fbpx

UPPSKRIFT : SYKURLAUS SÚKKULAÐIKAKA

Matur & bakstur

Hér kemur uppskriftin af uppáhalds sykurlausu súkkulaðikökunni minni. Undanfarnar 6 vikur + hef ég verið 100% sykurlaus og náð að sleppa öllum hvítum sykri í matarræði sem hefur verið mjög áhugavert verkefni að takast á við, það er nefnilega sykur í ótrúlegasta mat sem við hefðum haldið að væri “hollur matur”. En það er efni í aðra færslu. Fyrir mér er alveg nauðsynlegt að leyfa mér góðan mat og allskyns sykurlaust góðgæti og þessi kökuuppskrift hefur reynst mér vel að geta gripið í um helgar t.d. Innihaldið er einfalt og þar sem ég er enginn bökunarsnillingur þá hentar það ansi vel.

*Hér er ég að baka tvöfalda uppskrift fyrir afmælið mitt sl. helgi:) 

// Uppskrift upprunalega frá Sugarfree Londoner en smá breytt hér að neðan, uppskriftina fékk ég frá Ingu Ingjaldsdóttur sem veitti mér mörg góð ráð varðandi sykurlaus sætindi. Uppskriftin er merkt “Fabulously fudgy Keto brownies” en þó tek ég fram að ég fylgi engu sérstöku matarræði og borða 100% venjulegan mat en les þó á bakvið allar umbúðir og sneiði hjá því sem er með hvítum sykri í.

UPPSKRIFT

  • 175 g / smjör, mjúkt
  • 80 g /  Sukrin Gold (gervisæta – til í bakstursdeild / ég set jafnvel minna).
  • 3 egg
  • 40 g / 1/3 bolli kakó
  • 175 g / sykurlaust súkkulaði frá Valor (með Stevía merkinu) – ég hef prófað að baka bæði með dökka súkkulaðinu og mjólkursúkkulaðinu og er hrifnari af mjólkursúkkulaðinu þó uppskriftin segi amk 75% dökkt. 
  • 75 g / 3/4 bolli möndlumjöl. 

Aðferð:

    1. Forhitaðu ofninn í 180 gráður.

    2. Bræddu súkkulaðið. Ég hita oftast yfir vatnsbaði en svo hefur mér þótt virka jafn vel í örbylgju.

    3. Blandaðu saman MJÖG mjúku smjöri (eða bræddu), sætunni, eggjum og kakó. Ég nota þeytara – uppskriftin segir, blandara eða matvinnsluvél.

    4. Bættu við súkkulaðinu og möndlumjöli og hrærðu vel saman þar til deigið er þykkt og mjúkt.

    5. Settu bökunarpappír í mót – ég baka oftast í eldföstu móti en langar að prófa mig áfram með hringform og gera hana aðeins huggulegri.

    6. Fylltu mótið – og bakaðu í 15-20 mínútur. (Uppskrift segir 25 mín en ég fylgist vel með henni:)

      Leyfðu kökunni að kólna áður en þú tekur hana úr forminu. Kakan verður mjög mjúk þegar hún er heit, en stífnar svo þegar hún kólnar. 

Ég hef bakað þessa köku um fimm sinnum núna sem er mikið á minn bakstursmælikvarða og ég er alltaf sátt með að bera kökuna / brownies fram með þeyttum rjóma og berjum. Einnig getur verið gott að bræða sykurlaust súkkulaði með smá rjóma og setja ofan á! Mmmm þarf að prófa það næst:) Ef þið eruð með spurningar þá megið þið endilega skjóta, ég fékk allskyns góð ráð frá nokkrum dömum og vil glöð deila áfram hversu dásamlegt það er að vera laus við sykur úr lífinu.

Lumar þú á fleiri sykurlausum uppskriftum? Sendu endilega á mig ♡

// Fylgstu einnig með á Instagram @svana.svartahvitu 

 

LJÓST & RÓMANTÍSKT Í STOKKHÓLMI

Skrifa Innlegg