Mér þykir smá skrítið að tala sérstaklega um svefnherbergi eða stofu á nýja heimilinu þar sem þetta er jú eitt og sama herbergið. En svefnherbergið er að minnsta kosti orðið nokkuð huggulegt eftir að ljósið var loksins hengt upp og rósettan einnig fest í loftið, liturinn er minn ástkæri Svönubleikur sem fæst í Sérefni en á gamla heimilinu okkar þá var hann á anddyrinu svo hann sást ekki mjög oft. Ég hinsvegar elska þennan lit, hann er svo bjartur og fallegur og alls ekkert of væminn að mínu mati. Ég hef fengið sendar nokkrar myndir frá þeim sem hafa málað með Svönubleika litnum og það veitir mér mikla gleði, meira að segja er þarna úti eitt stykki Svönubleikt eldhús ♡
Ég hef alltaf verið mjög hrifin af rósettum og finnst þær gera heimili svo hlýleg og brýtur upp loftið sem annars er lítið spennandi, og setti upp sitthvora 40cm í stofu og svefnherbergi og svo eina 20cm í barnaherbergið sem ég á eftir að sýna ykkur.
Helgin fær að fara í smá stúss, en þó það sjáist ekkert endilega þá er enn heilmikið eftir að gera og koma fyrir sem ég hef dreift út um allt húsið. // Bleika rúmteppið er frá TAKK home, rúmfötin frá IHANNA home, Eclipse lampinn er frá HAF store og rósettan frá Sérefni. Þið bara spurjið ef það er eitthvað fleira sem þið viljið vita…
Hillur og myndir fara næstar upp – þessari hillu rændi ég af foreldrum mínum en þau tóku líka String hilluna mína haha. Ég meina það… mér finnst stundum eins og ég sé aftur orðin tvítug komin hingað. – Svo það sé alltaf á hreinu þá erum við öll fjölskyldan hér, Andrés, Bjartur og Betúel ♡
Eigið góða helgi – ykkur er velkomið að fylgjast með á instagram @svana.svartahvitu og á snapchat @svartahvitu
Skrifa Innlegg