fbpx

SARA DÖGG INNANHÚSSHÖNNUÐUR SPJALLAR UM NÝJASTA VERKEFNIÐ // HÖNNUN NINE KIDS

BarnaherbergiÍslensk hönnunSamstarf

Innanhússhönnuðurinn Sara Dögg Guðjónsdóttir er þekkt fyrir einstakan stíl og nýlega tók hún að sér að hanna nýja verslun Nine Kids í Bæjarlind og er útkoman án efa ein af fallegri verslunum landsins. Stíllinn er einstaklega hlýlegur og það er notalegt að eiga stund þarna inni, fá sér kaffibolla og skoða fallegar barnavörur í ró og næði. Að ganga þarna inn í fyrsta sinn þá er VÁ fyrsta orðið sem kemur upp í hugann, á móti þér tekur glæsileg móttaka nánast eins og á hóteli. Ég heyrði aðeins í Söru Dögg og fékk að forvitnast um ferlið sem liggur á baki þess að hanna verslun og hvernig henni tókst að ná fram þessari notalegu umgjörð sem einkennir verslunina en fyrir þau ykkar sem ekki vita, þá var hér áður staðsettur skemmtistaðurinn Spot og því um heljarinnar breytingu að ræða.

Værir þú til í að deila með okkur smá hugmyndavinnu frá ferlinu eða „moodboard“?

„Við lögðum upp með það í byrjun að hanna heimilislega verslun, þ.e.a.s að notast við hlýja liti, dempaða lýsingu og bæta við textíl.“

Segðu okkur aðeins frá ferlinu við að hanna barnavöruverslun, og er þetta alveg gjörólíkt því þegar þú hannar heimili? Ferlið var ótrúlega skemmtilegt, það var í styttra lagi en þetta heppnaðist vel. Sigga, Helga og mennirnir þeirra eru greinilega vel að sér komin í verkstjórnun. Beinagrindin á rýminu var góð svo að við gátum nýtt okkur hana og byggt svo ofan á. Þarna vorum við að reyna að vinna með það sem var til staðar og það sem þær áttu í fyrra rými því að tíminn var naumur. Ég myndi segja að það sé á sama tíma líkt og ólíkt að hanna verslun og að hanna heimili. Við lögðum upp með það í byrjun að hanna heimilislega verslun, þ.e.a.s að notast við hlýja liti, dempaða lýsingu og bæta við textíl. En á sama tíma þurfum við að setja okkur í spor kúnnans og skoða hegðun hans. Þá þarf flæði, aðgengi og sýnileiki að vera upp á tíu. Þarna eru kerrur og sveiflandi bílstólar daglegt brauð. Það væri því leiðinlegt að vera reka sig í eða lenda í kerru umferð.

Hér má sjá tölvuteikningar Söru Daggar af versluninni. Ég elska að fá að fylgjast með því ferli sem liggur að baki þess að hanna heimili / verslanir og jafnvel ferlið á bakvið það að hanna vöru en það er oft mjög skemmtilegt og fræðandi að sjá meira en aðeins lokaútkomuna. Þessar teikningar veita mikinn innblástur, sjáið hvað þetta er allt saman fallegt og litavalið er alveg fullkomið.

„mín sýn var að skapa upplifun og nota þessa symmetrísku innkomu til að búa til eins konar hótel reception vibe“

Hverjar voru helstu óskir frá Nine Kids varðandi útlit verslunarinnar? Helstu óskir þeirra voru að halda í sama fílinginn og skapa þetta hlýja, notalega andrúmsloft sem þær byrjuðu með í Fellsmúlanum sem var svo einkennandi fyrir Nine Kids. Við héldum því í „mood-ið“ og unnum í kringum fallega litapallettu með skvettu af andstæðum eins og má finna í lógóinu þeirra. Við vildum búa til ákveðna upplifun fyrir kúnnann, við vildum að andrúmsloftið grípi þig aðeins og faðmi þig með hlýju sinni. Til að gefa henni þessa heimilislegu tilfinningu þá létum við sauma gólfsíðar gardínur úr mjúku hörlíki og notuðumst við lýsingu í nokkrum levelum ásamt því að skapa dýpt í búðinni með veggþiljum. Veggir og loft voru svo sprautuð með sama litnum sem gefur rýminu extra dýpt og býr til faðminn.

