Undanfarið hef ég verið að spá mikið í sófum, í fyrsta lagi því við þurfum að kaupa sófa fyrir bústaðinn góða sem við erum að taka í gegn, en einnig vegna þess að sófinn á heimilinu er orðin örlítið þreyttur og þarfnast hvíldar. Ég og mamma höfum verið að spá í sófum fyrir bústaðinn en hennar draumasófi er Stocksund frá Ikea sem var þó uppseldur, en minn er þessi hér að neðan. Ghost sófinn sem hannaður er af Paola Navone fyrir ítalska Gervasoni. Hann er einfaldur í útliti, kósý og toppurinn er sá að auðvelt er að skipta um áklæði á honum og gjörbreyta þannig rýminu.
Þessar myndir eru allar frá heimili hennar Anniku Von Holdt sem er danskur rithöfundur og þvílík smekkdama. Hún heldur einnig úti gífurlega vinsælum instagram reikning sem ég mæli með.
Bleikur, grár, blár eða hvítur? Þvílíkur draumasófi ekki satt! Fyrir áhugasama þá er Módern með umboðið fyrir Gervasoni.
Ég vil endilega heyra frá ykkur hvar flottir sófar fást – ég er einnig mjög hrifin af Söderhamn frá Ikea sem ég hef áður bloggað um. Klassískur, stílhreinn og töff. Það fer að minnsta kosti að koma tími á sófaskipti, ég hef nú þegar fjarlægt sófapúðana úr mínum því þeir voru orðnir of sjúskaðir og ég fyllti í staðinn sófann af skrautpúðunum mínum sem er mögulega ekki besta lausnin.
Skrifa Innlegg