengi á listaverkum. Listamenn vinna líka í allskonar miðla, videoverk, ljósmyndir, skúlptúr, keramik, prent, teikningu, málverk og textíl, það getur verið áhugavert að skoða mismunandi miðla, ekki bara verk í ramma. Síðan held ég líka að það sé hollt að kaupa líka verk sem stuða mann aðeins, ögra aðeins því sem maður tekur sem gildu og fá mann til að hugsa, eða verk sem takast að vera bæði forljót og undurfalleg á sama tíma.

Áttu þér þitt uppáhalds listaverk?

Að velja sér uppáhalds listaverk er ansi erfitt en eitt minnistæðasta listaverk sem ég hef séð er myndbandsverkið Visitors eftir Ragnar Kjartansson sem ég sá í Kling & Bang á sínum tíma.

Eigum við von á fleiri svona óhefðbundnum sýningum frá Y gallery? 

Já heldur betur, það virðast vera endalausir möguleikar á skemmtilegu samstarfi.

Ljósmyndari: Gunnar Bjarki

 

“Í tilefni 100 ára stórafmælis Ormsson hefur Gallery Y tekið saman safn verka sem sýnd verða í versluninni í Lágmúla 8 og stendur sýningin yfir til 22. október.

Sérstök áhersla er lögð á videoverk á sýningunni og öll verkin sýnd á Samsung Frame QLED skjáum. Videolist hefur verið fyrirferðarmikil í heimi myndlistar áratugum saman, hvort sem verkin eru sýnd á skjáum eða skjávörpum, í galleríum eða á söfnum. Minna hefur farið fyrir videoverkum í heimahúsum, sem að einhverju leiti stafar af vöntun á viðeigandi umgjörð fyrir verkin. Með tilkomu skjáa eins og þeirra sem Samsung býður upp á, sem eru þunnir, glampafríir og þarfnast einungis einnar snúru, opnast sá möguleiki að hafa videoverk til sýnis á heimilum. Hér mætast stílhrein og klassísk hönnun, snjalltækni nútímans og hópur okkar fremsta listafólks.”
 
Fyrir áhugasama þá stendur sýningin yfir til 22. október og hvet ég ykkur til að kíkja við á næstu dögum. Ég elska svona óhefðbundin samstörf og þessi listasýning kom mér virkilega á óvart sem og Ormsson að detta þessa snilld í hug. Eitt veit ég þó og það er að óskalistinn minn lengdist skyndilega ♡

TIPS & TRIX: HVERNIG Á AÐ INNRÉTTA Í KRINGUM SJÓNVARP?

Ég fann svo þessa færslu hér frá árinu 2017 þar sem ég velti því einnig fyrir mér hvernig mætti raða í kringum sjónvörp til að þau falli betur að heimilinu og okkar stíl. Ég hef oft gaman af þessum gömlu færslum og þessi stendur ágætlega í dag fyrir utan það að tækninni hefur svo sannarlega fleygt fram!
“Ef það er einn hlutur á heimilinu mínu sem ég á í hvað mestu ástar-haturssambandi við þá er það sjónvarpið. Það er sá hlutur sem við flest eigum en sjáum þó sjaldnast í innlitum og eina ástæða þess hlýtur hreinlega að vera hversu agalega ljót þau geta verið og kjósa því tímaritin oft að fela þennan hlut frá okkur lesendum.” haha já þar hafið þið það. En þetta var augljóslega skrifað áður en ég vissi að Samsung Frame væri til!
Takk kæra Olga fyrir spjallið og mikið sem ég er spennt fyrir því að kynna mér enn betur íslenska list.
Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgja Y Gallery á Instagram hér og Ormsson hér.

AÐ GERA SVEFNHERBERGIÐ JAFN NÆS OG Á HÓTELI

Skrifa Innlegg