Grænn litur hefur einkennt innréttingar Nine Kids fyrir flutninga, hvernig er litapallettan á nýja staðnum? Nýji liturinn er aðeins reyktari en hann hefur verið. Við tókum græna litinn þeirra og dýpkuðum hann aðeins. Hann er þessi fullkomni hlýji brúngrái litur með grænum undirtón sem rífur í. Þær voru einmitt pínu hræddar að bregða út fyrir græna litinn og fannst þær vera hálfpartinn að svíkja þeirra einkenni. En eins og ég nefndi við þær, það var ekki endilega þessi græni litir sem einkenndi þær, það sem einkenndi þær var að þær fóru aðra leið og máluðu barnavöruverslun dökka og bjuggu því til þetta dempaða andrúmsloft. Kúnninn tengdi við það, hann tengdi við þessa upplifun og þessa tilfinningu þegar hann labbaði inn í Nine Kids, þarna var búið að búa til smá drama með dökkum lit, dökkum innréttingum og fallegri lýsingu.

Núna er nýja verslun Nine Kids staðsett þar sem áður var vinsæll bar, hverjar voru helstu áskoranirnar varðandi það? Við byrjuðum náttúrulega á því að rífa allt baksvæðið, það var mikið hólfað niður, stærðarinnar eldhús og klósettaðstaða fyrir heilan skemmtistað. Þetta svæði þurfti að vera einn geimur, einn stór lager. Salurinn frammi var líka að einhverju leiti hólfaður niður og barir upphækkaðir sem þýddi að gólfefnin voru svolítið köflótt. Við náðum samt að bæta í þessi sár án þess að þurfa leggja annað gólfefni. Að öðru leiti var grunnurinn nokkuð góður til að vinna með.

Hvernig er stíllinn sem einkennir nýju búðina? Ég myndi ekki endilega pinna þetta á einn stíl. Mín sýn var að skapa upplifun og nota þessa symmetrísku innkomu til að búa til eins konar hótel “reception vibe” með stóru afgreiðsluborði og fallegu bakdroppi. Súlurnar við innkomu eru burðarsúlur svo að ég hugsaði að taka eitthvað sem er hávært og plássfrekt í rýminu og gera það að einhverjum skartgripi í rýminu, sem að ég gerði með því að skipta upp veggþiljunum og bæta við skrautlýsingu. Hangandi ljósin við innkomu búa svo til þennan vá faktor og draga þetta allt saman. Þau voru eitt af því fyrsta sem þær nefndu við mig, þær vildu fá mörg ljós í mismunandi hæð sem minntu mann á ský, eitthvað draumkennt.

Hvað finnst þér vera mikilvægast við að skapa notalegt andrúmsloft í verslunum?Það er auðvelt að segja góð samsetning lita og efna – en það sem gerir þetta extra djúsí eru gardínur og lýsing í nokkrum levelum, eins þessi dýpt sem veggþiljur og vegglistar skapa.

Var eitthvað í ferlinu sem kom á óvart? Nei ekki beint, þetta gekk lygilega vel fyrir sig. Ég var alveg búin að búast við því að þær þyrfti að fresta opnun en svo varð ekki, dagurinn stóðst og allir skiluðu sínu.

Hvað er svo á döfinni hjá þér? Það er mjög margt skemmtilegt á teikniborðinu. Ég er að hanna veitingastað, bar og brugghús sem mun opna í vor – Einstaklega skemmtilegt og öðruvísi verkefni. Innanhússverkefnin er líka á sínum stað, eldhússhönnun, hjónasvítur og endurbætur á baðherbergi svo eitthvað sé nefnt. Ég er einnig að veita einstaka ráðgjafir þar sem ég mæti heim til fólks með hugmyndir, fróðleik og lausnir sem fanga augað. Ég er mjög fljót að fá tilfinningu fyrir rýminu og sjá bestu lausnirnar fyrir það. Það er mjög margt sem hægt er að fá út úr klukkustund, bara það að fá önnur augu getur hjálpað helling – maður verður óhjákvæmilega samdauna rýminu sínu. Þá er gott að fá einhvern utan aðkomandi sem þrífst í þessu til að aðstoða.

Takk kæra Sara Dögg fyrir spjallið, fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast með henni á Instagram @sdgudjons

Hér að neðan má svo sjá myndir sem ég tók aðeins örfáum dögum fyrir opnun – en hér sést vel hversu stór verslunin er og fær hver hlutur sín vel notið, sérstakt horn fyrir kerrurnar og barnastóla í einum enda verslunarinnar og í hinum eru fötin og leikföngin.

Til hamingju team Nine Kids með glæsilega verslun og til hamingju Sara Dögg fyrir enn eitt frábærlega vel heppnað verkefni sem þú skilar af þér ♡

FAGURKERINN GUÐRÚN ANDREA SELUR HEIMILIÐ

Skrifa Innlegg